Ábyrgar fjárfestingar

Markmið stefnu um ábyrgar fjárfestingar

Stefnunni er ætlað að skilgreina ramma sem gerir bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð í fjárfestingaákvarðanir.

Stefnan gildir fyrir Landsbankann og leggur bankinn áherslu á að dótturfélög hans taki upp sambærilega stefnu.

Stefnan á fyrst og fremst við fjárfestingar í skráðum og óskráðum verðbréfum, fyrir hönd bankans eða viðskiptavina hans.

Ábyrgar fjárfestingar fela í sér:

 • Að Landsbankinn fari að lögum og reglum sem gilda á hverjum tíma og á viðkomandi markaði.
 • Að með fjárfestingum verði ávallt leitast við að lágmarka neikvæð áhrif og ýta undir jákvæð áhrif fjárfestingarinnar á umhverfi, starfsfólk og aðra hagsmunaaðila.
 • Að Landsbankinn skuldbindi sig til að stuðla að stöðugum umbótum á sviði umhverfis- og samfélagsmála og stjórnarhátta.
 • Að Landsbankinn innleiði áhættumat þar sem meta skal umhverfisþætti, samfélagslega þætti og stjórnarhætti fyrirtækja þegar hugað er að fjárfestingum í þeim.

Tilgangur stefnunnar

Tilgangur stefnunnar er að búa til skilvirka og trúverðuga nálgun á álitaefnum er snúa að ábyrgum fjárfestingum en jafnframt að leitast við að ná ásættanlegri arðsemi af fjárfestingum bankans.

Í stefnunni er lögð áhersla á gagnkvæma upplýsingagjöf, innan og utan bankans,varðandi ábyrgar fjárfestingar.

Slík upplýsingagjöf styður við greiningu, samanburð og mat á mismunandi fjárfestingakostum.

Markmið og umhverfi

Umhverfis- og samfélagsmál og stjórnarhættir eru allt mikilvægir liðir í mati bankans á fjárfestingum. Það er mat bankans að fyrirtæki sem taka tillit til þessara þátta í starfsemi sinni njóti ávinnings til lengri tíma litið.

Efnahagsumhverfi á Íslandi er ýmsum takmörkunum háð og hefur það áhrif á rekstrar- og fjárfestingarumhverfi Landsbankans og viðskiptavina hans. Framkvæmd stefnunnar þarf að taka mið af fjárfestingarmöguleikum íslenskra fjárfesta hverju sinni.

Aðstæður á Íslandi sem geta haft áhrif á framkvæmd stefnunnar:

 • Fjármagnshöft, þar sem erlendar fjárfestingar eru takmarkaðar.
 • Fá félög í Kauphöll, fjárfestingamöguleikar í skráðum hlutabréfum takmarkaðir.
 • Takmarkað úrval af skuldabréfum öðrum en útgefnum af ríkinu eða með ábyrgð ríkisins.
 • Vaxandi framboð af framtakssjóðum.
 • Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja vegna efnahagshrunsins 2008.
 • Fáir þátttakendur á markaði.

Aðferðarfræði

Virkar samræður

Landsbankinn vinnur með öðrum fjárfestum og hagsmunaaðilum að því að auka vitund á og vægi ábyrgra fjárfestinga á Íslandi.

Hjá Landsbankanum er lögð áhersla á að vinna með fyrirtækjum að skilgreindum forgangsmálum sem eru viðeigandi fyrir starfssemi viðkomandi fyrirtækis. Tilgangurinn er að vera þátttakandi í að byggja upp vel rekið fyrirtæki, fjárfestum og samfélaginu til hagsbóta.

Í Landsbankanum eru virk fjárfestingartengsl notuð til að hafa áhrif á ákvörðunartöku innan fyrirtækja er varða ábyrga stjórnarhætti. Í þessu skyni mun bankinn nota atkvæðarétt sinn á hluthafafundum ef bankinn telur ósamræmi vera í stefnu fyrirtækisins við stefnu Landsbankans þegar litið er til ábyrgra stjórnarhátta.

Í tilfellum þar sem atvinnugreinar geta haft neikvæð umhverfis- eða samfélagsáhrif verður horft til þess með hvaða leiðum innan viðkomandi fyrirtækis er unnið að því að draga úr þessum áhrifum, í samræmi við stefnuviðmið Landsbankans.

