Viðskiptaskilmálar

Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans

Nýir skilmálar 1. september 2020

Landsbankinn hefur gefið út nýja útgáfu af almennum viðskiptaskilmálumNýju skilmálarnir gilda frá og með 1. september 2020 gagnvart nýjum viðskiptavinum en frá og með 1. nóvember 2020 gagnvart núverandi viðskiptavinum.


Nr. 1532-03  |  1. september 2019

1 Inngangur

1.1 Gildissvið

Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans (hér eftir skilmálarnir/skilmálar þessir) gilda í viðskiptum milli Landsbankans hf. (hér eftir Landsbankinn eða bankinn) og viðskiptavinar. Viðskiptavinur getur verið einstaklingur eða lögaðili (hér eftir lögaðili eða fyrirtæki). Um viðskiptavin sem fellur ekki undir skilgreiningu á neytanda í skilningi laga um neytendalán og/eða laga um greiðsluþjónustu kunna að gilda sérreglur sem víkja frá ákvæðum skilmálanna. Auk skilmála þessara gilda, eftir atvikum, ákvæði samninga, skilmála og reglna um einstakar vörur eða þjónustu sem bankinn kann að veita viðskiptavini. Þau ákvæði ganga framar ákvæðum skilmála þessara ef misræmi er á milli. Skilmálar bankans eru birtir á vef bankans og eru aðgengilegir í útibúum bankans.

1.2 Breytingar á skilmálum

Bankinn getur hvenær sem er gert breytingar á skilmálum þessum einhliða og án fyrirvara. Breytingar á skilmálunum eru tilkynntar viðskiptavini með skilaboðum í netbanka eða með almennri tilkynningu á vefsvæði bankans eða með öðrum hætti sem bankinn ákveður.

Ef breytingar á skilmálum þessum varða ákvæði um rammasamning um greiðsluþjónustu og eru ekki til hagsbóta fyrir viðskiptavin taka þær gildi með tveggja mánaða fyrirvara. Í tilkynningu um breytingar á slíkum ákvæðum skilmálanna er vakin athygli á því að viðskiptavinur hefur rétt á að tilkynna bankanum um uppsögn rammasamningsins áður en breyttir skilmálar taka gildi. Viðskiptavinur telst hafa samþykkt þær breytingar tilkynni hann bankanum ekki um annað fyrir fyrirhugaðan gildistökudag. Segi viðskiptavinur rammasamningnum upp áður en tveggja mánaða fyrirvarinn er liðinn, en notar engu að síður viðkomandi greiðslureikning eða greiðslumiðil tengdan reikningnum eftir að tveggja mánaða fyrirvarinn er liðinn telst viðskiptavinurinn hafa samþykkt breytingarnar.

1.3 Um Landsbankann

Landsbankinn veitir einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum um allt land fjármálaþjónustu sem byggir á langtíma viðskiptasamböndum. Bankinn rekur netbanka, útibú, afgreiðslur og hraðbanka víðsvegar um landið. Bankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík, sbr. lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum (sjá vef Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is).

Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, 101 Reykjavík, Ísland
Sími: 410-4000. Netfang: info@landsbankinn.is, Vefur: www.landsbankinn.is. Swift/BIC: NBIIISRE

2 Almenn ákvæði um viðskiptasambandið

2.1 Vinnsla persónuupplýsinga

Landsbankinn vinnur persónuupplýsingar um viðskiptavin samkvæmt skilmálum þessum og eftir atvikum samningum, skilmálum og reglum um einstakar vörur eða þjónustu sem bankinn kann að veita viðskiptavini. Bankinn getur einnig unnið persónuupplýsingar á grundvelli samþykkis viðskiptavinar, laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða í samræmi við lögmæta hagsmuni, eins og nánar er lýst í persónuverndarstefnu Landsbankans, sem birt er á vef bankans. Vinnsla persónuupplýsinga er forsenda þess að bankinn veiti viðskiptavini fjármálaþjónustu og að viðskiptavinur eigi viðskipti við bankann og er nauðsynleg til þess að gera eða efna samninga þar að lútandi.

Viðskiptavinur skal veita bankanum upplýsingar um nafn, kennitölu, lögheimili og eftir atvikum aðsetur, aðrar samskiptaupplýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar. Bankinn móttekur þar að auki nauðsynlegar upplýsingar um viðskiptavin með reglubundnum hætti frá þriðju aðilum í samræmi við persónuverndarstefnu bankans, t.d. upplýsingar um skráðar kennitölur, nöfn, hjúskaparstöðu, börn, lögheimili, aðsetur, fæðingarstað og ríkisfang. Bankanum ber að afla tiltekinna upplýsinga frá viðskiptavini á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í tilviki lögaðila ber m.a. að veita upplýsingar um stjórn lögaðila, framkvæmdastjórn, prókúruumboð og raunverulega eigendur lögaðilans. Óski viðskiptavinur eftir fyrirgreiðslu eða sambærilegum viðskiptum hjá bankanum er nauðsynlegt að  hafa virkt eftirlit með útlánum og skuldastöðu viðskiptavinar. Meðal annars aflar bankinn fjárhagslegra upplýsinga um viðskiptavin (a) úr skrám starfandi fjárhagsupplýsingastofu, t.d. Creditinfo lánstrausts, þ.e. upplýsinga úr viðskiptamannavakt (vanskilaskrá), lánshæfismat, afrit af skuldbindingayfirliti og sambærilegar upplýsingar, (b) úr skattframtali frá ríkisskattstjóra, (c) frá fyrirtækjaskrá, þ.e. vottorð félags, samþykktir og sambærilegar upplýsingar og (d) frá samstarfs- og vinnsluaðilum sem vinna upplýsingar um innheimtu og vanskil, t.d. Reiknistofu bankanna, þ.e. upplýsingar úr kröfupotti, og Motus. Einnig getur bankanum verið nauðsynlegt, í tilefni vanskila, að miðla upplýsingum um útlán og skuldastöðu viðskiptavinar til fyrrnefndra aðila, t.d. í skrár Creditinfo lánstrausts. Vinnsluaðilar bankans kunna að fá afhentar persónuupplýsingar viðskiptavinar vegna framkvæmdar viðskipta eða annarra þjónustuþátta bankans. Ofangreint á einnig við um ábyrgðarmenn. Sama á við um maka viðskiptavinar þegar skuldbindingar eru sameiginlegar, sbr. nánari umfjöllun í kafla um Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Bankinn varðveitir og vinnur framangreindar upplýsingar á meðan á samningssambandi stendur og eftir að samningssambandi lýkur til samræmis við skilmála þessa, persónuverndarstefnu Landsbankans, samninga, skilmála og reglur bankans. Til að tryggja rétta auðkenningu og áreiðanleika upplýsinga um viðskiptavin varðveitir bankinn afrit af rafrænum skilríkjum viðskiptavinar með reglubundnum hætti til samræmis við gildistíma þeirra. Neiti viðskiptavinur að afhenda bankanum persónuupplýsingar eða að unnið sé með þær kann það að hafa þær afleiðingar að bankanum verði ófært að veita viðskiptavini umbeðna fjármálaþjónustu. Svo unnt sé að veita viðskiptavini fyrirgreiðslu tekur bankinn sjálfvirka ákvörðun um lánshæfi og annars konar þjónustu í þágu viðskiptasambandsins í samræmi við skilmála þessa, eftir atvikum á grundvelli persónusniðs viðskiptavinar. Persónusnið byggist á persónuupplýsingum sem bankinn á um viðskiptavin, t.d. lánshæfismati, lánshæfiseinkunn og upplýsingum um viðskipti viðskiptavinar. Dæmi um sjálfvirka ákvarðanatöku er sjálfvirk framlenging yfirdráttarheimildar sem tekur mið af lánshæfismati viðskiptavinar. Viðskiptavinur getur komið á framfæri athugasemdum við bankann varðandi sjálfvirka ákvarðanatöku.

