Athugasemd vegna kortafærslu

Korthafa ber að snúa sér fyrst til söluaðila og reyna að leysa málið beint við hann áður en send er inn athugasemd við færslu.

Athugasemd vegna kaupa á vöru eða þjónustu

Ef um er ræða færslu vegna kaupa á vöru eða þjónustu ber korthafa að snúa sér fyrst til söluaðila og reyna að leysa málið beint við hann áður en send er inn athugasemd við færslu. Rétt er að benda á að ekki er hægt að hefja vinnu við mál sem ekki er búið að reyna fyrst að leysa beint við söluaðila.

Almennt gildir að endurkröfuréttur er ekki til staðar, nema skilmálar um kaup á vöru eða þjónustu tilgreini að viðskiptavinur eigi rétt á endurgreiðslu þegar hann afpantar.


Varðandi Covid-19 aðstæður þá er um þrennt að ræða:

 1. Söluaðili fellir niður þjónustu án þess að yfirvöld skyldi hann til þess – þá er endurkröfuréttur, ef söluaðili leysir ekki úr málinu. Korthafinn á rétt á endurgreiðslu, en má þiggja gjafabréf eða inneign ef hann er sáttur við það.

 2. Söluaðili fellir niður þjónustu vegna banns yfirvalda, hann má ekki veita hana – þjónustan er ekki afbókanleg, söluaðilinn verður að bjóða eitthvað í staðinn. Endurgreiðslu, inneign, inneignarnótu, breytingu á dagsetningu eða  annan sanngjarnan valkost sem samræmist kaupskilmálum í stað þeirrar þjónustu sem korthafi fær ekki. Ef söluðilinn býður ekkert af þessu þá á korthafinn endurkröfurétt.

 3. Söluaðili fellir niður þjónustu vegna banns yfirvalda, hann má ekki veita hana – þjónustan er afbókanleg og korthafinn afbókar samkvæmt skilmálum, ef söluaðili endurgreiðir ekki (ef greitt hefur verið fyrir fram) eða rukkar þrátt fyrir afbókun þá er endurkröfuréttur.

Endurgreiðslur

Viðskiptavinur reyni eftir fremsta megni að fá endurgreiðslu eða breytingu hjá söluaðila.

Er hægt að afpanta án endurgjalds?

Nauðsynlegt er að ganga sem fyrst frá afpöntun og þá innan tilskilins tímafrests.

Ef ekki er hægt að afpanta án endurgjalds. Þá þarf að hafa samband við söluaðilann og reyna að leysa málið með honum á farsælan hátt. Söluaðilinn þarf að bjóða endurgreiðslu, inneign, inneignarnótu, breytingu á dagsetningu eða annan sanngjarnan valkost sem samræmist kaupskilmálum í stað þeirrar þjónustu sem korthafi fær ekki. Ef söluðilinn býður ekkert af þessu þá á korthafinn endurkröfurétt.

Fyrirséð er að söluaðili endurgreiði ekki

 • Viðskiptavinur er með staðfestingu á því að þjónustuaðili endurgreiði ekki. Til dæmis svar í tölvupósti.
 • Tilfellið fellur ekki undir kortatryggingar.
 • Færslan/færslurnar eru innan tilskilins tímaramma:
  • Ef færslan sem var gerð í upphafi er orðin eldri en 540 daga þá er ekki hægt að gera endurkröfu.
  • Ef meira en 120 dagar eru liðnir frá væntri afhendingu vöru (t.d. frá því að flug átti að fara) þá er ekki hægt að gera endurkröfu.

Flug eða skemmtisigling


 • Viðskiptavinur skal hafa samband við flugrekstraraðila, ferðaskrifstofur eða skipafélag vegna endurgreiðslna eða breytinga á ferðadagsetningum. Söluaðili þarf að bjóða endurgreiðslu, inneign, inneignarnótu, breytingu á dagsetningu eða annan sanngjarnan valkost sem samræmist kaupskilmálum í stað þeirrar þjónustu sem korthafi fær ekki. Ef söluðilinn býður ekkert af þessu þá á korthafinn endurkröfurétt.
 • Flugfélög hafa almennt birt greinagóðar upplýsingar á heimasíðu sinni til að leiðbeina þeim sem eiga flug og oft hægt er að breyta flugdagsetningum í gegnum síðuna þeirra.

Farþegar sem eiga bókað í flug sem er flogið, en þeir mega ekki ferðast vegna ferðabanns í viðkomandi landi

 • Endurkröfuréttur er ekki fyrir hendi ef aðilinn er fær um að veita þjónustuna.
 • Forfallatrygging gæti gilt hjá tryggingarfélögum fyrir ferðir til landa sem eru lokuð fyrir ferðamönnum (ferðabann). Eins fyrir hótel og bílaleigubíla. Áður en krafa er lögð fram hjá tryggingafélagi þarf að skoða vel hvort að þjónustan eigi að vera veitt á þeim degi sem bannið er í gildi og hvort að viðkomandi geti fengið endurgreiðslu frá söluaðilanum. Nánari upplýsingar veitir Vörður.

