Svið og deildir

Einstaklingssvið

Einstaklingssvið annast almenna fjármálaþjónustu sem einstaklingum er veitt. Áherslur Einstaklingssviðs miða að aukinni ánægju með þjónustu bankans, hagnýtingu tækni- og tækjalausna til hagkvæmni, einfaldleika, skilvirkni og þæginda fyrir viðskiptavini Landsbankans. Ennfremur er lögð áhersla á markvisst vöruframboð og að veitt sé virðisaukandi og dýpri þjónusta og ráðgjöf til viðskiptavina með hagsmuni beggja og sameiginlegan langtíma ávinning að leiðarljósi.

Öll útibú bankans veita hefðbundna fjármálaþjónustu og -ráðgjöf til einstaklinga, sem og grunnþjónustu til rekstraraðila í viðskiptum við bankann.

Þjónustuver bankans sinnir samskiptum við þá viðskiptavini bankans sem kjósa að nýta sér þjónustu hans í gegnum síma og/eða net. Framboð þjónustu og vöru í Þjónustuveri er sífellt að aukast og annast Þjónustuverið nú flesta almenna bankaþjónustu, t.d. millifærslur, greiðslur reikninga, útlán af ákveðnum gerðum, aðstoð vegna greiðslukorta og annarrar greiðslumiðlunar, sem og að veita almennar upplýsingar til viðskiptavina bankans varðandi viðskipti þeirra í Landsbankanum.

Bíla- og tækjafjármögnun bankans annast fjármögnun bifreiða og tækja hvort heldur sem er til einstaklinga eða rekstraraðila. Bíla- og tækjafjármögnun býður fjölbreytta möguleika á fjármögnun við flestra hæfi, þar sem saman fer samkeppnishæfni í verði og úrval fjármögnunarleiða.

Viðskiptalausnum er ætlað að vera stuðningur í rekstri eininga sviðsins með því að annast daglegan rekstur og vörustjórnun einstaklingsvara og fríðindakerfa. Þá hafa viðskiptalausnir yfirumsjón með þróun og hagnýtingu stafrænnar tækni í einstaklingsviðskiptum, sem snúa að vörum og þjónustuleiðum bankans.

Fyrirtækjasvið

Fyrirtækjasvið annast þjónustu við fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir. Fyrirtækjasvið annast beint málefni stórra fyrirtækja og sveitarfélaga og sér um stærri fjármögnunarverkefni en Fyrirtækjamiðstöð Landsbankans annast alla þjónustu við smá og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni annast útibú þjónustu við fyrirtæki undir forystu Fyrirtækjasviðs.

Öllum viðskiptavinum Fyrirtækjasviðs er úthlutaður viðskiptastjóri, en viðskiptastjórar bera ábyrgð á samskiptum við viðskiptavini og eru tengiliðir þeirra við bankann. Í þjónustu við stærri fyrirtæki skiptast viðskiptastjórar í þrjá hópa; einn hópur hefur umsjón með viðskiptum við fyrirtæki í mannvirkjagerð og ferðaþjónustu, auk sveitarfélaga, annar hópur ber ábyrgð á viðskiptum við félög í iðnaði, verslun og þjónustu og þriðji hópurinn hefur umsjón með viðskiptum Landsbankans við aðila í sjávarútvegi og landbúnaði. Þjónusta við lítil og meðalstjór fyrirtæki innan Fyrirtækjamiðstöðvar byggist á svæðisskiptingu þar sem viðskiptastjórum úthlutað félögum eftir svæðum. Innan Fyrirtækjamiðstöðvar er jafnframt umsjón með innlendri og erlendri kröfufjármögnun bankans.

Á Fyrirtækjasviði eru auk þess fjórar stoðdeildir sem sinna þjónustu við þá hópa sem hafa umsjón með viðskiptum við fyrirtæki:

Viðskiptalausnir sem er ætlað að vera stuðningur við daglegan rekstur sviðins, auk þess að sinna netbanka Fyrirtækja og b2b þjónustu, greiningu markhópa, virðismati fyrirtækja, samræmingu á fræðslu og viðburðarstýringu og veitir stuðning við vöruþróun bankans.

