Samfélagsábyrgð

Landsbankinn hefur markað sér stefnu í samfélagsábyrgð þar sem efnahags-, samfélags- og umhverfismálum er fléttað saman við starfshætti bankans. Stefnan miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, vera hreyfiafl og starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum í rekstri bankans.

Landsbankinn tekur þátt í stofnun Samtaka um ábyrgar fjárfestingar

Samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi voru stofnuð 13. nóvember sl. Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Landsbankinn er eitt af 23 fyrirtækjum sem tók þátt í stofnun samtakanna.

Stofnaðilar Samtaka um ábyrgar fjárfestingar eru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög sem fjárfesta fyrir eigin reikning eða í umboði þriðja aðila með starfsemi á Íslandi og styðja tilgang samtakanna. Á meðal stofnaðila voru ellefu lífeyrissjóðir, fjórir bankar, þrjú tryggingafélög, fjögur rekstrarfélög verðbréfasjóða og eitt eignastýringarfyrirtæki.

Nánar um stofnun Samtaka um ábyrgar fjárfestingar


Samfélagsverkefni í deiglunni

Landsbankinn veitir 15 milljónir króna í samfélagsstyrki

Samfélagsstyrkir 2017
Styrkþegar ásamt dómnefnd og Helga Teit Helgasyni, framkvæmdastjóra Einstaklingssviðs Landsbankans.

Samfélagsstyrkjum að upphæð 15 milljónum króna var úthlutað úr Samfélagssjóði Landsbankans fimmtudaginn 14. desember sl. Að þessu sinni voru styrkþegar alls 38 en verkefnin eru afar fjölbreytt og gagnast fólki á öllum aldri og víða um land.

Þrjú verkefni hlutu styrk að fjárhæð 1 milljón króna, eitt hlaut 750.000 króna styrk, 11 verkefni hlutu 500.000 króna styrk og 23 verkefni fengu 250.000 króna styrk.

Rúmlega 300 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Samfélagsstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja mannúðar- og líknarmál, menntamál, rannsóknir og vísindi, forvarnar- og æskulýðsstarf, sértæka útgáfustarfsemi og verkefni á sviðum menningar og lista.

Dómnefnd samfélagsstyrkja var að þessu sinni skipuð þeim Ármanni Jakobssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Felix Bergssyni, leikara og Guðrúnu Agnarsdóttur, lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar.

Nánar um styrkveitinguna

 

Úthlutanir úr Menningarnæturpotti Landsbankans

Alls fengu 25 verkefni styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans þann 9. ágúst. Hægt verður að sjá afrakstur þeirra á Menningarnótt 19. ágúst. Veittir voru styrkir á bilinu 100-350 þúsund kr. til einstaklinga og hópa, samtals fjórar milljónir króna. Um er að ræða samstarfsverkefni Landsbankans og Höfuðborgarstofu en bankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi.

Áhersla lögð á Hlemm

Starfshópur á vegum Höfuðborgarstofu valdi styrkþegana úr hópi 70 umsókna en þetta er í áttunda skipti sem veitt er úr Menningarnæturpottinum. Við úthlutunina var lögð áhersla á að styðja skemmtilega og frumlega viðburði. Áherslusvæðið í ár er Hlemmur og þar í kring og var tekið tillit til þess í styrkveitingunni. Svæðið hefur verið að byggjast hratt upp síðustu misseri og verður Hlemmur Mathöll t.d. opnuð þar á næstu dögum þar sem 10 veitingastaðir og kaupmenn bjóða upp á alls kyns kræsingar.

Landsbankinn mun til viðbótar við styrkina standa fyrir árvissri dagskrá í útibúi sínu í Austurstræti á Menningarnótt.

Nánar um styrkveitinguna

 

Samstarf

Landsbankinn á í samstarfi á sviði samfélagslegrar ábyrgðar bæði hér á landi og erlendis. Bankinn er einn stofnaðila þekkingarseturs um samfélagslega ábyrgð, aðili að UN Global Compact, einn af stofnendum norrænnar deildar innan UNEP FI og fylgir leiðbeiningarstaðlinum ISO 26000.

Nánar um samstarfið


Þetta tengist líka Samfélagsstefnu Landsbankans - með beinum eða óbeinum hætti