Samþætting samfélagsmála og stjórnarhátta í greiningar og fjárfestingaákvarðanir

Í starfsemi Landsbankans eru umhverfis-, samfélagsmál og stjórnarhættir samþætt í greiningar á fyrirtækjum með það að markmiði að fá heildstæða mynd af starfsemi fyrirtækisins þannig að hægt sé að greina betur þau tækifæri og þá áhættu sem felst í fjárfestingunni. Mat á samfélagsáhættu skal fylgja sömu meginreglum og mat á fjárhagslegri áhættu.

Mat á áhættu og tækifærum getur verið mismunandi eftir atvinnugreinum og eignaflokkum en það skal fylgja stefnuviðmiðum og atvinnugreinaviðmiðum Landsbankans á hverjum tíma.

Neikvæð skimun

Það er ekki ætlun bankans að beita neikvæðri skimun sem felur í sér að útiloka fyrirtæki úr fjárfestingarmengi bankans. Ef fyrirtæki gerast hins vegar ítrekað brotleg gegn landslögum, alþjóðalögum eða samningum sem Ísland hefur fullgilt áskilur bankinn sér rétt að útiloka það úr fjárfestingamengi sínu. Neikvæð skimun á að vera undantekningartilfelli þegar samræður við fyrirtæki hafa ekki borið tilætlaðan árangur.

Það er mat Landsbankans að samþætting umhverfismála, samfélagsmála og stjórnarhátta við mat á fjárfestingakostum leiði til betri ákvörðunartöku og dragi úr fjárhagslegri áhættu fyrir bankann. Lögð er áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir og að hagur bankans og fjárfesta verði betur tryggður til langtíma með samræðum við fyrirtæki um samfélagsábyrgð.

Starfshættir Landsbankans varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á eftirfarandi aðferðarfræði:

 • Virkar samræður.
 • Samþætting umhverfismála, samfélagsmála og stjórnarhátta við greiningar og fjárfestingaákvarðanir.
 • Neikvæð skimun - undantekningartilvik.

Viðmið og leiðbeiningar

Við mat á fjárfestingum er tekið mið af eftirfarandi atriðum:

 • Atvinnugreinaviðmiðum Landsbankans á hverjum tíma en í þeim er tilgreint hvernig bankinn vinnur með ákveðnum atvinnugreinum með hliðsjón af umhverfis- og samfélagsáhættu viðkomandi atvinnugreinar.
 • Stefnuviðmið Landsbankans en í þeim tilgreinir bankinn hvaða atriði hann leggur áherslu á, sem eigandi eða sjóðsstjóri, í einstökum málaflokkum óháð atvinnugreinum.
 • Alþjóðalögum og alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur fullgilt.
 • Starfsleyfisskilyrðum.
 • UN Global Compact.
 • OECD Guidelines for Multinational Companies.
 • Leiðbeiningar Viðskiptaráðs, Nasdaq OMX Iceland og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja.

Samstarf

Landsbankinn er aðili að UN Principles for Responsible Investment (UN PRI) og leggur áherslu á að samstarfsaðilar bankans, þeir sem koma að greiningu fyrirtækja fyrir hönd bankans og sjóðstjórar, séu þátttakendur eða taki tillit til viðmiða UN PRI í starfsemi sinni.

Landsbankinn leitast eftir samstarfi við aðra fjárfesta, sjóðsstjóra, greiningaraðila og hagsmunaaðila við að innleiða ábyrgar fjárfestingar á Íslandi.

Skipulag ábyrgra fjárfestinga

Megináherslur Landsbankans varðandi ábyrgar fjárfestingar eru skilgreindar nánar í áhættuvilja bankans og útfærðar af áhættu- og fjármálanefnd og fjárfestingaráði Eignastýringar.

Upplýsingagjöf

Virkar samræður við fyrirtæki um umhverfismál, samfélagsmál og stjórnarhætti byggja á gagnkvæmu trausti.

Lögð er áhersla á að viðhalda trausti þeirra fyrirtækja sem bankinn hefur fjárfest í. Landsbankinn mun því ekki upplýsa um hvaða fyrirtæki bankinn á í samræðum við né heldur um hvaða málefni hefur verið rætt ef það getur haft neikvæð áhrif á viðkomandi fyrirtæki.