Dagatal Landsbankans

Dagatal 2018 – Eldvirkni í iðrum Íslands

Óvíða er að finna stað sem sýnir betur þá hamslausu orku sem býr í jörðu en einmitt Ísland. Ísland er staðsett á svokölluðum heitum reit, sem þýðir að bergkvikan á hér greiðari leið upp á yfirborðið en víðast annars staðar. Saga lands og þjóðar hefur mótast mjög af þessum eldsumbrotum.

Sambúð lands og þjóðar hefur stundum verið erfið, enda gátu eldgos og hamfarir eyðilagt áætlanir einstaklinga á augabragði. Á stundum hefur Íslendingum eflaust þótt sem landið væri andstæðingur, þegar heil héruð lögðust í eyði undir öskulagi, eða eitruð móða lagðist yfir landið.

 

En eldvirknin hefur einnig verið mikilvægur bandamaður. Áður fyrr baðaði fólk sig í heitum laugum en heitt vatn hitar nú hús okkar og býr til raforku til lýsingar og iðnaðar. Þá hefur stórfenglegt landslag og eldsumbrot veitt skáldum innblástur. Án ófyrirsjáanlegrar eldvirkninnar væri Ísland ekki Ísland.

Dagatal Landsbankans í ár er tileinkað jarðsögu Íslands og einstökum eldsumbrotum og eldstöðvum. Í því blandast fróðleikur um jarðfræðileg hugtök og sögulega atburði og er von okkar sú að dagatalið og myndirnar í því geri eldvirknina í iðrum Íslands í senn aðgengilega og áhugaverða.

Janúar – Vestmannaeyjar

Þegar gos hófst í Heimaey 23. janúar 1973 kom það á óvart, en eldstöðin var talin óvirk. Gosið, sem var í byggð, olli miklu tjóni og varð höfninni aðeins bjargað eftir mikla baráttu. Jarðhiti eftir gosið var um skeið nýttur til húshitunar.

 

Febrúar – Snæfellsjökull

Eldkeilan Snæfellsjökull er með elstu virku eldfjöllum á Íslandi og hefur gosið yfir 20 sinnum frá lokum síðustu ísaldar, ýmist hraungos eða sprengigos. Síðast gaus í jöklinum fyrir um 1750 árum og var það mikið sprengigos.

 

Mars – Eldey

Afar mikil eldvirkni var undan Reykjanesi á 13. öld og er talið að móbergsdrangurinn Eldey hafi myndast í gosi á árunum 1210 og 1211. Í Eldey er ein stærsta súlubyggð í heimi og síðasti geirfuglinn var drepinn í eyjunni árið 1844.

Apríl – Gervigígar

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir votan jarðveg eða grunnt stöðuvatn. Vatnið undir hrauninu hvellsýður og skapar mikinn gufuþrýsting. Gíglaga hóll myndast svo þegar síendurteknar gufusprengingar verða í vatninu undir hrauni.

 

Maí – Esjan

Esjan mótaðist af því að á meðan fjallið var virkt, fyrir 1,8 til 2,8 milljónum ára, voru a.m.k. 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli. Eldgos urðu því ýmist undir jökli eða á auðu landi og hlóðust þá upp á víxl móbergshnjúkar og hraunhellur.

 

Júní – Öræfajökull

Allt til 1362 var blómleg byggð í Litla-héraði undir Öræfajökli. Það ár hófst gríðarmikið sprengigos í jöklinum og rann brennheitur gosmökkur niður hlíðar fjallsins í gusthlaupi. Eyddist öll byggð í héraðinu, sem í kjölfarið fékk nafnið Öræfi.

 

Júlí – Ásbyrgi

Hið einstaka gljúfur Ásbyrgi er með þekktari náttúruundrum Íslands. Það er talið hafa myndast í a.m.k. tveimur hamfarahlaupum í Jökulsá á Fjöllum úr norðanverðum Vatnajökli eftir eldgos undir jöklinum fyrir 8000 og 3000 árum.

 

Ágúst – Surtsey

Surtsey er með yngstu eyjum heims, en hún varð til í eldgosi sem stóð yfir frá 1963 til 1967. Eldgosið hófst á 130 metra dýpi og náði upp á yfirborð sjávar þann 14. nóvember 1963. Flatarmál eyjunnar hefur minnkað um helming frá goslokum.

 

September – Hekla

Hekla er eldhryggur sem gýs oft með litlum fyrirvara. Gos hefjast gjarnan með sprengivirkni og í upphafi stórgosa getur gosið á 4 km langri sprungu. Virknin dregst svo fljótt saman og takmarkast við einn eða tvo gíga hæst í fjallinu.

 

Október – Heiti reiturinn

Heitir reitir nefnast staðir á jörðinni þar sem möttulstrókar rísa úr iðrum jarðar. Ísland liggur á slíkum reit, sem skýrir mikla eldvirkni landsins. Án heita reitsins myndi draga mjög úr eldvirkni hér og Ísland hverfa smám saman í hafið.

 

Nóvember – Móðuharðindin

Í Skaftáreldum 1783 og 1784 varð gríðarlegt hraunrennsli, en það var eitruð gosmóðan sem olli mestu tjóni. Fjöldi fólks lét lífið þegar eitrið lagðist yfir landið og búfénaður féll. Hitastig lækkaði vegna ösku og móðu og aftakavetur fylgdi.

 

Desember – Katla

Katla er megineldstöð undir jökli og þegar hún gýs koma gosefnin upp sem gjóska í sprengigosi. Við slík gos verða oft stór jökulhlaup. Í gosinu 1918 nam hlaupið allt að 300.000 m³/s og var meðan á því stóð eitt vatnsmesta vatnsfall í heimi.