Svo unnt sé að veita viðskiptavini verðbréfaþjónustu, t.d. vegna kaupa í erlendum sjóðum eða erlendum kauphöllum, er persónuupplýsingum viðskiptavinar miðlað til erlendra samstarfsaðila sem koma að þjónustunni, vörslu og/eða uppgjöri viðskipta eins og nánar er lýst í viðkomandi skilmálum.

Bankinn vinnur einnig persónuupplýsingar um viðskiptavin til að þróa og/eða kynna vörur, þjónustu eða viðskiptalausnir bankans. Í framangreindum tilgangi er unnin þarfa- og markhópagreining, eftir atvikum á grundvelli persónusniðs, svo unnt sé að bjóða persónubundnar vörur og þjónustu. Þá er nauðsynlegt að vinna persónuupplýsingar til að tryggja gæði veittrar þjónustu, hafa yfirsýn yfir stöðu viðskiptavinar og í þágu fjárstýringar og/eða áhættustýringar bankans. Bankinn hefur samband við viðskiptavin í þeim tilgangi, t.d. í gegnum tölvupóst, í síma, með smáskilaboðum í farsíma eða í netbanka eða með sambærilegum samskiptaleiðum.

Á grundvelli laga, skilmála þessara, skilmála, samninga, reglna og lögmætra hagsmuna bankans, viðskiptavinar eða þriðja aðila, kunna símtöl að vera hljóðrituð. Bankinn ábyrgist ekki að öll símtöl séu hljóðrituð. Hljóðritun símtala fer fram í þeim tilgangi að tryggja rekjanleika viðskipta og sannreyna efni símtala. Bankinn kann að nota upptökur sem sönnunargagn komi upp ágreiningur um efni samtals aðila, t.d. um forsendur eða framkvæmd viðskipta, eða til að rannsaka mögulega saknæma og/eða refsiverða háttsemi starfsmanna eða viðskiptavina bankans.

Bankinn vinnur nauðsynlegar upplýsingar um viðskiptavin með vefkökum á vef bankans og í netbanka í þágu net- og upplýsingaöryggis, t.d. með því að greina frávik frá hefðbundinni viðskiptahegðun viðskiptavinar. Nánari upplýsingar um notkun bankans á vefkökum má finna á vef bankans. Bankinn skoðar einnig tæknilegt umhverfi netbanka viðskiptavinar og tengingar viðskiptavinar við netbanka, vinnur upplýsingar um það tæki sem viðskiptavinur notar hverju sinni, t.d. IP-tölu og tegund tækis, sem og önnur atriði varðandi tengingu við bankann vegna framkvæmdar viðskipta í sama tilgangi. Verði viðskiptavinur var við villu eða galla við notkun, t.d. á netbanka, appi eða vefsvæði bankans, skal hann gera bankanum viðvart án tafar. Bankinn kann að þurfa að leysa úr villu með því að skrá sig inn í netbanka viðskiptavinar.

Starfsmenn bankans eru bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptavina bankans og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara með samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Þrátt fyrir lögboðna trúnaðarskyldu gagnvart utanaðkomandi aðilum um málefni viðskiptavina er bankanum skylt samkvæmt lögum að veita opinberum aðilum, t.d. eftirlits-, tollgæslu-, skatta- og lögregluyfirvöldum, slíkar upplýsingar. Trúnaðar- og þagnarskylda starfsmanna bankans og þeirra sem upplýsingum er miðlað til helst lögum samkvæmt þótt látið sé af starfi. Taki viðskiptavinur fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar við upplýsingum sem varða hann ekki er honum óheimilt að skrá þær hjá sér eða notfæra upplýsingarnar á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna bankanum um að upplýsingarnar hafi borist honum. Viðskiptavini er skylt að gæta fyllsta trúnaðar um slíkar upplýsingar.

Öll vinnsla persónuupplýsinga fer fram í samræmi við gildandi persónuverndarlög á hverjum tíma. Í persónuverndarstefnu Landsbankans er að finna nánari útlistun á þeirri vinnslu og meðferð persónuupplýsinga sem fram fer hjá bankanum, m.a. hvaða persónuupplýsingar eru unnar og í hvaða tilgangi, réttindum einstaklinga, varðveislutíma persónuupplýsinga, afhendingu til þriðju aðila, öryggi persónuupplýsinga og um persónuverndarfulltrúa bankans. Persónuverndarstefna Landsbankans gildir samhliða skilmálum þessum og er birt á vef bankans. Viðskiptavini ber að kynna sér persónuverndarstefnu Landsbankans.

2.2 Stofnun viðskipta

Viðskiptavinur stofnar til viðskipta við bankann á vef bankans, í netbanka, í snjalltækjaforriti bankans (hér eftir nefnt „app“ eða „appið“) eða í útibúi. Við stofnun viðskipta ber viðskiptavini að sanna á sér deili með fullgildum persónuskilríkjum, þ.e. vegabréfi, nafnskírteini, ökuskírteini eða fullgildum rafrænum skilríkjum. Ef stofnað er til viðskipta fyrir hönd lögaðila, fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila þurfa allir stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, prókúruhafar og raunverulegir eigendur lögaðilans að sanna á sér deili með fullgildum persónuskilríkjum. Við stofnun viðskipta velur viðskiptavinur vörur og/eða þjónustu og fær aðgang að netbanka. Bankinn kannar áreiðanleika nýs viðskiptavinar með því að óska eftir upplýsingum um hagi hans, sbr. nánari umfjöllun í kafla um Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Umsókn þarf að uppfylla kröfur til stofnunar viðskipta samkvæmt skilmálum þessum og eftir atvikum samningum, skilmálum eða reglum sem gilda um viðkomandi vöru og/eða þjónustu. Viðskiptavinur staðfestir viðkomandi umsókn, samning og/eða skilmála í samræmi við kröfur bankans á hverjum tíma. Bankanum er heimilt að hafna umsókn um stofnun viðskipta, m.a. ef upplýsingar um viðskiptavin eru ófullnægjandi, ef umsókn uppfyllir ekki kröfur til stofnunar viðskipta eða af öðrum málefnalegum ástæðum.

2.3 Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Bankinn starfar samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með síðari breytingum og er bankanum skylt að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptavin m.a. við stofnun viðskipta og/eða vegna einstakra viðskipta. Til að framkvæma áreiðanleikakönnun óskar bankinn m.a. eftir persónuupplýsingum um viðskiptavin, t.d. nafni, kennitölu, lögheimili, stöðu, símanúmeri, netfangi, fæðingarstað og ríkisfangi, auk fjárhagslegra upplýsinga. Lögaðilar skulu veita upplýsingar um nafn, kennitölu, lögheimili, lagalegt form, upplýsingar um stjórn, framkvæmdastjórn og prókúruhafa, sem og upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðilans og hverjir hafi heimildir til að skuldbinda lögaðilann. Bankinn aflar jafnframt upplýsinga um hvort viðskipti fari fram fyrir hönd þriðja aðila og upplýsinga um eðli og tilgang hins fyrirhugaða viðskiptasambands.

