Fréttir

26. maí 2011 16:20

Hagnaður Landsbankans 12,7 milljarðar fyrstu þrjá mánuði ársins 2011

Tilkynning um afkomu landsbankans fyrsta ársfjórðung 2011
Afkoma Landsbankans hf. var jákvæð um 12,7 milljarða króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi ársins 2011. Arðsemi eigin fjár var 26,7%. Til samanburðar nam hagnaður á sama tíma á síðasta ári 8,3 milljörðum króna og var arðsemi eigin fjár þá 21,2%.

Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er nú 20,4% en var 19,5% í lok árs 2010. Núverandi eiginfjárhlutfall er vel umfram það 16% lágmark eiginfjárhlutfalls sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um.

 

Árshlutareikningur samstæðu fyrir fyrsta ársfjórðung 2011 

Kynning á uppgjöri


Helstu stærðir úr rekstri og efnahag á fyrsta ársfjórðungi 2011:

  • Arðsemi eigin fjár var 26,7% á ársgrundvelli.
  • Hagnaður eftir skatta nam 12,7 milljörðum króna.
  • Vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna var 2,6%.
  • Eigið fé bankans 31. mars var 196 milljarðar króna.
  • Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er nú 20,4% en var 19,5% í lok árs 2010 og 14,9% í árslok 2009.
  • Heildareignir bankans námu 1.106 milljörðum króna.
  • Góð afkoma bankans skýrist m.a. af góðri ávöxtun á hlutabréfum í eigu bankans og sölu á eignum. Tekjur af aflagðri starfsemi , þ.e. sala á dótturfélaginu Vestia og af Icelandic Group koma fram á fyrsta ársfjórðungi. Sú sala skilaði Landsbankanum 4,1 milljarðs króna hagnaði.
  • Tap er á gjaldeyrisstöðu bankans sem hefur neikvæði áhrif á rekstrarreikning. Tapið nemur 2,6 milljörðum króna. Það skýrist að mestu af innbyrðis gengishreyfingum erlendra mynta. Markvisst er unnið að því að draga úr gengisáhættu í rekstri bankans og hefur það skilað miklum árangri frá áramótum.
  • Virðisrýrnun útlánasafns nemur tæplega 1,8 milljarði króna eftir að tekið hefur verið tillit til gjaldfærslna vegna nýrra úrræða fyrir heimilin og þess hlutar tekna af endurheimt lánasafnsins sem rennur til Landsbanka Íslands hf.

Ánægðir viðskiptavinir

Ánægðir viðskiptavinir er ein af meginstoðum stefnu Landsbankans. Undir hana fellur endurreisn atvinnulífs og heimila sem eitt af aðalverkefnum bankans. Byggt á traustri fjárhagsstöðu vill Landsbankinn nú einhliða lækka skuldir einstaklinga í viðskiptum við bankann. Jafnframt hefur Landsbankinn afgreitt endurskipulagningu hundruða fyrirtækja á síðustu mánuðum, bæði í gegnum Beinu brautina og með öðrum öflugum úrræðum sem bankinn býður nú.

Aðgerðir fyrir heimili

Landsbankinn kynnir nú nýjar aðgerðir sem ná til um 60.000 einstaklinga í viðskiptum en skipta verulega máli fyrir ríflega 30.000 manns. Þær taka til lækkunar fasteignaskulda og ýmissa annarra skulda t.d. yfirdráttar og skuldabréfa auk endurgreiðslu vaxta til skilvísra viðskiptavina fyrir ríflega 2 ára tímabil.

Landsbankinn hefur lokið endurútreikningi erlendra lána einstaklinga. Yfir 3100 lán hafa verið endurútreiknuð og nú þegar hafa um 1500 manns samþykkt endurútreikninginn. Hringt hefur verið í alla sem eiga þess kosta að nýta sér svokallaða 110% leið bankans vegna íbúðarlána og þeir hvattir til að nýta sér hana.

Aðgerðir fyrir fyrirtæki

Á síðasta ári setti Landsbankinn á stofn sérstakt svið – Endurskipulagningu eigna – til að fást við skuldavanda fyrirtækja. Rúmlega 400 fyrirtæki hafa fengið fullnaðarafgreiðslu frá bankanum þannig að skuldir þeirra hafa verið endurskipulagðar. 355 fyrirtæki voru talin geta nýtt sér hina svokölluðu Beinu braut sem samþykkt var sem úrræði fyrir lífvænleg fyrirtæki með víðtæku samkomulagi árið 2010. Verið er að klára að gera síðustu félögunum í þessum hópi tilboð um endurskipulagningu. Um 245 þessara fyrirtækja munu fá tilboð fyrir mánaðarlok. Nálægt 60 hafa hins vegar ekki enn skilað inn nauðsynlegum gögnum eða hafa óskað eftir því að bíða með endurskipulagningu skulda sinna þar til niðurstaða dómstóla um lögmæti erlendra lána liggur fyrir. Önnur félög hafa ekki talist lífvænleg við nánari skoðun.