Fyrirtækjalausnir sem taka til úrvinnslu skuldir félaga í vanefndum með það að markmiði að verja hagsmuni bankans. Úrvinnsla Fyrirtækjalausna felur í sér ítarlega greiningu á stöðu félags og í kjölfarið eftir því sem við á endurskipulagningu útlána, innlausn trygginga, samninga um uppgjör skuldbindinga eða eftirgjör skuldbindinga.

Lögfræðiþjónusta sem ber ábyrgð á frágangi og skjalagerð flóknari lánasamninga og tryggingaskjala ásamt samskiptum við viðskiptavini og lögmenn. Deildin veitir einnig lögfræðilega ráðgjöf eftir því sem við á og annast samskipti vegna lögfræðilegra mála.

Útlánamat sem annast umsjón lánamála og skráningu ákvarðana Lánanefndar og Fyrirtækjasviðs. Þá sér útlánamat um gerð árlegra lánshæfisskýrslna um stærstu viðskiptavini bankans.

Markaðir

Markaðir bjóða upp á margskonar þjónustu og ráðgjöf um fjárfestingar, eignastýringu og markaðsviðskipti sem hentar einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.

Markaðsviðskipti veita ráðgjöf til fyrirtækja og stærri fjárfesta varðandi kaup og sölu gjaldeyris eða verðbréfa og hefur milligöngu um kaup og sölu verðbréfa, hvort sem um er að ræða hlutabréf eða skuldabréf, innanlands sem erlendis.

Fyrirtækjaráðgjöf veitir fyrirtækjum og fjárfestum sjálfstæða ráðgjöf varðandi kaup, sölu og samruna fyrirtækja og rekstrareininga. Ennfremur hefur hún umsjón með hlutafjárútboðum, skráningu hlutafjár í kauphöll og veitir ráðgjöf því tengdu.

Stýring eigna býður upp á sérsniðna eignastýringu fyrir lögaðila, þ.m.t. fyrirtæki, styrktarsjóði og lífeyrissjóði. Einnig er lífeyrissjóðum boðið upp á alhliða þjónustu, s.s. bókhald, móttöku iðgjalda, útreikning og útgreiðslu lífeyris.

Eignastýring býður upp á fjölbreytta og sveigjanlega þjónustu í ávöxtun lausafjár fyrirtækja. Fjárfestingarstefna viðskiptavinar er ákvörðuð fyrirfram.

Viðskiptavakt bankans sinnir viðskiptavakt fyrir fjölda útgefenda skráðra verðbréfa og með íslensku krónuna á millibankamarkaði. Hlutverk viðskiptavaka er að stuðla að góðri verðmyndun og seljanleika á markaði með því að leggja á hverjum tíma fram í eigin reikning, bæði kaup- og sölutilboð með ákveðnu hámarks verðbili í þá eign sem vaktin nær til.

Erlendar fjárfestingar bjóða úrval fjárfestingarkosta sem henta ólíkum markmiðum og annast viðskipti með bréf og sjóði á öllum helstu mörkuðum heims fyrir viðskiptavini sína.

Einkabankaþjónustan er sérhæfð fjármálaþjónusta fyrir einstaklinga og félög sem vilja byggja upp öflugt safn verðbréfa og njóta í leiðinni sérfræðiráðgjafar Landsbankans.

Hjá Verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf starfa ráðgjafar með víðtæka reynslu í að aðstoða viðskiptavini við val á sparnaðarleiðum og uppbyggingu á eignasafni, allt eftir stöðu og markmiðum hvers og eins.

