Fréttir

- Fjárfestatengsl

Afkoma Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2011

Hagnaður Landsbankans var 24,4 milljarðar króna eftir skatta á fyrri hluta ársins. Þar af nam gengishagnaður vegna hlutabréfa í eigu Horns hf., dótturfélags bankans, um 9 milljörðum króna. Fyrirsjáanlegt er að tap verði af hlutabréfum á þriðja ársfjórðungi.

Hagnaður af aflagðri starfsemi var 4,7 milljarðar króna. Þar vegur þyngst salan á Vestia og Icelandic Group sem skilaði  4,1 milljarðs hagnaði.

Hagnaður af reglulegri starfsemi bankans er  um 10,7 milljarðar í samanburði við 6,6 milljarða á sama tíma árið 2010. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi bankans er 10,8%.

Virðisrýrnun á útlánasafni til einstaklinga nemur um 9 milljörðum króna. Virðisaukning lánasafns bankans til fyrirtækja nemur um 19 milljörðum króna.

Árshlutareikningur

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag

 • Eigið fé bankans er nú 207,7 milljarðar króna miðað við 184,9 milljarða króna í lok árs 2010.
 • Arðsemi eigin fjár Landsbankans var 24,9% á ársgrundvelli og eiginfjárhlutfall er nú 22,4%, lágmarkskrafa Fjármálaeftirlitsins er 16%.
 • Framlag til  LBI hf. í formi vaxtagreiðslna af skuldabréfi og uppgjörssamnings við Landsbankann á fyrri hluta ársins 2011 er um 11 milljarðar króna.
 • Hreinar rekstrartekjur námu alls 31 milljarði króna á tímabilinu samanborið við 18,4 milljarða króna á sama tímabili árið 2010.
 • Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu námu 16,8 milljörðum samanborið við 13,7  milljarða á sama tíma á árinu 2010.
 • Vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna var 3,1% miðað við 2,6% á sama tíma á árinu 2010.
 • Heildareignir bankans voru 1.126 milljarðar króna en staða í lok árs 2010 var 1.081 milljarðar króna.
 • Útlán í hlutfalli við innlán viðskiptavina voru  153,6% miðað við 159,6% í árslok 2010.
 • Heildarrekstrarkostnaður nam 10,8 milljörðum króna og hefur hækkað úr 9 milljörðum króna  sama tíma árið 2010. Það skýrist fyrst og fremst af kostnaði við yfirtöku á Spkef og almennum launahækkunum vegna kjarasamninga.
 • Kostnaðarhlutfall rekstrar á tímabilinu var 34,2% samanborið við 48,8% á sama tímabili 2010.
 • Hækkun á verðmæti eignarhlutar ríkisins í bankanum umfram vaxtakostnað þess af hlutafjárframlaginu á árinu 2011 er 20,7 milljarðar króna.  Frá stofnun bankans hefur hlutur ríkisins hækkað um 28,6 milljarða króna umfram fjármagnskostnað.

 

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans segir:

"Afkoma bankans er góð og hefur hagnaður af reglulegri starfsemi bankans aukist sem er ánægjuefni. Stærstur hluti hagnaðarins skýrist þó af gengisbreytingum á hlutafé og sölu eigna, en í heild er þó arðsemi bankans af kjarnastarfsemi viðunandi.

Við erum að ljúka boðaðri niðurfærslu á húsnæðislánum og öðrum lánum viðskiptavina og endurgreiðsla vaxta til skilvísra viðskiptavina er að hefjast. Jafnframt er fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja langt komin og við vonumst til að ljúka henni í upphafi næsta árs. Þetta hafa verið okkar meginmarkmið og nú hyllir undir að þau náist.

Það skiptir miklu að rekstur Landsbankans gangi vel svo hægt sé að takast á við þau verkefni sem framundan eru í erfiðu umhverfi, m.a. endurreisn íslensks atvinnulífs sem ekki getur beðið lengur. Við teljum okkur á réttri leið í rekstrinum og að bankinn verði vel undir skráningu á hlutabréfamarkað búinn ef stjórnvöld kjósa að fara þá leið."

Helstu þættir í starfsemi fyrri hluta árs

Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tók Landsbankinn við rekstri Spkef þann 7. mars síðastliðinn. Allir starfsmenn sparisjóðsins eru nú orðnir starfsmenn Landsbankans og allur rekstur á ábyrgð hins sameinaða félags. Öll starfsemi er nú undir merkjum Landsbankans.

Niðurstaða í máli Landsbankans hf. gegn þrotabúi Mótormax ehf. lá fyrir þann 9.júní síðastliðinn. Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar var að fallast á þá röksemd þrotabúsins að lán sem tekið hafði verið hjá Landsbanka Íslands hf. (gamla Landsbankanum) væri ekki í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu við erlenda mynt. Sérstök gjaldfærsla var gerð í uppgjöri bankans fyrir árið 2010 til að mæta áhrifum dómsins.

Landsbankinn lánaði til fjölmargra arðbærra verkefna á fyrstu 6 mánuðum ársins, þar með talið nýrrar verksmiðju Lýsis hf., til uppbyggingar gagnaversinsThor Data Center, til byggingar og rekstrar nýs hótels á Akureyri og til laxeldis Fjarðalax á Vestfjörðum svo fáein dæmi séu nefnd.  