Við samruna Landsbankans og Spkef bættust um 110 fyrirtæki við sem hugsanlega gátu nýtt sér Beinu brautina. Af þeim fjölda er líklegt að um 70 verði gert tilboð um endurskipulagningu skulda í maí og júní. Hin verða sett í bið, skili ekki inn gögnum fyrir lok mánaðar, eða teljast ekki lífvænleg þegar betur er að gáð.

Á næstu vikum mun Landsbankinn leggja mikið kapp á að vinna úr vandamálum þeirra fyrirtækja sem enn eiga við skulda- og/eða greiðsluvanda að stríða. Um þessar mundir er Endurskipulagning eigna að vinna með tæplega 700 fyrirtækjum að fjárhagslegri endurskipulagningu, þ.e. flestum fyrirtækjum sem eru í fjárhagslegum erfiðleikum.

Auk Beinu brautarinnar hefur Landsbankinn innleitt aðrar lausnir fyrir fyrirtæki sem finna má á vef bankans. Við hvetjum fyrirtæki enn og aftur til að setja sig í samband við sinn tengilið hjá bankanum og kanna hvað hægt er að gera.

Varúðarfærslur vegna dóma og aðgerða bankans til skuldalækkunar

Í uppgjöri bankans er á hverjum tíma lagt mat á líklegar endurheimtur lána og varúðarsjóðum breytt til samræmis við það mat. Á fyrsta ársfjórðungi 2011 leggur Landsbankinn 11 milljarða króna í varasjóð vegna lána til heimila og einstaklinga. Þetta er gert til að bókfærð staða slíkra lána sé til samræmis við áætlaða getu viðskiptavina til að standa skil á lánum.

Rétt er að taka fram vegna umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga um svokallað Mótormax mál að sérstök gjaldfærsla var í ársreikningi Landsbankans fyrir árið 2010 vegna þessa máls. Landsbankinn hefur því að fullu fært til gjalda það tap sem verður ef málið tapast fyrir Hæstarétti.

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans segir:

"Uppgjör og nýjar aðgerðir Landsbankans fyrir einstaklinga og heimili sýna svo ekki verður um villst þann kraft sem í bankanum býr. Við höfum staðið við þau fyrirheit sem við gáfum fyrr á þessu ári um að taka myndarlega á málum og leggja mikla áherslu á að setja fram raunhæfar kröftugar lausnir fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki. Þetta uppgjör sýnir líka svart á hvítu hversu skynsamleg ráðstöfun það var af hálfu bankans að selja dótturfélagið Vestia á síðasta ári. Hagnaðurinn af því var á fimmta milljarð króna og hann nýtist nú vel til að auka svigrúm bankans. Samruni Landsbankans og Spkef hefur að flestu leyti gengið vel en þó ekki hnökralaust, en við teljum okkur sjá nú þegar að með honum næst fram mikil hagræðing í rekstri."

Árshlutareikningur samstæðu fyrir fyrsta ársfjórðung 2011 

Kynning á uppgjöri

23. september 2020 10:37

Hagsjá: Launavísitala hækkaði lítillega í ágúst – endurskoðun kjarasamninga framundan

Launin á almenna markaðnum hækkuðu um 6,5% á frá 2. ársfjórðungi 2019 fram til sama tíma 2020 og um 7,2% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 6,8% á sama tíma. Töluvert bil hafði myndast á milli launaþróunar á almenna og opinbera markaðnum nær allt síðasta ár.


Nánar

21. september 2020 15:34

Hagsjá: Matarkarfan er dýrari en sum matvæli hafa hækkað mun meira en önnur

Matarkarfan, eins og hún mælist í vísitölu neysluverðs, hefur hækkað um 6,3% það sem af er ári. Meðal annars komu þrír mánuðir í röð (apríl, maí og júní) þar sem hún hækkaði um eða yfir 1% milli mánaða.


Nánar

21. september 2020 08:44

Vikubyrjun 21. september 2020

Síðastliðna 3 mánuði hefur íbúðaverð hækkað að jafnaði um 0,7% milli mánaða. Í fyrra var sambærileg hækkun 0,3%. Það er því nokkuð ljóst að sumarið í ár var mun kröftugra en sumarið í fyrra á íbúðamarkaði, og hafa vaxtalækkanir haft veruleg áhrif á eftirspurn eftir húsnæði.


Nánar

Skráðu þig á póstlista