Áhættustýring

Hlutverk Áhættustýringar er að meta og stýra útlánaáhættu bankans, meta markaðsáhættu, lausafjáráhættu og rekstraráhættu og sjá um eftirlit með þessum þáttum. Sviðið ber ábyrgð á viðhaldi og greiningu áhættumatskerfa bankans. Áhættustýring sinnir jafnframt áhættustýringu fyrir lífeyrissjóði sem eru í rekstri hjá bankanum.

Innan Áhættustýringar eru sex deildir; Útlánaáhætta, Innri áhættulíkön, Útlánastýring, Markaðsáhætta, Rekstraráhætta og Áhættulausnir auk áhættustjóra lífeyrissjóða.

Útlánaáhætta hefur það hlutverk að mæla og hafa eftirlit með útlánaáhættu ásamt því að sjá bankanum fyrir kerfum og ferlum til að meta og stýra útlánaáhættu við útlánaákvarðanir og aðrar stefnumótandi ákvarðanir. Deildin ber einnig ábyrgð á greiningu og skýrslugjöf varðandi útlánaáhættu, eiginfjárþörf og virðisrýrnun útlána.

Innri áhættulíkön sjá bankanum fyrir innri líkönum og tengdum ferlum til að mæla áhættu, þar með talið að tengja saman áhættu og eigið fé, ásamt því að styðja við innleiðingu líkananna og ferlanna innan bankans.

Útlánastýring áritar útlánaákvarðanir viðskiptaeininga sem eru yfir tilteknum mörkum og hefur neitunarvald í slíkum málum. Áritunin felur í sér að deildin hefur yfirfarið ákvörðunina og beitir ekki neitunarvaldi. Útlánaákvörðunum utan áritunarheimilda Útlánastýringar er vísað til lánanefndar bankans.

Markaðsáhætta hefur umsjón með greiningu, mælingu og eftirliti með markaðsáhættuþáttum í rekstri bankans. Eftirlit með vaxtaáhættu utan veltubókar, lausafjáráhættu og gjaldeyrisjöfnuði bankans og afleiðuviðskiptum samstæðunnar hvílir á herðum deildarinnar. Markaðsáhætta sinnir upplýsingagjöf vegna þessara áhættuþátta, bæði innan bankans og utan, og framkvæmir reglulega áhættumælingar með tilliti til áhættuvilja. Markaðsáhætta sinnir ennfremur áhættumælingum vegna verðbréfasjóða í rekstri Landsbréf og lífeyrissjóða í stýringu Eignastýringar og annast upplýsingagjöf um áhættu til þessara aðila.

Rekstraráhættu ber að tryggja að rekstraráhætta í starfseminni sé þekkt og að bankinn innleiði, framfylgi og viðhaldi skilvirkum aðferðum við stýringu á rekstraráhættu.

Áhættustýring lífeyrissjóða í rekstri hjá sjóðnum fer fram hjá Áhættustýringu. Áhættustjóri lífeyrissjóða í rekstri hjá bankanum starfar beint undir framkvæmdastjóra Áhættustýringar en hefur jafnframt milliliðalausan aðgang að stjórn lífeyrissjóða. Áhættustjóri ber ábyrgð á að eftirlit fari fram, fer yfir útreikninga og niðurstöður og framkvæmir daglegar úttektir (vikmarkaeftirlit). Áhættustjóri gerir jafnframt skýrslu um eftirlit og möguleg frávik og kemur að gerð stefna, ferla og vinnulýsinga fyrir lífeyrissjóðina.

Áhættulausnir þróa og reka þær aðkeyptu lausnir sem notaðar eru í Áhættustýringu ásamt því að sjá um þróunarumhverfi og skýrsluumhverfi Áhættustýringar. Deildin ber einnig ábyrgð á umsjón og viðhaldi á reglulegum keyrslum Áhættustýringar ásamt skýrslusendingum til eftirlitsaðila.

Fjármál

Fjármál er blandað tekju- og stoðsvið. Sviðinu er skipt upp í 8 deildir; Fjárstýringu, Hagdeild, Hagfræðideild, Lánaumsjón, Lögfræðideild, Reikningshald, Rekstur og Viðskiptaumsjón.