Önnur skipulögð dagskrá

 • Hafa samband við söluaðilann og reyna að leysa málið með honum á sem farsælastan hátt.Viðskiptavinur þarf að afpanta miða ef það er mögulegt án endurgjalds, breyta dagsetningu eða fá endurgreitt frá söluaðila ef hægt er.
 • Ef söluaðili verður að aflýsa viðburði vegna banns yfirvalda og bjóði söluaðili korthafa endurgreiðslu, inneign, inneignarnótu, breytingu á dagsetningu eða annan sanngjarnan valkost sem samræmist kaupskilmálum í stað þeirrar þjónustu sem korthafi fær ekki, en korthafi ákveður að hann vilji ekki verða við boði söluaðila um annan valkost (t.d. ef söluaðili ákveður að færa viðburðinn á aðra dagsetningu og bjóða korthafa á þann viðburð, en korthafinn kemst ekki) er ekki endurkröfuréttur.
 • Ef söluaðili getur ekki veitt þjónustuna vegna banns yfirvalda þá ætti korthafi að reyna að leysa málið við söluaðilann (líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, árskort að söfnum, leikhúsi, bíósýningum, tónleikum, skemmtigörðum o.s.frv.). Ef bókunarskilmálar söluaðila bjóða ekki upp á afbókun (non -refundable) verður korthafi að reyna að leysa málið beint við söluaðila fyrst. Söluaðila ber að bjóða endurgreiðslu, inneign, inneignarnótu, breytingu á dagsetningu eða gildistíma eða annan sanngjarnan valkost sem samræmist kaupskilmálum í stað þeirrar þjónustu sem korthafi fær ekki. Geri söluaðili það ekki þá á korthafi endurkröfurétt, að því gefnu að skilyrði kortasamtakanna séu uppfyllt.
 • Ef endurgreiðsla berst ekki 15 dögum eftir að sótt er um hana hjá söluaðila er hægt að gera athugasemd við færslu, svo fremi sem réttur til afbókunar og endurgreiðslu hafi verið til staðar samkvæmt bókunarskilmálum.
 • Atburðir, leikhús, tónleikamiðar eða skipulagðar ferðir eru yfirleitt ekki bætt í kortatryggingum.

Hótel og bílaleigubílar

 • Viðskiptavinur þarf sjálfur að afbóka hótel og bílaleigubíla og hafa sönnun fyrir því að hann hafi gert það eins fljótt og auðið er og innan þeirra tímamarka sem gefin eru til afbókunar hjá söluaðila.
 • Ef endurgreiðsla berst ekki 15 dögum eftir að sótt er um hana hjá söluaðila er hægt að gera athugasemd við færslu.
 • Ekki er hægt að gera endurkröfu á þjónustu sem keypt hefur verið með skilmálum „án endurgreiðslu“ (non refundable).
 • Viðskiptavinur getur kannað rétt sinn hjá Verði ef um er að ræða hótelgistingu eða bílaleigubíl sem keypt hefur verið með skilmálum „án endurgreiðslu“í landi þar sem ríkir ferðabann.

Svikafærslur

Ef færsla kemur á kort sem korthafi kannast ekki við eða hann telur færsluna af einhverjum ástæðum ekki eiga rétt á sér ber korthafa að hafa samband sem fyrst við bankann. Reynist grunur um að svikafærslur séu á kortum þá er mjög mikilvægt að loka viðkomandi greiðslukorti áður en endurkröfuferlið er sett af stað.

 • Hámarksfjöldi færslna er innan við  35 stk.

Almennt um athugasemdir

Til þess að minnka hættuna á að mál tefjist um of eða falli jafnvel niður t.d. vegna ófullnægjandi gagna eða þess að tímafrestur renni út. Þarf að tryggja að öll gögn sem styðja við umsókn um athugasemd við færslu fylgi umsókninni til bankans. Undirskrift korthafa er nauðsynleg ef endurkrafa er gerð vegna færslu. Athugasemd þarf að koma inn eins fljótt og auðið er til bankans.


Gögn sem þurfa að liggja fyrir við innsendingu endurkröfu

 • Staðfesting á upprunalegu pöntuninni.
 • Afrit af staðfestingu á afpöntun.
 • Afrit af samskiptum við seljanda eða sönnun þess að korthafi hafi reynt að hafa samband við söluaðila.
 • Varðandi bílaleigur þá þarf að skila inn upprunalegum samningi.

Ef einhverjar spurningar vakna varðandi athugasemd við færslu er hægt að hafa samband við þjónustufulltrúa bankans.

Einnig er hægt að fylla út eyðublaðið athugasemd vegna kortafærslu skanna það, undirrita eða senda á landsbankinn@landsbankinn.is sem getur sent þér aftur til undirritunar með rafrænum skilríkjum.