Fréttir

- Fjárfestatengsl

Nýtt bankaráð kjörið á aðalfundi Landsbankans

Bankaráð Landsbankans
Nýkjörið bankaráð Landsbankans. Frá vinstri: Jón Sigurðsson, Þórdís Ingadóttir, Danielle Pamela Neben, Helga Björk Eiríksdóttir, Tryggvi Pálsson formaður bankaráðs, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir og Kristján Davíðsson.

Aðalfundur Landsbankans hf. fyrir starfsárið 2012 var haldinn í dag í Hörpu. Á fundinum var kjörið nýtt bankaráð og er Tryggvi Pálsson nýr formaður. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf, en þetta er fyrsti aðalfundur bankans, eftir að breyting varð á eigendahópi. Ríkissjóður á nú 98% í bankanum og Landsbankinn hf. fer með 2% hlut.

Helstu niðurstöður aðalfundarins eru þessar:

Meðferð hagnaðar:

Fundurinn samþykkti tillögu bankaráðs um að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur 0,42 krónum á hlut fyrir árið 2012, sem samsvarar um 39% af hagnaði. Miða skal við hlutaskrá í lok 30. september nk. og að útborgunardagur verði 1. október nk. Arðgreiðslan jafngildir tæplega 10 milljörðum króna.

Starfskjarastefna:

Fundurinn samþykkti tillögu bankaráðs um starfskjarastefnu. Þar kemur m.a. fram að starfskjör bankastjóra og helstu stjórnenda skuli vera samkeppnishæf við kjör stjórnenda í stærri fyrirtækjum og á fjármálamarkaði, en þó ekki leiðandi.

Í samþykktri starfskjarastefnu kemur einnig fram að samkvæmt samningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins, Landsbankans hf. og LBI hf. frá 15. desember 2009 sé kveðið á um að Landsbankinn komi á árangurstengdu launakerfi fyrir starfsmenn. Kerfið skuli vera í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins um slík kerfi hjá fjármálafyrirtækjum. Tillögur að slíku kerfi og tilheyrandi breytingum á starfskjarastefnu skulu lagðar fyrir sérstakan hluthafafund. Fram að því er bankaráði ekki heimilt að samþykkja slíkt kerfi.

Þóknun til bankaráðsmanna

Bankaráðsmönnum skal greidd föst mánaðarleg þóknun í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert. Fundurinn samþykkti að þóknun almennra bankaráðsmanna fyrir tímabilið fram til næsta aðalfundar skuli vera kr. 350.000 á mánuði, greitt í samræmi við launagreiðslur til bankamanna. Þóknun bankaráðsformanns skal vera kr. 600.000 og þóknun varaformanns kr. 425.000 á mánuði. Þóknun til hvers bankaráðsmanns fyrir störf í undirnefndum bankaráðs skal vera kr. 100.000 á mánuði. Þóknun til varamanna skal vera kr. 175.000 fyrir hvern setinn fund, en þó aldrei hærri en þóknun aðalmanna innan hvers mánaðar.

Breytingar á samþykktum

Fundurinn samþykkti breytingu á samþykktum, þannig að Bankaráð skal hér eftir vera skipað sjö mönnum og tveimur til vara, en ekki fimm aðalmönnum og fimm til vara eins og áður var.

Kosning bankaráðs

Aðalfundurinn samþykkti tillögu um að eftirtaldir einstaklingar verði kjörnir aðal- og varamenn í bankaráð Landsbankans hf. fram til næsta aðalfundar.

Aðalmenn: Tryggvi Pálsson, Danielle Pamela Neben, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Helga Björk Eiríksdóttir, Jón Sigurðsson, Kristján Davíðsson og Þórdís Ingadóttir. 

Varamenn: Helga Loftsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Tryggvi Pálsson var kjörinn formaður bankaráðs. Þórdís Ingadóttir hefur setið í bankaráði frá árinu 2010 og þeir Jón Sigurðsson og Kristján Davíðsson hafa verið varamenn.

Úr bankaráði gengu: Gunnar Helgi Hálfdanarson, formaður, Sigríður Hrólfsdóttir varaformaður, Ólafur H. Ólafsson fulltrúi LBI hf. og Andri Geir Arinbjarnarson.

Fundargögn má nálgast á síðu aðalfundarins hér á vefnum

Forsíða - 30. júlí 2020 15:59

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020 samanborið við 11,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 13,4 milljörðum króna á tímabilinu sem jafngildir um 1,1% af útlánasafni bankans, samanborið við virðisrýrnun upp á 2,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar

Forsíða - 21. júlí 2020 12:54

Landsbankinn besti banki á Íslandi að mati Euromoney

Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Landsbankann besta bankann á Íslandi og er þetta annað árið í röð sem bankinn hlýtur þessa viðurkenningu. Við útnefninguna er litið til ýmissa þátta í rekstri og stefnu bankanna, eins og afkomu af reglulegri starfsemi, kostnaðarhagræðingar og þjónustuframboðs.


Nánar

Fjárfestatengsl - 07. maí 2020 16:48

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,6 milljarða króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020, samanborið við 6,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við virðisrýrnun upp á 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar

Hafðu samband

Fjárhagsdagatal


Dagatalið er birt með fyrirvara um breytingar