Helstu verkefni Fjárstýringar eru lausafjárstýring og fjármögnun bankans, eigna- og skuldastýring (ALM) viðskiptavakt á peningamarkaði og stýring á innri verðlagningu fjármagns í bankanum. Fjárstýring annast einnig samskipti við Seðlabankann, innlendar og erlendar fjármálastofnanir og matsfyrirtæki. Fjárstýring gerir jafnframt tillögur að breytingum á vaxtatöflu bankans og ákvarðar sérkjör á bankareikningum í samráði við útibú.

Hagdeildin hefur umsjón með áætlanagerð bankans. Þá er uppbygging og miðlun stjórnendaupplýsinga stór hluti af starfsemi Hagdeildar. Hagdeild hefur jafnframt greiningar- og eftirlitshlutverki að gegna innan bankans. Deildin verk- og ritstýrir ICAAP-ferli bankans (eiginfjárþörf og eiginfjárstýring).

Hagfræðideild gegnir lykilhlutverki við að móta sameiginlega sýn Landsbankans á þróun og horfur í efnahagslífinu innanlands og utan. Hún annast greiningu á hagkerfinu og gefur út þjóðhags- og verðbólguspá, auk þess að sinna atvinnuvegagreiningum og öðrum sérhæfðari verkefnum. Deildin annast einnig greiningu og verðmat á skráðum félögum á markaði.

Lánaumsjón hefur umsjón með öllum lánum, tryggingaskjölum og ábyrgðum útgefnum af bankanum bæði til einstaklinga og fyrirtækja, allt frá skjalagerð til útgreiðslu, innheimtu og uppgreiðslu lána, bankaábyrgða og erlendra skjalainnheimtna.

Lögfræðideild annast lögfræðileg mál bankans. Helstu verkefni deildarinnar eru ráðgjöf til bankans og dótturfélaga varðandi hvers konar lögfræðileg álitaefni, málflutningur fyrir héraðsdómi, undirbúningur mála fyrir úrskurðarnefnd fjármálafyrirtækja, skjalagerð og samskipti við eftirlitsaðila einkum Fjármálaeftirlit og Samkeppniseftirlit. Lögfræðideildin hefur jafnframt umsjón með innheimtu vanskilakrafna fyrir bankann og annast skuldaúrlausnir fyrir einstaklinga.

Reikningshaldið ber ábyrgð á fjárhagsbókhaldi bankans sem felur m.a. í sér afstemmingar undirkerfa og eftirlit með viðskiptum. Reikningshaldið sér um mánaðar-, ársfjórðungs- og ársuppgjör samstæðu bankans. Reikningshald hefur jafnframt umsjón með skráningu og greiðslu allra kostnaðarreikninga bankans. <7

Innan Reksturs eru þrjár einingar; Eignadeild, Fullnustueignir og Aðalféhirðir. Eignadeild sér um framkvæmdir á vegum bankans, allan rekstur og umsýslu fasteigna og viðhald á eignum. Eignadeild sér auk þess um rekstur mötuneytis auk þess sem ýmis þjónusta við starfsfólk er hluti af starfsemi deildarinnar. Fullnustueignir sjá um alla umsýslu og sölu fullnustueigna bankans. Aðalféhirðir hefur umsjón með innlendum og erlendum sjóði bankans. Annast afgreiðslu á seðlum og mynt til útibúa sem og talningu og móttöku á innleggjum. Sér um áfyllingu á hraðbönkum utan útibúa o.fl.

Viðskiptaumsjón annast bakvinnslu bankans. Undir starfsemina heyrir varsla og frágangur viðskipta, bakvinnsla lífeyrissjóða, alþjóðleg greiðslumiðlun og bókhald sjóða og bakvinnsla.