Áður en til viðskipta er stofnað skal viðskiptavinur jafnframt sanna á sér deili með framvísun gildra persónuskilríkja sem eru gefin út eða viðurkennd af stjórnvöldum, t.d. vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini eða fullgild rafræn skilríki. Lögaðilar sanna á sér deili með því að framvísa vottorði úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eða sambærilegri opinberri skrá sem sannar skráningu viðkomandi lögaðila. Metið er hverju sinni hvort krafist er afrits af samþykktum lögaðila og/eða endurskoðuðum ársreikningi. Stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, prókúruhafar og raunverulegir eigendur lögaðila skulu jafnframt sanna á sér deili í samræmi við framangreint.

Ef viðskiptavinur er ólögráða getur undirritun lögráðamanns verið nauðsynleg vegna tiltekinna viðskipta og samninga. Skal lögráðamaður þá framvísa gildum persónuskilríkjum við viðskiptin.

Bankanum ber auk framangreinds að kanna sérstaklega áreiðanleika viðskiptavina sinna við ákveðnar aðstæður þar sem sérstakrar varúðar er þörf. Í slíkum tilvikum áskilur bankinn sér rétt til að kalla eftir viðbótargögnum um viðskiptavin. Þá hefur bankinn áhættumiðað eftirlit með samningssambandi við viðskiptavin og kann að afla uppfærðra upplýsinga hvenær sem er meðan á samningssambandi stendur. Gruni bankann að fjármunir þeir sem ætlun viðskiptavinar stendur til að fari um kerfi bankans séu ágóði af ólögmætri háttsemi og/eða tengist fjármögnun hryðjuverka áskilur bankinn sér allan rétt til að stöðva umbeðin viðskipti án fyrirvara. Hafi bankinn rökstuddan grun eða réttmæta ástæðu til að ætla að viðskipti séu grunsamleg með tilliti til peningaþvættis og/eða fjármögnunar hryðjuverka er bankanum skylt að tilkynna viðskiptin til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og láta henni í té allar nauðsynlegar upplýsingar vegna tilkynningarinnar. Viðskiptavini ber skylda til að láta bankann vita verði einhverjar breytingar á þeim upplýsingum sem bankanum voru látnar í té við gerð áreiðanleikakönnunar.

2.4 Rammasamningur í skilningi laga um greiðsluþjónustu

Ákvæði skilmála þessara sem falla undir gildissvið laga um greiðsluþjónustu (þ.m.t. ákvæði um netbanka, greiðslureikninga og debetkort) teljast vera rammasamningur um greiðsluþjónustu milli viðskiptavinar og bankans í skilningi laga um greiðsluþjónustu. Greiðslureikningur er reikningur sem notaður er til að framkvæma greiðslu, sbr. lög um greiðsluþjónustu.

2.5 Gerð samninga

Viðskiptavinur gerir bindandi samninga við bankann og/eða staðfestir samþykki sitt með undirritun á pappír, með rafrænni undirskrift, með rafrænu samþykki t.d. í netbanka eða á vef bankans, með beiðni eða samþykki í síma, með netsamskiptaforriti eða með öðrum samskiptamiðli, allt eftir eðli skuldbindingarinnar hverju sinni í samræmi við kröfur bankans. Viðskiptavinur staðfestir jafnframt samninga, skilmála og/eða reglur bankans um tilteknar vörur eða þjónustu, eins og þeir/þær eru á hverjum tíma, með móttöku eða notkun á viðkomandi vörum eða þjónustu. Sé viðskiptavinur ófjárráða skuldbindur lögráðamaður hinn ófjárráða einstakling með undirritun sinni. Hafi viðskiptavinur veitt þriðja aðila umboð skuldbindur umboðshafi viðskiptavin með undirritun sinni.

2.6 Heimildir ófjárráða fyrir æsku sakir

Viðskiptavinur sem er ófjárráða fyrir æsku sakir getur stofnað til viðskipta við bankann með samþykki lögráðamanns. Viðskiptavini sem verður 13 ára á árinu er þó heimilt að stofna greiðslureikning til innlagnar sjálfsafla- og/eða gjafafjár, hafa umráð yfir reikningnum, fá útgefið debetkort á reikninginn og fá aðgang að netbanka, án samþykkis lögráðamanns. Lögráðamenn hafa almennt ekki heimild til úttekta á slíkum reikningum viðskiptavinar nema með samþykki hans. Úttektir lögráðamanna af reikningum ófjárráða eru háðar samþykki beggja lögráðamanna, séu þeir tveir, nema hvor lögráðamaður fyrir sig hafi veitt hinum umboð til að fara einn með allar þær heimildir sem fylgja reikningnum, þ.m.t. heimildir til úttekta af reikningi viðskiptavinar. Þegar viðskiptavinur nær 18 ára aldri verður hann fjárráða samkvæmt lögum og ræður einn yfir fjármunum sínum. Þá falla heimildir lögráðamanna jafnframt niður. Lögráðamanni og ófjárráða einstaklingi er hvorum um sig heimilt að fá upplýsingar um reikninga ófjárráða viðskiptavinar, þ.m.t. innstæðu og reikningsyfirlit. Nauðsynlegt er að tilkynna bankanum um allar breytingar á forsjá barns eða breytingar á skipan lögráðamanns. Um meðferð á fjármunum ófjárráða og heimildir ófjárráða viðskiptavina gilda, auk skilmála þessara, lögræðislög auk annarra reglna bankans sem kunna að kveða á um önnur skilyrði en koma fram í skilmálum þessum.