Fyrri hluti árs einkenndist af uppbyggingu bankans og áherslu  á samræður við viðskiptavini bankans. Haldnir voru opnir fundir um alla land, kynntur sérstakur aðgerðalisti og um 2000 manns sóttu opnu fundina og fundi um  fjármál einstaklinga og fyrirtækja.  Þá kynnti bankinn stjórnarhætti sína opinberlega, starfsmenn undirrituðu siðasáttmála og nýrri veigamikilli stefnu í samfélagsmálum var hrundið í framkvæmd. 

Aðgerðir til lækkunar skulda heimila og fyrirtækja

Skuldalækkun heimila

Meginmarkmið bankans á fyrri helmingi ársins var að hraða uppgjöri skuldamála heimila og nýjar aðgerðir þess efnis voru kynntar í lok maí. Aðgerðirnar byggðu á traustri fjárhagsstöðu bankans og hafa veruleg áhrif á um 30.000 viðskiptavini. Aðgerðirnar eru þríþættar; breyting á 110% leið, endurgreiðsla vaxta til skilvísra viðskiptavina og lækkun annarra skulda en fasteignaskulda.

Lækkun fasteignaskulda hjá Landsbankanum,  með aðlagaðri 110% leið, miðar vel eftir þessar breytingar, en búið er að færa niður rúmlega 3.800 lán hjá um 2800 einstaklingum og er fjárhæð afskriftar vegna þessarar leiðar um 13 milljarðar króna sem komið er. Úrvinnslu þessara mála lýkur í þessum mánuði.

Í öðru lagi mun Landsbankinn endurgreiða tæplega 50.000 skilvísum viðskiptavinum sínum 20% af þeim vöxtum sem þeir hafa greitt frá 31.desember 2008 til 30. apríl 2011. Áætluð heildarendurgreiðsla er  4,9 milljarðar króna og mun endurgreiðslu verða lokið fyrir miðjan næsta mánuð. Meðalendurgreiðsla er því um 98.000 krónur.

Í þriðja lagi lækkar Landsbankinn aðrar skuldir viðskiptavina sinna, sem eru umfram eignastöðu og greiðslugetu þeirra. Niðurfærsla  þeirra skulda getur numið  allt að 4 milljónum króna fyrir einstaklinga og 8 milljónum fyrir hjón.  Lækkunin er gerð að undangengnu sjálfvirku greiðslumati og er úrvinnsla þessa hjá bankanum komin á lokastig.   Á næstu dögum verður haft samband við viðskiptavini til að  kynna þeim samning  vegna skuldaniðurfærslu lána. Stefnt er að því að búið verði að kynna öllum viðskiptavinum niðurstöður umsókna þeirra fyrir lok október.

Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja

Fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja miðar vel og er markmiðið að ljúka henni í upphafi næsta árs. Nú þegar hafa skuldir fyrirtækja verið færðar niður um 206 milljarða króna. Markmið bankans er að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu á fyrri hluta næsta árs. Jafnframt verður endurútreikningi lána sem hafa verið úrskurðuð ólögmæt lokið á fyrri hluta næsta árs. Búið er að reikna ríflega 1000 lán af þeim 5000 sem reiknuð verða. Samkvæmt þeim útreikningum er niðurfærsla höfuðstóls lánanna að meðaltali um 45%. Um 67% þeirra fyrirtækjalána sem þurfa endurskipulagningar við, hafa verið tekin fyrir í lánanefnd og er lokið eða eru í lokafrágangi. Þau lán sem enn eru í vinnslu, eru að stórum hluta lán fyrirtækja sem vildu bíða niðurstöðu Hæstaréttar um lögmæti erlendra lána, eða fyrirtæki sem ekki hafa skilað inn gögnum.

Samanburður á milli ára

  1H 2011 1H 2010 2010
Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli 24,9% 11,6% 17,3%
Hagnaður eftir skatta 24,4 milljarðar 9,4 milljarðar 27,2 milljarðar króna
Hagnaður af hækkun hlutabréfa 9 ,1 milljarður -1 milljón 6,3 milljarðar króna
Tekjur af aflagðri starfsemi 4,7 milljarðar 2,8 milljarðar 2,8 milljarðar
Gengishagnaður -139 milljónir 9,1 milljarður 14,6 milljarðar króna
Vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna 3,1% 2,6% 2,3%
Eigið fé 208 milljarðar kr. 167 milljarðar króna 185 milljarðar króna
Eiginfjárhlutfall 22,4% 16,7% 19,5%
Heildareignir 1.126 milljarðar 1.087 milljarðar króna 1.081 milljarður króna
Rekstrarkostnaður 10,8 milljarðar 9,0 milljarðar 18,5 milljarðar

Árshlutareikningur

Fjárfestatengsl - 30. júlí 2020 15:59

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020 samanborið við 11,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 13,4 milljörðum króna á tímabilinu sem jafngildir um 1,1% af útlánasafni bankans, samanborið við virðisrýrnun upp á 2,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar

Fjárfestatengsl - 21. júlí 2020 12:54

Landsbankinn besti banki á Íslandi að mati Euromoney

Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Landsbankann besta bankann á Íslandi og er þetta annað árið í röð sem bankinn hlýtur þessa viðurkenningu. Við útnefninguna er litið til ýmissa þátta í rekstri og stefnu bankanna, eins og afkomu af reglulegri starfsemi, kostnaðarhagræðingar og þjónustuframboðs.


Nánar

Fjárfestatengsl - 07. maí 2020 16:48

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,6 milljarða króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020, samanborið við 6,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við virðisrýrnun upp á 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar

Hafðu samband

Fjárhagsdagatal


Dagatalið er birt með fyrirvara um breytingar