Fréttir

25. janúar 2016 09:18

Spurt og svarað: Engar upplýsingar lágu fyrir um greiðslur til Borgunar vegna Visa Europe

  • Landsbankinn mun að eigin frumkvæði afhenda Alþingi samantekt um sölu bankans á hlut hans í Borgun.
  • Landsbankinn hafði engar upplýsingar um að Borgun fengi greiðslur vegna yfirtökunnar á Visa Europe.
  • Landsbankinn taldi áætlanir Borgunar um vöxt í færsluhirðingu í netviðskiptum erlendis verulega áhættusamar.
  • Umsvif Borgunar í Visa-viðskiptum margfölduðust eftir sölu Landsbankans á hlut sínum í félaginu.
  • Hlutir í Borgun hafa áður verið seldir án fyrirvara um greiðslur vegna Visa Europe.
  • Stefnu Landsbankans um sölu eigna var breytt í kjölfar sölu á hlut bankans í Borgun.
  • Spurningar og svör um sölu á hlut Landsbankans í Borgun.

Vegna umræðu um sölu á eignarhlut Landsbankans í Borgun hefur bankinn tekið saman ítarlegar og aðgengilegar upplýsingar og birt þær á vefsíðu sinni. Þá mun bankinn að eigin frumkvæði afhenda Alþingi samantekt um málið.

Á vef Landsbankans kemur m.a. fram að bankinn hafði ekki upplýsingar um að valréttur vegna hugsanlegrar yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe myndi leiða til greiðslna til Borgunar. Þetta hafði heldur ekki komið fram í tengslum við önnur viðskipti með hluti í Borgun á árunum 2009-2014.

Landsbankinn var í viðræðum um sölu á eignarhlutum sínum í Valitor og Borgun á svipuðu tímabili á árinu 2014, þótt viðskiptunum með hluti í Borgun hafi lokið fyrr.

Í viðræðum Landsbankans við meirihlutaeiganda Valitor, Arion banka, lágu fyrir upplýsingar um réttindi Valitor í tengslum við valréttinn, þótt útilokað hafi verið að leggja áreiðanlegt mat á verðmætin á þeim tímapunkti.

Borgun gerir upp samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og ber því að færa slík réttindi á gangvirði á hverjum tíma. Það að Borgun hafi ekki metið slík réttindi til eignar og/eða gert grein fyrir þeim í sínum ársreikningum eða í upplýsingagjöf til Landsbankans, bendir til þess að Borgun hafi á þeim tíma ekki átt tilkall til réttindanna, þau hafi ekki verið til staðar eða þau væru það óljós að ekki væri hægt að reikna þau til verðmætis.

Í viðræðum við stjórnendur Borgunar komu heldur ekki fram neinar upplýsingar um að Borgun hefði rétt á hlutdeild í verðmætum valréttarins, hvað þá að vegna hans hefðu skapast verðmæti hjá Borgun.Landsbankinn hefur enga ástæðu til að ætla að stjórnendur Borgunar hafi verið meðvitaðir um tilvist slíkra réttinda.

Taldi áætlanir um vöxt í færsluhirðingu vegna netviðskipta erlendis verulega áhættusamar

Landsbankanum var kunnugt um að Borgun hugðist auka verulega færsluhirðingu fyrir seljendur í erlendum netviðskiptum. Að mati bankans fylgdi þeirri starfsemi veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu og skaðað orðspor Landsbankans. Bankinn byggði þetta mat sitt m.a. á fyrri útrásarsögu íslenskra kortafyrirtækja.

Samkvæmt upplýsingum Landsbankans margfölduðust erlend Visa-umsvif Borgunar á árinu 2015 miðað við það sem áður var. Langstærstur hluti fjárhæðarinnar sem Borgun á von á mun vera vegna viðskipta sem urðu eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn í félaginu.

Íslandsbanki keypti undir árslok 2011 fjármálafyrirtækið Byr hf. Um 20% hlutur í Borgun fylgdi með í kaupunum. Seljendur Byrs voru annars vegar slitastjórnin með um 88% hlut og hins vegar ríkissjóður með um 12% hlut, en ríkissjóður hafði lagt til fjármuni við stofnun Byrs. Meðal kröfuhafa sem áttu mikilla hagsmuna að gæta voru lífeyrissjóðir. Óháð fjármálafyrirtæki var til ráðgjafar í söluferlinu. Landsbankinn gerði einnig tilboð í Byr. Engar upplýsingar komu þá fram um að Borgun gæti átt rétt á greiðslum vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe.

Fleiri viðskipti áttu sér stað með hluti í Borgun á árunum 2009-2014 en Landsbankinn veit ekki til þess að fyrirvarar um greiðslur vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe hafi verið gerðir í þeim viðskiptum, enda lágu ekki fyrir upplýsingar um þessi verðmæti.

Við söluna lá ekki fyrir að hvaða marki áformin um aukin erlend viðskipti yrðu í samstarfi við Visa, Mastercard eða aðrar kortasamstæður.

Nánari upplýsingar

Spurt og svarað um sölu Landsbankans á hlut í Borgun

Tengdar fréttir á vef Landsbankans

22. janúar 2016 - Mikil áhersla var lögð á breytt eignarhald kortafyrirtækjanna 

22. janúar 2016 -  Byggðum verðmat á Borgun á bestu fáanlegum upplýsingum

20. janúar 2016 - Athugasemd vegna ummæla í kvöldfréttum RÚV 

20. janúar 2016 - Landsbankinn hagnast verulega vegna yfirtöku á Visa Europe 

18. desember 2014 - Nýtt landslag á kortamarkaði

28. nóvember 2014 - Um sölu Landsbankans á hlut í Borgun

25. nóvember 2014 - Landsbankinn selur eignarhlut sinn í Borgun hf.

 

26. október 2020 08:27

Vikubyrjun 26. október 2020

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 8,5% á árinu 2020 vegna áhrifa af Covid-19. Deildin býst við því að samdráttarskeiðið verði tiltölulega stutt en efnahagsbatinn hins vegar hægur fyrst um sinn.


Nánar

23. október 2020 09:59

Upptökur af fjarfundi um hagspá Landsbankans

Upptökur frá fjarfundi sem haldinn var 20. október í tilefni af útgáfu hagspár Landsbankans 2020-2023 eru nú aðgengilegar á Umræðunni. Þar er hagspáin einnig birt í heild og hægt er að hlaða niður glærusýningum frummælenda.


Nánar

23. október 2020 08:06

Hagsjá: Verulegur slaki á vinnumarkaði

Starfandi fólki á vinnumarkaði fækkaði um 0,9% frá því í september í fyrra. Venjulegum vinnustundum fækkaði um 2,8% á sama tíma. Þetta þýðir að fjöldi unninna stunda, eða vinnuaflsnotkun, minnkaði um 3,8% milli ára. Vinnuaflsnotkun hefur nú minnkað í 7 mánuði í röð.


Nánar

Skráðu þig á póstlista