Fréttir og útgáfuefni

- Fréttir og tilkynningar

Afkoma Landsbankans (NBI hf.) 2009

Viðunandi afkoma við erfiðar aðstæður 

Ársreikningur 2009

Afkoma Landsbankans var jákvæð um rúma 14,3 milljarða króna fyrir árið 2009, fyrsta heila starfsár bankans. Arðsemi eiginfjár var 10% sem er nokkuð lægra en sá fjármagnskostnaður sem ríkið ber af hlutafjárframlagi sínu til bankans. Á sama tíma mældist ársverðbólga 8,63%. Rekstur bankans er traustur þrátt fyrir erfitt árferði og samdrátt í efnahagslífi.

Enginn raunhæfur samanburður er til frá fyrri árum þar sem þetta er fyrsta heila starfsár bankans (sjá þó upplýsingar um afkomu Landsbankans síðustu mánuði ársins 2008).

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag eru:

 • Hagnaður eftir skatta nam 14,3 milljörðum króna.
 • Arðsemi eigin fjár var 10%.
 • Vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna var 2,1%. 
 • Eigið fé bankans í árslok var 157 milljarðar króna. 
 • Eiginfjárhlutfall (CAD -hlutfall) var 15% í árslok 2009.
 • Heildareignir bankans voru 1.061 milljarðar króna við árslok 2009. 
 • Innlán viðskiptavina námu 453 milljörðum króna. 
 • Útlán til viðskiptavina námu 667 milljörðum króna í árslok 2009. 
 • Um fjórðungur heildarútlána er til sjávarútvegsfyrirtækja og ríflega fjórðungur til einstaklinga.
 • Rekstrarkostnaður bankans af reglulegri starfsemi nam 15,8 milljörðum króna.
 • Laun og launatengd gjöld voru 8,5 milljarðar króna. 
 • Í árslok 2009 voru 1.161 stöðugildi í Landsbankanum.

Meginþungi starfsemi Landsbankans á árinu 2009 hefur falist annarsvegar í undirbúningi vegna endurskipulagningar skulda viðskiptavina, bæði einstaklinga og fyrirtækja og hinsvegar í samningagerð vegna uppgjörs við Landsbanka Íslands hf. Sá samningur var undirritaður í desember og með honum komst rekstur bankans á traustari grunn en verið hafði fram að því. Í þeim samningi fólst að Landsbankinn (NBI hf.) gæfi út skuldabréf til Landsbanka Íslands hf. í erlendum gjaldmiðlum til 10 ára sem skipta mun miklu varðandi endurreisn íslensks efnahagslífs, einkum þó hvað varðar þjónustu bankans við útflutningsfyrirtæki.

Á árinu 2009 stofnaði bankinn eignaumsýslufélögin Reginn og Vestia sem hluta af þeirri umfangsmiklu aðgerð sem felst í endurskipulagningu skulda fyrirtækja og fasteignafélaga. Um 7.000 fyrirtæki eru í viðskiptum við Landsbankann og að mati bankans er um 70% þeirra í einhverjum vanda vegna banka- og gengiskreppu, eða um 5.000 fyrirtæki. Af þeim er talið að helmingur eigi í verulegum vandræðum.

Landsbankinn greip á árinu 2009 til umfangsmikilla ráðstafana til aðstoðar einstaklingum og fjölskyldum sem áttu og eiga í alvarlegum greiðsluvanda. Tæplega 10.000 manns eru með íbúðalán hjá bankanum. Um 70% þeirra hafa nýtt sér einhver úrræði bankans. Mat bankans er að 15 - 20% einstaklinga í viðskiptum séu í verulegum vanda.

Á árinu 2009 hafði Landsbankinn frumkvæði að því að lækka útlánsvexti verulega til þess að koma til móts við lántakendur. Eftirspurn eftir lánum er lítil eins og árferðið gefur til kynna.

Helstu dótturfélög Landsbankans eru eignaleigufyrirtækið SP Fjármögnun, Landsvaki sem annast rekstur verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða., Reginn, Vestia, Horn sem fer með hlutabréfaeign bankans í öðrum félögum, og Hömlur þar sem smærri eignir bankans eru vistaðar tímabundið fyrir sölu.

Landsbankinn er stærsta fjármálastofnun landsins og rekur 37 útibú og afgreiðslur um land allt. Íslenska ríkið á 81% í Landsbankanum (NBI hf.) og Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. fer með 19% hlut. Rúmlega 1100 starfsmenn starfa hjá bankanum og hefur starfsfólk tekið virkan þátt í mótun nýrrar stefnu bankans með ýmsum hætti og hefur allt skipulag hans, verkferlar og vinnubrögð verið endurskoðað. Nýtt bankaráð tók til starfa í febrúar og auglýst hefur verið eftir nýjum bankastjóra.

Ásmundur Stefánsson bankastjóri:

"Árið 2009 hefur verið í senn erfitt og viðburðaríkt fyrir Landsbankann. Starfsfólk bankans hefur þurft að takast á við mörg afar vandasöm, fjölbreytt og flókin verkefni og það hefur staðið sig einstaklega vel og sýnt mikla fórnfýsi og dugnað.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið hjá bankanum frá bankahruninu í október 2008. Miklar breytingar hafa orðið á stjórnendahópi og flestir verkferlar verið endurskoðaðir. Á sama tíma áttu sér stað margslungnar samningaviðræður við Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. um yfirtöku og mat á eignum.

Stærsta verkefni bankans í nánustu framtíð er að endurvinna traust viðskiptavina. Það verður ekki gert á einu ári, en mikilvæg skref í þá átt hafa verið stigin með skuldaaðlögun fyrir fyrirtæki og einstaklinga og styrkingu innviða bankans.

Ástæða er til að þakka viðskiptavinum bankans sérstaklega þá þolinmæði sem þeir hafa sýnt á þessum umbrotatímum."

Ársreikningur 2009

Tengt efni

Afkoma Landsbankans síðustu mánuði ársins 2008

Fjárfestatengsl - 07. maí 2020 16:48

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,6 milljarða króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020, samanborið við 6,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við virðisrýrnun upp á 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar

Fjárfestatengsl - 24. apríl 2020 17:55

S&P lækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB með stöðugum horfum

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag um lækkun á lánshæfismati Landsbankans fyrir skuldbindingar til lengri tíma. Lækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismat bankans því BBB/A-2 með stöðugum horfum.


Nánar

Fjárfestatengsl - 22. apríl 2020 15:03

Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2020

Aðalfundur Landsbankans var haldinn 22. apríl 2020 í höfuðstöðvum bankans í Austurstræti 11 í Reykjavík. Á fundinum flutti Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, skýrslu bankaráðs og Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri, fjallaði um sterka stöðu bankans og góðan árangur á árinu 2019.


Nánar