Fréttir og útgáfuefni

- Fréttir og tilkynningar

Starfsmenn Landsbankans eignast tæplega 1% hlut í bankanum í samræmi við samkomulag frá 2009

Á hluthafafundi í Landsbankanum hf. sem haldinn var í dag, 17. júlí, voru staðfestar úthlutunarreglur um afhendingu hlutabréfa til starfsmanna. Með afhendingu hlutabréfanna uppfyllir Landsbankinn þær skyldur sem samningur um fjárhagslegt uppgjör við LBI hf. og íslenska ríkið leggur honum á herðar. Aðalatriði afhendingar hlutabréfanna eru eftirfarandi: 

  • Til úthlutunar koma hlutabréf, sem áður voru í eigu LBI hf. og er afhendingin í samræmi við samning Landsbankans, LBI hf. og íslenska ríkisins frá 15. desember 2009.
  • Um helmingur verðmætis hlutafjár sem til úthlutunar er, rennur til ríkissjóðs í formi skatta. 
  • Eignarhlutur rúmlega 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmanna í Landsbankanum hf. verður innan við 1%.
  • Starfsmenn undirgangast ströng skilyrði um sölu hlutabréfanna og er óheimilt að selja þau fyrr en eftir þrjú ár frá afhendingu en hluta má selja fyrr, verði bréf bankans skráð á markað.

Afhending hlutabréfanna byggist á samningi frá 15. desember 2009 en þá gerðu Landsbankinn hf. (þá NBI hf.), LBI hf. (þá Landsbanki Íslands hf.) og fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins samning um fjárhagsuppgjör milli Landsbankans hf. og LBI hf. Að kröfu LBI hf. og með samþykki ríkisins var Landsbankanum gert að koma á árangurstengdu launakerfi fyrir starfsmenn Landsbankans hf. og setti íslenska ríkið skilyrði um að það næði til allra starfsmanna. Kerfið skyldi taka mið af verðmæti tiltekinna eignasafna stærri fyrirtækja sem lágu til grundvallar ákvörðunar á fjárhæð skilyrts skuldabréfs sem er hluti af fjárhagsuppgjörinu. Niðurstaða verðmats óháðs ytri aðila var að gefa skyldi út skilyrta skuldabréfið miðað við hámarksfjárhæð þess.  

Samkvæmt þessu samkomulagi skyldi LBI hf. ráðstafa af eign búsins og þar með eign kröfuhafa, 500.000.000 hlutum (2,08% af heildarhlutafé) í Landsbankanum samkvæmt úthlutunarreglum sem bankinn skyldi koma á í síðasta lagi fyrir árslok 2012. Þeim reglum var ekki komið á fyrir þann tíma. Á hluthafafundi 27. mars 2013 var samþykkt að bankanum væri heimilt að taka við hlutabréfunum frá LBI hf. en henni fylgdi kvöð um að afhenda bæri þau starfsmönnum. Við útgáfu á skilyrta skuldabréfinu til LBI hf. í apríl var ofangreind kvöð varðandi afhendingu hlutabréfanna staðfest af fjármálaráðuneytinu fyrir hönd ríkisins. 

Við afhendingu hlutabréfanna er fylgt starfskjarastefnu Landsbankans og mið tekið af reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 700/2011, um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja, þó afhending bréfanna falli ekki undir þær. Starfsmenn eftirlitseininga fá ekki afhent hlutabréf en bankanum er hinsvegar gert samkvæmt reglum FME að tryggja þeim jafnræði í kjörum með öðrum hætti. Rétt er að taka fram að ekki hefur verið tekin ákvörðun um árangurstengt launakerfi í bankanum til framtíðar.

Afhending hlutabréfa til starfsmanna

Hlutabréfin verða afhent starfsmönnum Landsbankans hf. og Landsbréfa hf. sem voru fastráðnir þann 31. mars 2013  og þeim sem látið hafa af störfum vegna aldurs, örorku eða verið sagt upp í hagræðingarskyni.  Fjöldi afhentra hluta til hvers og eins starfsmanns er hlutfallslegur og miðast við föst laun og þann tíma sem viðkomandi hefur starfað hjá Landsbankanum frá 15. desember 2009 til 31. mars 2013.

Skattar og kvaðir á sölu hlutabréfanna

Skattalegt verðmæti hlutabréfanna er 4,7 milljarðar króna.  Starfsmönnum ber að greiða tekjuskatt af virði hlutabréfanna, rétt eins og um launagreiðslu væri að ræða. Landsbankinn heldur eftir hlutabréfum sem nema fjárhæð tekjuskattsgreiðslu starfsmanna, fjársýsluskatti sem lagður er á fjármálafyrirtæki og öðrum launatengdum gjöldum og ráðstafar þeirri fjárhæð, samanlagt um 2,3 milljörðum króna til ríkisins. Jafnframt renna 600 milljónir króna í lífeyrissjóði og starfsmenn fá því til sín hlutabréf, miðað við skattalegt mat, að verðmæti um 1,8 milljarða króna, eða sem jafngildir innan við 1% af hlutafé bankans. Sú upphæð skiptist á rúmlega 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn. 

Við móttöku bréfanna skuldbinda viðtakendur þeirra sig til að selja þau ekki í þrjú ár frá afhendingu. Verði hlutabréf skráð í kauphöll má selja 60% af bréfunum en þó ekki fyrr en mánuði eftir skráningu. Þau bréf sem eftir standa (40%) má ekki selja í þrjú ár frá afhendingu. Að auki er óheimilt að veðsetja hlutabréfin á þeim tíma sem ekki má framselja þau. Viðtakendur þurfa því að gangast undir ströng skilyrði við móttöku bréfanna.

Nánari upplýsingar um málið, þar með talið fundargerð hlutahafafundar, afhendingarreglur og starfskjarastefnu Landsbankans má finna á landsbankinn.is.

Fundargerð hluthafafundar 17. júlí

Reglur um afhendingu hlutafjár til starfsmanna

Fjárfestatengsl - 24. október 2019 16:04

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2019

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 14,4 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 samanborið við 15,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 7,9% á ársgrundvelli samanborið við 8,8% á sama tímabili 2018.


Nánar

Fjárfestatengsl - 25. júlí 2019 16:03

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2019

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 11,1 milljarð króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2019 saman­borið við 11,6 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 9,1% á árs­grundvelli, samanborið við 9,9% á sama tímabili 2018. Laun og launatengd gjöld lækkuðu um 2% á milli tímabila.


Nánar

Fjárfestatengsl - 23. júlí 2019 18:23

S&P staðfestir óbreytta lánshæfiseinkunn en breytir horfum úr stöðugum í neikvæðar

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti þann 23. júlí 2019 óbreytta lánshæfiseinkunn Landsbankans fyrir skuldbindingar til lengri og skemmri tíma (BBB+/A-2) en breytti horfum úr stöðugum í neikvæðar.


Nánar