2.7 Umboð

Umboð viðskiptavinar til þriðja aðila til að koma fram fyrir sína hönd gagnvart bankanum skal vera skriflegt, dagsett og undirritað. Nema bankinn ákveði annað skal umboð jafnframt vera (a) vottað af tveimur vitundarvottum, af lögmanni eða fulltrúa hans, löggiltum fasteignasala eða af lögbókanda (notario publico) eða (b) undirritað með fullgildum rafrænum skilríkjum. Í umboðinu skal tilgreina til hvaða gerninga það nái. Viðskiptavinur getur veitt þriðja aðila umboð til að stofna reikning á nafni viðskiptavinar og/eða vinna með reikning sinn með nánar tilgreindum hætti. Umboðshafi þarf að sanna á sér deili með sama hætti og viðskiptavinur. Viðskiptavinur ber fulla ábyrgð á notkun umboðshafa á grundvelli umboðs. Umboð skal veitt á formi sem bankinn samþykkir. Uppfylli umboðið ekki kröfur bankans eða laga um form og/eða skýrleika er bankanum heimilt að hafna öllum viðskiptum á grundvelli þess. Allir fjármunir á reikningi sem stofnaður er að beiðni þriðja aðila teljast eign viðskiptavinar þegar þeir hafa verið færðir á reikninginn. Allar tilkynningar um reikninginn eru sendar á viðskiptavin. Mótmæli viðskiptavinur opnun reiknings er fjármununum skilað til þess sem bað um stofnun reikningsins eða lagði fjármunina inn á reikninginn. Viðskiptavinur ber ábyrgð á að tilkynna bankanum um allar breytingar á umboði. Allar breytingar skulu vera skriflegar og vottaðar með sama hætti og umboð og taka þær gildi þegar þær berast bankanum. Sé umboð ekki tímabundið fellur það niður gagnvart bankanum við afturköllun viðskiptavinar á umboði. Afturköllun umboðs þarf almennt að vera skrifleg og tekur gildi við móttöku af hálfu bankans. Aðeins viðskiptavinur getur afturkallað umboð, nema lög kveði á um annað. Eldri umboð halda gildi sínu þrátt fyrir skráningu nýrra umboða nema þau séu felld niður sérstaklega. Þrátt fyrir að viðskiptavinur hafi afturkallað umboð ber viðskiptavinur ábyrgð á þeim greiðslum sem umboðshafi framkvæmir þar til viðskiptavinur hefur tilkynnt bankanum um afturköllun með sannanlegum hætti sem bankinn hefur móttekið. Sama á við um önnur viðskipti sem umboðshafi framkvæmir í nafni viðskiptavinar. Hafi umboðsmaður fengið í hendurnar greiðslumiðil til að draga á greiðslureikning (t.d. debetkort) skal viðskiptavinur sjá til þess að greiðslumiðlinum sé skilað til næsta útibús eða honum eytt þegar umboð er afturkallað. Reikningur í eigu dánarbús/þrotabús verður eingöngu notaður af aðila sem hefur sannanlega heimild frá viðeigandi opinberum aðilum um að hann megi fara með fjármuni búsins. Að öðru leyti gilda lög og reglur um veitingu umboðs, breytingu og afturköllun þess.

2.8 Lánsviðskipti og ábyrgðaskuldbindingar

Við upphaf lánsviðskipta kann bankinn að fara fram á að viðskiptavinur leggi fram tryggingar fyrir skilvísum og skaðlausum greiðslum eða að þriðji aðili gangist í ábyrgð fyrir lántaka eða veiti lánsveð. Um lánsviðskipti gilda, auk skilmála þessara, lög, reglugerðir, reglur, skilmálar viðkomandi vöru eða þjónustu, skilmálar viðeigandi skuldaskjala og/eða ábyrgðarskuldbindinga og reglur bankans eftir því sem við á. Bankinn áskilur sér rétt til að synja viðskiptavini um fyrirgreiðslu.

2.9 Upplýsingagjöf

Bankinn getur sent viðskiptavini skilaboð, upplýsingar og tilkynningar vegna viðskipta við bankann í netbanka eða í appi eða með öðrum hætti sem bankinn ákveður. Þá getur bankinn notast við bréfapóst í sérstökum tilfellum. Viðskiptavinur getur jafnframt óskað eftir því að fá tilkynningar sendar í bréfapósti gegn gjaldi þegar við á. Gjald fyrir slíka þjónustu er birt í verðskrá bankans. Bankinn sendir viðskiptavini sjálfvirkar tilkynningar (e. push notification) með rafrænum hætti úr netbanka. Viðskiptavinur getur breytt stillingum sjálfvirkra tilkynninga í snjalltæki og í vafra í tölvu. Skipti viðskiptavinur um samskiptaupplýsingar, t.d. símanúmer eða netfang, ber honum að uppfæra upplýsingar þar um í stillingum í netbanka, hjá þjónustuveri eða í útibúum.

2.10 Vextir

Vextir inn- og útlána eru breytilegir nema annað sé tiltekið eða umsamið. Innláns- og útlánsvextir ákvarðast og breytast án nokkurs fyrirvara í samræmi við vaxtaákvörðun bankans á hverjum tíma. Ef samið hefur verið um fasta vexti eða önnur sérstök vaxtakjör við bankann fara breytingar á vöxtum eftir þeim samningsskilmálum sem fram koma í samningum milli bankans og viðskiptavinar. Hægt er að fá upplýsingar um inn- og útlánsvexti á vef bankans, hjá þjónustuveri og í útibúum. Í hverjum mánuði eru 30 vaxtadagar og 360 vaxtadagar í árinu nema um annað sé sérstaklega samið. Vextir birtast á ársyfirliti sem birt er í netbanka eða með öðrum rafrænum hætti í ársbyrjun. Skuldavextir og verðbætur eru skuldfærð mánaðarlega hafi ekki verið um annað samið. Vextir af útlánum eru mismunandi eftir útlánaformum. Útborgunardagur láns er fyrsti vaxtadagur nema um annað hafi verið samið.

Bankadagur er virkur dagur þegar bankar eru opnir á Íslandi. Ef gjalddagi, sem jafnframt er eindagi, lendir á almennum frídegi eða helgidegi færist hann á þann bankadag sem næstur kemur á eftir gjalddaganum. Ef gjalddagi og eindagi krafna sem bankinn annast innheimtu á fyrir þriðja aðila er ekki sami dagur færist eindagi ekki þótt hann lendi á almennum frídegi eða helgidegi.

Í skilmálum þessum er í kafla um greiðslureikninga kveðið á um sérreglur um vexti greiðslureikninga.

2.11 Erlend viðskipti

Landsbankinn ber enga ábyrgð á mögulegum mistökum eða vanrækslu sem leiða kann af vali viðskiptavinar á erlendum viðskiptaaðila og áreiðanleika hans. Hið sama gegnir um mistök eða vanrækslu erlendra fjármálafyrirtækja. Viðskiptavini bankans er bent á að kynna sér skilmála viðkomandi erlends fjármálafyrirtækis, gildandi löggjöf þess ríkis og framkvæmd viðskipta þar í landi. Gengistafla Landsbankans gildir í öllum viðskiptum með erlenda gjaldmiðla nema um annað sé sérstaklega samið. Eðli viðskipta ræður því hvaða gengi er notað og hvort notað er stundargengi, lokagengi eða sérgengi sem ákveðið er af bankanum. Í þeim viðskiptum sem myndast getur gengismunur ber viðskiptavinur alla áhættu þar af nema sérstaklega hafi verið samið um annað.

Í skilmálum þessum er í kafla um greiðslureikninga kveðið á um sérreglur um greiðslureikninga og greiðslur í erlendum gjaldmiðli.

2.12 Verðskrá

Viðskiptavinur greiðir gjöld fyrir vörur og þjónustu bankans og útlagðan kostnað í tengslum við veitta þjónustu í samræmi við verðskrá bankans eins og hún er á hverjum tíma. Kveði aðrir skilmálar eða samningar bankans við viðskiptavini á um gjaldtöku skulu þeir skilmálar gilda framar verðskrá bankans. Bankanum er heimilt að skuldfæra gjöld og kostnað á greiðslureikning viðskiptavinar hjá bankanum og skulu skuldfærslur koma fram á reikningsyfirliti viðskiptavinar. Landsbankinn getur breytt verðskrá sinni án nokkurs fyrirvara. Verðskrá bankans er birt á vef bankans. Viðskiptavinur getur einnig fengið upplýsingar um verðskrá í útibúum eða þjónustuveri.

