Umhverfismál

Landsbankinn hefur þegar kolefnisjafnað akstur og flugferðir starfsmanna

Landsbankinn undirritaði í nóvember 2015 yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum ásamt rúmlega 100 öðrum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. Yfirlýsingin var gerð í samstarfi við Reykjavíkurborg og Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð.

Landsbankinn kolefnisjafnar akstur starfsmanna á vegum bankans, millilandaflug og innanlandsflug starfsmanna í erindum á hans vegum.

Upphæðin rennur til Kolviðs, sjóðs sem starfar að því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koltvísýrings í andrúmslofti. Með kolefnisjöfnuninni axlar bankinn ábyrgð á þeirri mengun sem myndast vegna ferða starfsmanna í þágu bankans.

Til að koma jafnvægi á kolefnisbúskapinn er hægt að binda kolefni í jörðu með skógrækt. Skógrækt bindur kolefni úr koltvísýringi andrúmsloftsins og til verður súrefni. Nánar um Kolvið.

Bifreiðar í notkun hjá Landsbankanum við árslok 2017 voru 21 talsins og er heildarakstur þeirra áætlaður 308.076 km á árinu, eða 14.670 km á hvern bíl að meðaltali. Eldsneytisnotkun mæld í kWh minnkaði úr 401.830 í 287.684, eða um 28,4% frá fyrra ári.

Árangur í að draga úr eldsneytisnotkun hefur náðst með því að auka fjölda rafmagnsbíla á kostnað bíla sem brenna eldsneyti en það hefur verið stefna Landsbankans að kaupa umhverfisvæna bíla þegar bílar eru uppfærðir. Boðið er upp á hjól til að fara styttri vegalengdir, tvö rafmagnshjól og tvö reiðhjól sem starfsfólk getur bókað og notað sem ferðamáta í stað bifreiða.

Mikil fækkun var á vinnutengdum flugferðum starfsmanna erlendis á árinu. Farnir voru 294 flugleggir á árinu 2017 samanborið við 499 flugleggi árið 2016. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða erlendis var 95,8 tonn sem er minnkun um 62,7 tonn frá árinu áður.

Ítarlegri upplýsingar um umhverfisvísa Landsbankans eru birtar í samfélagsskýrslu bankans.

 

Vistvænar samgöngur

Starfsfólk Landsbankans getur undirritað samgöngusamning við bankann, en tilgangurinn með honum er að hvetja starfsfólk til að ferðast til og frá vinnu eða á vinnutíma þegar þess þarf, á vistvænni hátt en áður. Í lok árs 2017 voru 446 starfsmenn með virka samgöngusamninga, eða 41% af heildarfjölda starfsmanna. Af þeim sem eru með virka samgöngusamninga eru 265 konur, eða 59,42%, og 181 karl sem er sambærilegt við hlutfall kynjanna í starfsliði bankans.

Svansmerkt mötuneyti

Mötuneyti Landsbankans í höfuðstöðvum bankans í Hafnarstræti í Reykjavík hefur hlotið vottun norræna umhverfismerkisins Svansins fyrir veitingarekstur og er fyrsta umhverfisvottaða mötuneyti landsins. Í mötuneyti Landsbankans er nú fylgst vel með orkunotkun og rík áhersla er lögð á að bjóða upp á lífrænt ræktuð matvæli. Þá eru einnota borðbúnaður og ílát ekki notuð lengur og flokkun á sorpi hefur stóraukist.

68% minni pappírsnotkun

Markvisst er unnið að því að draga úr pappírsnotkun m.a. með því að hvetja starfsfólk að nýta kosti rafrænnar tækni og þess krafist í enn ríkari mæli að notaður sé umhverfisvænn pappír. Svokallað prentský var tekið í notkun árið 2012 og í framhaldi af því hefur dregið úr pappírsnotkun í starfsemi bankans um 68%.