Fjármögnun

Fjármögnun Landsbankans grundvallast á þremur meginstoðum; innlánum frá viðskiptavinum, fjármögnun á markaði og eigin fé. Lánshæfiseinkunn bankans er metin BBB+/A-2 með stöðugum horfum af Standard & Poor‘s.

Innlán frá viðskiptavinum

Stærstur hluti fjármögnunar Landsbankans er í formi innlána frá viðskiptavinum og námu þau 637milljörðum króna í lok árs 2017, að mestu leyti óverðtryggð og óbundin. Verðtryggð innlán námu 106 milljörðum króna í árslok 2017.

Lántökur

EMTN-skuldabréfaútgáfur á erlendum markaði vega þyngst í lántökum bankans en útgáfurnar hafa verið nýttar til endurfjármögnunar skuldabréfaútgáfu til LBI hf. sem var greitt upp að fullu á árinu 2017. Gert er ráð fyrir áframhaldandi útgáfum á erlendum markaði. Landsbankinn er auk þess reglulegur útgefandi sértryggðra skuldabréfa og víxla á innlendum skuldabréfamarkaði.

EMTN-skuldabréfarammi

Landsbankinn hefur sett upp EMTN-ramma að fjárhæð 2 milljarðar evra og voru fyrstu skuldabréfin gefin út haustið 2015. Í lok árs 2017 námu skuldabréfaútgáfur undir rammanum að jafnvirði 191 milljarða króna í evrum, norskum og sænskum krónum. Skuldabréfin eru skráð í írsku kauphöllinni.

Skuldabréfaútgáfa til LBI hf.

Samið var um erlenda skuldabréfaútgáfu Landsbankans til LBI hf. við tilfærslu eigna og skulda frá LBI hf. til bankans árið 2009. Eftirstöðvar skuldabréfanna voru að fullu greidd upp á árinu 2017.

Sértryggð skuldabréf

Landsbankinn hefur sett upp 120 milljarða króna útgáfuramma fyrir sértryggð skuldabréf og er útgáfa þeirra fyrst og fremst ætluð til fjármögnunar íbúðalánasafns bankans og til að draga úr fastvaxtaáhættu. Sértryggð skuldabréfaútgáfa bankans nam 70 milljörðum króna í árslok 2017. Skuldabréfin eru skráð á Nasdaq Iceland.

Víxlar

Útgáfurammi fyrir víxla og skuldabréf að fjárhæð 50 milljarðar króna hefur eingöngu verið nýttur til útgáfu víxla á innlendum markaði. Víxlaútgáfa bankans nam 7 milljörðum króna í árslok 2017. Víxlarnir eru skráðir á Nasdaq Iceland.

Hlutafé

Þriðja meginstoð fjármögnunar Landsbankans er hlutafé. Eigið fé bankans nam 246 milljarði króna í lok árs 2017 og var eiginfjárhlutfall bankans 26,7% á sama tíma.

Lánshæfismat

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor’s metur lánshæfi Landsbankans. Lánshæfismatseinkunn bankans er nú BBB+ / A-2 með stöðugum horfum.

Nánar

Sértryggð skuldabréf

Upplýsingar um sértryggð skuldabréf gefin út af Landsbankanum.

Nánar