3 Netbanki

3.1 Almennt um netbanka

Netbanki er svæði á netinu þar sem viðskiptavinur Landsbankans skráir sig inn með auðkenningu, sem bankinn viðurkennir, til þess að sinna bankaviðskiptum. Netbanki er aðgengilegur á vef bankans, á vef farsímabanka einstaklinga, www.l.is, og á vef farsímabanka fyrirtækja, f.l.is og í appi. Til þess að viðskiptavinur geti nýtt sér þjónustu netbanka þarf búnaður viðskiptavinar að vera tengdur við internetið. Bankinn áskilur sér rétt til að ákveða einhliða þá þjónustu sem er í boði í netbanka, sem og að breyta þjónustunni. Þjónusta netbanka kann að vera ólík eftir því hvort viðskiptavinur skráir sig í netbanka á vef bankans, í farsímabanka eða í appi. Bankinn er eigandi hugbúnaðar sem netbanki byggist á. Viðskiptavinur hefur leyfi til aðgangs og notkunar hans. Viðskiptavini er algerlega óheimilt að gera eða láta gera breytingar á hugbúnaði þeim sem tengist netbanka. Viðskiptavinur notar auðkenningu til að sanna á sér deili í netbanka. Viðskiptavinur auðkennir sig við innskráningu í netbanka með persónubundnum öryggisþáttum, t.d. rafrænum skilríkjum eða notendanafni og lykilorði, í samræmi við öryggiskröfur bankans á hverjum tíma. Bankinn áskilur sér rétt til að breyta öryggiskröfum sínum án fyrirvara. Eftir að viðskiptavinur hefur skráð sig inn í netbanka með auðkenningu ber viðskiptavinur ábyrgð á og er bundinn af öllum aðgerðum sem framkvæmdar eru í netbankanum. Sama gildir komist utanaðkomandi aðilar yfir upplýsingar um aðgang að netbanka eða fái aðgang að honum með öðrum hætti. Viðskiptavini ber að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja persónubundna öryggisþætti sem hann notar til auðkenningar. Viðskiptavini er óheimilt að láta persónubundna öryggisþætti sína öðrum í té og ber ávallt að gæta þess að enginn sjái þegar hann notar persónubundna öryggisþætti sína. Viðskiptavinur skal halda persónubundnum öryggisþáttum sínum og öllum upplýsingum er varða auðkenningu sína í netbanka leyndum og ber viðskiptavinur ábyrgð á því að slíkar öryggisupplýsingar berist ekki í hendur þriðja aðila eða séu aðgengilegar öðrum. Varðveiti viðskiptavinur ekki persónubundna öryggisþætti sína með öruggum hætti eða í samræmi við framangreint telst það vera stórfellt gáleysi af hans hálfu. Verði viðskiptavinur þess áskynja að óviðkomandi aðili hafi fengið vitneskju um persónubundna öryggisþætti hans skal viðskiptavinur tafarlaust tilkynna slíkt til bankans, sem og að breyta persónubundnu öryggisþáttunum. Til að tryggja öryggi skal viðskiptavinur virkja læsingar á tækjum sem hann notar til innskráningar í netbanka. Bankinn ber ekki ábyrgð á notkun viðskiptavinar á netbanka í appi, á vefsvæði bankans eða í farsímabanka. Bankinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem notkun netbanka eða notkun tenginga við netbanka kann að valda. Þá ber bankinn ekki ábyrgð á tjóni, beinu eða óbeinu, sem orsakast kann af fyrirvararlausri lokun netbanka, tenginga eða viðbóta við netbanka, t.d. vegna nauðsynlegra viðhaldsaðgerða, bilana í hug- eða vélbúnaði, uppfærslu skráa, breytinga á kerfi, eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum. Láni viðskiptavinur, selji eða heimili öðrum umráð yfir tæki sem appið hefur verið sótt í skuldbindur hann sig til að skrá sig út úr appinu. Hafi verið átt við tækið með þeim hætti að öryggi þess hafi á einhvern hátt verið ógnað, t.d. með uppsetningu óöruggra forrita, er notkun appsins á tækinu ekki örugg og því óheimil með öllu.

Viðskiptavinur skal án óþarfa tafar tilkynna bankanum um það verði hann var við misnotkun eða óheimila notkun á netbanka. Viðskiptavinur skal ekki bera tjón sem hlýst af notkun netbanka ef bankinn hefur ekki gert viðeigandi ráðstafanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu, vegna tilkynningarskyldu um greiðslumiðil sem hefur týnst, verið stolið eða notaður með óréttmætum hætti. Bankanum er heimilt, fyrirvaralaust og án tilkynningar, að loka aðgangi viðskiptavinar að netbanka eða takmarka notkun viðskiptavinar í netbanka, í heild eða að hluta, tímabundið eða varanlega, í eftirfarandi tilfellum: (a) ef grunur leikur á um óheimila eða sviksamlega notkun netbanka eða brot á reglum eða skilmálum bankans, (b) vegna uppfærslu skráa, kerfisbreytinga eða annarra tæknilegra ástæðna eða öryggisástæðna eða (c) ef bú viðskiptavinar er tekið til gjaldþrotaskipta, ef viðskiptavinur leitar nauðasamninga, greiðslustöðvunar, eða ef fyrir hendi eru aðrar sambærilegar ástæður. Viðskiptavini er gert viðvart eins fljótt og kostur er. Séu ástæður fyrir lokuninni ekki lengur fyrir hendi skal bankinn opna fyrir notkunina. Bankanum er heimilt að loka fyrir aðgang viðskiptavinar að netbanka ef aðgangur hans hefur verið óvirkur samfellt í 6 mánuði eða lengri tíma. Upplýsingar um viðskipti, þ.m.t. stöðu viðskiptafyrirmæla, kunna að verða óaðgengilegar tímabundið í netbanka vegna álags á viðkomandi tölvu- og/eða viðskiptakerfi. Ákveðin þjónusta eða aðgerðir í netbanka sækja staðsetningu tækis út frá GPS hnitum, netkerfum eða dreifikerfi símafyrirtækja, t.d. upplýsingar um afgreiðslustaði. Hægt er að stýra aðgengi að slíkum þjónustum í tækinu sjálfu. Bankinn sækir ekki upplýsingar um staðsetningar úr tækinu nema með heimild viðskiptavinar. Bankinn ber ekki ábyrgð á þeim kröfum sem birtast í kröfulista yfir ógreidda reikninga og bankinn er ekki kröfuhafi að. Hafi viðskiptavinur athugasemdir við slíkar kröfur skal viðskiptavinur hafa samband við skráðan kröfuhafa.