Rekstur og upplýsingatækni

Undir Rekstur og upplýsingatækni falla átta deildir: Upplýsingatækni, Vefdeild, Viðskiptaumsjón, Lánaumsjón, Eignadeild, Þróun viðskiptatengsla CRM, Stefnumótun og verkefnastofa og Ferlaþróun. Allar deildirnar eiga það sameiginlegt að koma að rekstri og innviðum bankans. 

Upplýsingatækni sér um allan rekstur og þróun tölvukerfa bankans. Bankinn horfir í auknum mæli til innleiðingar á stöðluðum kerfum og fækkun upplýsingatæknikerfa sem mun leiða til einfaldari og hagkvæmari reksturs.

Vefdeild markar og framkvæmir stefnu bankans á sviði veflausna og margmiðlunar- og félagsmiðla í náinni samvinnu við ábyrgðaraðila á sviði vöruþróunar, markaðsmála og almannatengsla.

Viðskiptaumsjón og Lánaumsjón sinna mjög víðtækri þjónustu við tekjusvið bankans. Undir starfsemi viðskiptaumsjónar heyrir bakvinnsla lífeyrissjóða, varsla verðbréfa, alþjóðleg greiðslumiðlun, ábyrgðir, aðalféhirðir, frágangur viðskipta, viðskiptaeftirlit og útibúaþjónusta. Lánaumsjón annast alla skjalagerð og umsýslu lána, þ.m.t. þinglýsingar og vörslu frumskjala og hefur umsjón með öllum lánum útgefnum af bankanum til einstaklinga og fyrirtækja.

Eignadeild sér um allan rekstur og umsýslu fasteigna bankans, þar með talið viðhald. Framkvæmdir á vegum bankans og viðhald á eignum er á ábyrgð Eignadeildar. Skjalasafn bankans heyrir undir Eignadeild auk þess sem rekstur mötuneytis og ýmis þjónusta við starfsfólk er hluti af starfsemi deildarinnar.

Fullnustudeild bankans (Hömlur) sér um alla umsýslu og sölu á eignum sem bankinn hefur eignast vegna skuldaskila. Markmið Fullnustudeildar er að selja á markaðsverði allar eignir sem hún ræður yfir eins fljótt og mögulegt er samkvæmt þeim reglum sem bankinn hefur sett sér um meðferð slíkra eigna.

Stefnumótun og verkefnastofa leggur til sérfræðinga á sviði verkefnastjórnunar sem hafa umsjón með framkvæmd á öllum stærri verkefnum bankans, auk þeirra sem tengjast rýni, endurskoðun og framkvæmd á stefnu bankans.

Ferlaþróun hefur það hlutverk að stuðla að skilvirkri stjórnun skjala í starfseminni (bæði rafræn gögn og pappírsgögn). Sýn deildarinnar er pappírslaus banki og er henni ætlað að vera breytingarvaki innan bankans gagnvart skjalamálum.

Skrifstofa bankastjóra

Undir Skrifstofu bankastjóra tilheyra Markaðsdeild, Mannauður og Regluvarsla.

Markaðsdeild annast markaðsmál og þátttöku bankans í samfélaginu með styrkjum og stuðningi við verðug verkefni. Markaðsstefnan er samofin stefnu Landsbankans og er markaðsstarfið skipulagt til að ná fram markmiðum stefnunnar.

Mannauður sinnir starfsmannamálum og annast umfangsmikið fræðslustarf á vegum bankans. Mannauðsmálin eru mjög veigamikill málaflokkur og einn af lykilþáttum í rekstri og framtíð bankans.

Regluvarsla kemur að smíði reglna er kveða á um almennar skyldur starfsmanna bankans í samvinnu við aðrar deildir bankans, veitir ráðgjöf við túlkun þeirra og sinnir fræðslu um þær reglur sem snúa að verðbréfaviðskiptum. Önnur helstu verkefni Regluvörslu er umsjón og eftirlit með meðferð innherjaupplýsinga, hagsmunaárekstrum, aðskilnaði starfssviða, verðbréfaviðskiptum starfsmanna og bankans sjálfs ásamt því að bera ábyrgð á aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.