3.2 Sérákvæði um netbanka fyrirtækja

Umsókn um netbanka fyrirtækja, sem Landsbankinn hefur samþykkt, og skilmálar þessir fela í sér samning um netbanka fyrirtækja. Notandi í skilningi sérákvæða þessara um netbanka fyrirtækja telst vera hver sá sem fyrirtæki hefur tilnefnt sem notanda í netbanka fyrirtækja. Sá sem fer með ákvörðunarvald fyrir hönd fyrirtækis ber að tilkynna bankanum hvaða notendur eigi að hafa aðgang að netbanka og hversu víðtækur sá aðgangur á að vera. Notanda ber að koma í útibú bankans þar sem honum eru afhentar aðgangsupplýsingar, ef hann hefur ekki fengið upplýsingarnar sendar í netbankann sinn. Einnig ber honum að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að hann hafi kynnt sér skilmála þessa og geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem á fyrirtæki hvílir á grundvelli þeirra. Eftir að notandi hefur skráð sig inn í netbanka með auðkenningu ber fyrirtæki ábyrgð á og er bundið af öllum aðgerðum sem framkvæmdar eru í netbankanum. Fyrirtæki getur tilnefnt notanda sem aðgangsstjóra en hann hefur fullan og ótakmarkaðan aðgang að netbanka fyrirtækis. Í því felst ákvörðunarvald um það hvaða aðrir notendur fari með aðgangsheimildir í netbanka fyrirtækis á hverjum tíma og hversu víðtækan aðgang hverjum og einum er falinn. Tilnefni fyrirtæki ekki aðgangsstjóra skal framkvæmdastjóri eða prókúruhafi fyrirtækis samkvæmt hlutafélagaskrá hafa ákvörðunarvald aðgangsstjóra. Aðgangsstjóri og notendur mega ekki vera á vanskilaskrá með árangurslaust fjárnám eða gjaldþrota. Aðgangsstjóri og notendur sem hafa víðtækari heimildir en til skoðunar og skráningar í bunka skulu jafnframt vera lögráða og fjár síns ráðandi. Fyrirtæki ber ábyrgð á að allir notendur uppfylli þessi skilyrði. Fyrirtæki ber ábyrgð á að tilkynna bankanum án tafar, skriflega eða með öðrum sannanlegum hætti, ef loka á fyrir aðgang notanda að netbankanum.

3.2.1 Samskiptagátt utan netbanka fyrirtækja

Fyrirtæki getur sótt um aðgang að samskiptagátt milli fyrirtækisins og bankans. Samskiptagátt er sérstök viðbót við netbanka fyrirtækja til gagnaflutnings milli bankans og bókhaldskerfis fyrirtækis. Þegar bankinn hefur samþykkt umsókn um aðgang að samskiptagátt skuldbindur fyrirtæki sig til að gæta fyllsta öryggis varðandi þá notendur sem það heimilar notkun samskiptagáttar. Jafnframt gerir fyrirtæki sér fulla grein fyrir að aðgangsstýring er alfarið á ábyrgð þess. Þjónustuaðili utan eða innan fyrirtækis annast alla uppsetningu samskiptagáttar. Uppsetningin er án ábyrgðar bankans. Fyrirtæki ber ábyrgð á öllum aðgerðum sem notendur þess framkvæma með samskiptagátt. Jafnframt ber fyrirtæki ábyrgð á því að gera þær ráðstafanir sem það telur nauðsynlegar til að tryggja öryggi bankaupplýsinga sinna og allra persónuupplýsinga, sem og rekjanleika færslna sem framkvæmdar eru með samskiptagátt. Fyrirtæki ber ábyrgð á öllu tjóni sem bankinn eða þriðji aðili kann að verða fyrir vegna notkunar þess og notenda þess á samskiptagátt. Sama gildir komist utanaðkomandi aðilar í upplýsingar um aðgang að kerfinu eða fái aðgang að því með öðrum hætti. Bankinn ber enga ábyrgð á tjóni sem stafar af því að búnaður, sem fyrirtæki, þjónustuaðili eða samstarfsaðili bankans leggur eða ber að leggja til, virkar ekki sem skyldi. Bankinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem fyrirtæki eða þriðji aðili kann að verða fyrir vegna misnotkunar notenda þess á heimildum sínum til aðgerða með aðstoð samskiptagáttar. Fyrirtæki sem nýtir sér samskiptagátt veitir bankanum heimild til að sækja upplýsingar um kröfur á hendur því frá Reiknistofu bankanna til notkunar fyrir aðra aðila sem nýta sér samskiptagáttina. Bankinn ber ekki ábyrgð á því að upplýsingar í samskiptagátt séu réttar, áreiðanlegar eða nýjar. Aðgangur að samskiptagátt er uppsegjanlegur af beggja hálfu með eins mánaða fyrirvara. Samningar bankans við fyrirtæki um B2B tengingu, sem eru í gildi við gildistöku skilmála þessara, halda gildi sínu. Eftir gildistöku skilmála þessara verður aðgangur sem bankinn veitir fyrirtæki að samskiptagátt ekki háður því að gerður sé sérstakur skriflegur samningur milli bankans og fyrirtækis um slíkan aðgang.

4 Greiðslureikningar

4.1 Um greiðslureikninga

Greiðslureikningur er reikningur sem notaður er til að framkvæma greiðslu, sbr. lög um greiðsluþjónustu (hér eftir „reikningur“ nema annað sé tekið fram). Um einstaka reikninga geta, auk skilmála þessara, gilt skilmálar eða reglur bankans. Upplýsingar um skilmála reikninga eru aðgengilegar á vef bankans. Viðskiptavinur sækir um að stofna reikning á vef eða í útibúi bankans. Bankanum er heimilt að hafna umsókn um stofnun reiknings, m.a. ef upplýsingar um viðskiptavin eru ófullnægjandi, og mun bankinn tilkynna um höfnunina eins fljótt og auðið er. Óheimilt er að stofna reikning fyrir hönd annars fjárráða aðila nema viðskiptavinur veiti umboð til þess, enda mæli lög ekki fyrir um annað. Við stofnun reiknings ber viðskiptavini að sanna á sér deili með fullgildum persónuskilríkjum, þ.e. vegabréfi, nafnskírteini, ökuskírteini eða fullgildum rafrænum skilríkjum, með auðkenningu við innskráningu í netbanka eða annarri auðkenningu í samræmi við öryggiskröfur bankans á hverjum tíma. Bankinn áskilur sér rétt til að breyta öryggiskröfum sínum án fyrirvara. Ef stofnaður er reikningur fyrir hönd lögaðila þurfa allir stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og prókúruhafar lögaðilans að sanna á sér deili með fullgildum persónuskilríkjum. Viðskiptavini ber að veita upplýsingar um fyrirhuguð viðskipti sín við stofnun reiknings í samræmi við kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem og upplýsingar um raunverulegan eiganda fjármuna.

Reikningur telst stofnaður í íslenskum krónum nema um annað hafi verið samið. Skilmálar þessir gilda óháð því hvort reikningur er í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli, að teknu tilliti til sérákvæða í skilmálum þessum um reikninga og greiðslur í erlendum gjaldmiðli.

Innstæður á reikningum eru háðar sérstökum reglum og/eða skilyrðum sem gilda um hverja tegund reiknings fyrir sig. Reikningar geta verið verðtryggðir miðað við vísitölu neysluverðs eða óverðtryggðir. Sé innstæða á reikningi bundin er óheimilt að færa hana af reikningnum nema skilmálar kveði á um annað. Kveði lög, reglugerðir, reglur eða skilyrði reikninga ekki á um sérstakan binditíma er reikningur óbundinn. Um verðtryggða reikninga gilda reglur Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár á hverjum tíma. Um binditíma orlofsreikninga gilda ákvæði laga um orlof.

4.2 Leyninúmer og aðgengi að reikningi

Viðskiptavinur velur sér leyninúmer á reikning sem hann notar til staðfestingar á greiðslu í samskiptum við bankann, t.d. í netbankanum, í þjónustusíma bankanna og hjá þjónustuveri bankans. Við val á leyninúmeri skal viðskiptavinur gæta þess að leyninúmerið sé ekki þess eðlis að auðvelt reynist að rekja það til viðkomandi viðskiptavinar. Viðskiptavinur skuldbindur sig til að upplýsa ekki óviðkomandi aðila um leyninúmerið. Með óviðkomandi aðila er átt við aðila sem ekki hefur heimild til að framkvæma greiðslur af reikningi viðskiptavinar í samræmi við skilmála þessa. Ef viðskiptavinur hefur ástæðu til að ætla að óviðkomandi aðili hafi fengið vitneskju um leyninúmerið skuldbindur viðskiptavinur sig til að tilkynna bankanum um það án tafar og breyta leyninúmerinu strax og hann verður þess var. Viðskiptavinur ber ábyrgð á öllum greiðslum og aðgerðum sem framkvæmdar eru með notkun leyninúmers.

4.3 Greiðsluþjónusta og framkvæmd greiðslna

Reikningur getur verið notaður með þeim greiðslumiðli sem bankinn útvegar. Með greiðslumiðli er í skilmálum þessum átt við hvers kyns persónubundinn búnað og/eða verklag sem bankinn og viðskiptavinur koma sér saman um og viðskiptavinurinn notar til að gefa greiðslufyrirmæli, t.d. debetkort eða rafrænar/stafrænar greiðslulausnir. Notkun greiðslumiðils fer jafnframt eftir skilmálum viðkomandi greiðslumiðils.

Þegar viðskiptavinur gefur fyrirmæli um greiðslu af reikningi skal hann sanna á sér deili með fullnægjandi hætti, t.d. með leyninúmeri reiknings, með framvísun persónuskilríkja eða með öðrum hætti til samræmis við kröfur bankans. Framangreint á við hvort sem aðgerðin er framkvæmd með greiðslumiðli eða ekki. Fyrirmæli um framkvæmd greiðslna af reikningum má gefa munnlega í útibúum bankans, auðkenningu í gegnum síma, í gegnum netbanka eða með greiðslumiðli. Berist bankanum greiðslufyrirmæli skriflega skal viðskiptavinur staðfesta þau símleiðis eða með rafrænni auðkenningu óski bankinn þess.

Greiðslufyrirmæli sem berast fyrir lokun útibús á bankadegi teljast móttekin á þeim bankadegi. Greiðslufyrirmæli sem berast eftir þann tíma teljast móttekin næsta bankadag þar á eftir. Greiðslufyrirmæli í netbanka fyrirtækja sem berast fyrir miðnætti teljast móttekin á þeim bankadegi en kunna að vera framkvæmd næsta virka dag þar á eftir. Bankinn telst ekki hafa móttekið greiðslufyrirmæli fyrr en hann hefur móttekið allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að framkvæma greiðsluna.

Miðað er við að greiðsla innanlands í íslenskum krónum og evrum taki að hámarki einn bankadag frá móttöku greiðslufyrirmæla. Berist greiðslufyrirmæli bréfleiðis kann framkvæmdin að taka tvo bankadaga frá móttöku. Miðað er við að greiðsla í erlendum gjaldmiðli geti tekið fimm bankadaga frá móttöku greiðslufyrirmæla þar til móttökubanki leggur greiðslu inn á reikning viðtakanda. Greiðslur sem framkvæmdar eru í netbanka fyrir kl. 21:00 hvern virkan dag verða framkvæmdar sama dag og þær berast. Greiðslur sem framkvæmdar eru eftir þann tíma verða framkvæmdar næsta virka dag. Greiðslur sem framkvæmdar eru á tímabilinu kl. 16:15 – 09:00 eru einnig háðar reglum Seðlabanka Íslands um stórgreiðslumörk.

Bankinn getur synjað um framkvæmd greiðslufyrirmæla eða stöðvað framkvæmd tiltekinna greiðslna, hvort sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu á frumkvæði að þeim, séu skilyrði laga, skilmála þessara, skilyrði skilmála eða reglna bankans ekki uppfyllt, t.d. ef ekki er næg innstæða á reikningi, ef lokað hefur verið fyrir útborganir af öðrum ástæðum, af öryggisástæðum eða ef hætta er talin á misferli eða svikum, vegna verulegrar aukinnar hættu á því að greiðandi kunni að vera ófær um að uppfylla greiðsluskyldu sína eða ef vafi er uppi um heimild greiðanda til að nýta reikninginn. Synji bankinn um framkvæmd greiðslufyrirmæla verður viðskiptavini tilkynnt um það. Megi rekja synjun um framkvæmd greiðslufyrirmæla til viðskiptavinar er bankanum heimilt að taka gjald fyrir skriflegar tilkynningar. Hafni bankinn greiðslufyrirmælum jafngildir það því að greiðslufyrirmæli hafi ekki verið móttekin. Bankanum er þrátt fyrir framangreint heimilt að fresta framkvæmd greiðslufyrirmæla þar til næg innstæða er á reikningi viðskiptavinar að meðtöldum kostnaði og öðrum gjöldum. Í því sambandi er bankanum heimilt að láta reyna á skuldfærslu á reikning viðskiptavinar fyrir greiðslunni eftir móttöku greiðslufyrirmælanna þar til þau eru framkvæmd. Berist bankanum fleiri en ein greiðslufyrirmæli á sama degi ber bankinn ekki ábyrgð á því í hvaða röð þau eru framkvæmd eða hvaða greiðslufyrirmæli eru ekki framkvæmd vegna ónógrar innstæðu.

Fyrirfram móttekin greiðslufyrirmæli verða framkvæmd þrátt fyrir að síðari atburðir geri það að verkum að sá sem gaf fyrirmælin hefði sjálfur ekki getað gefið þau, t.d. vegna afturköllunar á prókúru eða vegna andláts viðskiptavinar. Viðskiptavinur getur einungis afturkallað eða stöðvað greiðslufyrirmæli ef skilyrði laga um greiðsluþjónustu þar að lútandi eru uppfyllt. Fyrirfram móttekin greiðslufyrirmæli verða þó ekki framkvæmd eftir að reikningi hefur verið lokað. Bankinn ber ábyrgð á framkvæmd greiðslufyrirmæla í samræmi við lög þar til banki viðtakanda greiðslunnar hefur tekið við greiðslunni. Eftir það tímamark verður banki viðtakanda greiðslunnar ábyrgur gagnvart viðtakandanum um rétta framkvæmd greiðslunnar. Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að greiðslufyrirmæli hans séu rétt. Bankinn er ekki ábyrgur fyrir mistökum viðskiptavinar, t.d. þegar slegið er inn rangt kennimerki fyrir viðtakanda greiðslu. Slík mistök verða ekki leiðrétt einhliða af hálfu bankans án samþykkis viðtakanda greiðslunnar. Sýni viðskiptavinur fram á með gögnum að fjárhæð greiðslu, sem heimiluð var af viðskiptavini og viðtakandi greiðslu átti frumkvæði að, hafi ekki verið nákvæmlega tilgreind í heimildinni þegar hún var veitt og að greiðsla af reikningi hans sé hærri en hann mátti með sanngjörnum hætti gera ráð fyrir miðað við útgjaldamynstur hans, skilmála þessa og málsatvik að öðru leyti, skal hann tilkynna það til bankans innan átta vikna frá því að fjármunirnir voru skuldfærðir af reikningi hans. Að uppfylltum þeim skilyrðum ber bankanum að endurgreiða viðskiptavini greiðsluna innan tíu bankadaga frá móttöku tilkynningar frá viðskiptavini. Að öðrum kosti synjar bankinn um endurgreiðslu. Framangreint á ekki við þegar viðskiptavinur, sem ekki er neytandi í skilningi laga um greiðsluþjónustu, með síðari breytingum, gefur þriðja aðila munnlegt samþykki fyrir úttekt af reikningi sínum.

Viðskiptavinur á ekki rétt á endurgreiðslu þegar hann hefur veitt bankanum samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslu og, ef við á, bankinn eða viðtakandi greiðslu veitti upplýsingar um greiðslur í framtíðinni eða kom þeim á framfæri við greiðanda á umsaminn hátt að minnsta kosti fjórum vikum fyrir gjalddaga. Hafi greiðslufyrirmæli verið afturkölluð ber bankinn hvorki ábyrgð á greiðslu vaxta né annarra gjalda vegna gjaldfallinna greiðslna.

Um greiðsluþjónustu gilda takmarkanir sem kunna að felast í ákvæðum laga um gjaldeyrismál á hverjum tíma og reglum settum samkvæmt þeim lögum. Ef samið hefur verið um reglubundnar greiðslur skal hlutfallslega tekið tillit til gildistíma uppsagnar við innheimtu greiðslna eftir uppsögn samnings. Bankanum er heimilt að taka gjald fyrir greiðslur af greiðslureikningum. Einnig er bankanum heimilt að taka gjald vegna aðstoðar við að endurheimta fé sem greitt hefur verið fyrir mistök, t.d. vegna þess að greiðslufyrirmælum fylgdu rangar upplýsingar um móttakanda greiðslu. Um gjaldtöku fer eftir verðskrá bankans á hverjum tíma.

4.4 Upplýsingar um reikning og notkun hans

Skilaboð, upplýsingar og tilkynningar vegna reiknings, t.d. breytingar á skilmálum, vöxtum og kostnaði, eru birt viðskiptavini á vef bankans eða í netbanka eða í appi eða með öðrum hætti sem bankinn ákveður. Þá getur bankinn notast við bréfapóst í sérstökum tilfellum. Viðskiptavinur getur jafnframt óskað eftir því að fá tilkynningar sendar í pósti gegn gjaldi. Gjald fyrir slíka þjónustu er birt í verðskrá.

4.5 Reikningar og greiðslur í erlendum gjaldmiðli og viðmiðunargengi

Greiðslur á milli reikninga í mismunandi gjaldmiðlum fela í sér gjaldeyrisviðskipti. Bankinn notar viðmiðunargengi, almennt gengi, til grundvallar útreikningi við gjaldeyrisviðskipti. Bankinn birtir upplýsingar um almennt gengi á vef bankans. Bankinn notar viðmiðunargengi, seðlagengi, til grundvallar útreikningi við kaup og sölu á seðlum í útibúi og hraðbanka. Þá getur bankinn notað sérgengi sem viðmiðunargengi til grundvallar útreikningi við tiltekin viðskipti. Sérgengi er birt í tengslum við viðkomandi viðskipti. Breytingar á gengi byggjast á kaup- og sölutilboðum á millibankamarkaði með gjaldeyri eða á gengi erlendra gjaldmiðla auk álags. Bankinn notar jafnframt viðmiðunargengi til útreiknings við uppgjör á erlendum færslum greiðslukorta yfir í íslenskar krónur og birtir bankinn upplýsingar um það gengi á vef bankans. Gengi til útreiknings á erlendum færslum greiðslukorta og færslum í annarri mynt en grunnmynt greiðslukorts tekur breytingum sem byggjast á breytingum á gengisskráningu hjá viðkomandi kortafyrirtæki auk álags eða eftir atvikum affalla.. Breytingar á gengi sem byggjast á breytingum á viðmiðunargengi samkvæmt skilmálum þessum taka gildi þegar í stað og án viðvörunar. Viðskiptavinur nýtur gengishagnaðar eða tekur á sig gengistap vegna þróunar gengis viðkomandi gjaldmiðla.

Um reikninga og greiðslur í erlendum gjaldmiðli gilda lög um gjaldeyrismál og reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál. Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að öll gögn og allar upplýsingar, á hvaða formi sem er, sem hann veitir bankanum í tengslum við gjaldeyrisviðskipti eða fjármagnshreyfingar á milli landa séu rétt og ófölsuð og ber hann ábyrgð á áreiðanleika þeirra.

4.6 Vextir og vaxtaútreikningur greiðslureikninga

Vextir reikninga eru breytilegir nema samið sé um annað og fara eftir vaxtatöflu bankans fyrir viðkomandi reikningstegund. Vaxtataflan er aðgengileg á vef bankans. Breytingar á vaxtatöflu eru tilkynntar með birtingu á vef bankans eða í netbanka eða í appi eða með öðrum hætti sem bankinn ákveður. Vaxtaákvarðanir taka m.a. mið af breytingum á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og breytingum á öðrum viðmiðunarvöxtum, t.d. LIBOR. Vaxtaákvarðanir taka einnig mið af öðrum fjármögnunarkjörum bankans, opinberum álögum, rekstrarkostnaði, vísitölu neysluverðs til verðtryggingar o.fl. Vaxtaákvarðanir taka mið af breytingum á einum eða fleiri þáttum sem að framan eru taldir. Vaxtabreytingar sem byggja á breytingum á  stýrivöxtum Seðlabanka Íslands eða öðrum viðmiðunarvöxtum, t.d. LIBOR, taka gildi þegar í stað og án viðvörunar við breytingu á vaxtatöflu bankans. Sama á við um vaxtabreytingar sem bankinn metur að séu viðskiptavini í hag. Aðrar vaxtabreytingar á reikningum taka gildi tveimur mánuðum eftir að þær eru tilkynntar. Þegar samið hefur verið sérstaklega um innlánsvexti fara breytingar á vöxtum eftir viðkomandi samningi viðskiptavinar og bankans. Þrátt fyrir framangreint taka allar vaxtabreytingar á reikningum annarra viðskiptavina en neytenda í skilningi laga um greiðsluþjónustu, með síðari breytingum, gildi án fyrirvara við breytingu á vaxtatöflu.

Innborganir bera innlánsvexti frá innborgunardegi og fram að útborgunardegi nema um annað hafi verið samið. Síðasti reikningsdagur innlánsvaxta er dagurinn fyrir úttekt. Vextir leggjast almennt við höfuðstól um áramót og við eyðileggingu reiknings. Sé reikningur bundinn kunna vextir, sem lagðir eru við höfuðstól um áramót, að bindast með sama hætti og aðrar innborganir. Verðbætur leggjast við höfuðstól í lok hvers mánaðar nema um sé að ræða sérstaka sparireikninga og orlofsreikninga. Almennt eru vextir reiknaðir 360 daga á ári (vaxtaár). Vaxtatímabil hvers mánaðar eru 30 dagar. Upphaf hvers tímabils fer eftir tegund og skilmálum reiknings á hverjum tíma. Þegar reikningur er verðtryggður reiknast verðbætur um hver mánaðamót samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og leggjast almennt við höfuðstól í lok hvers mánaðar. Sérstakar verðbætur eru breytilegar og fara samkvæmt auglýstri vaxtatöflu hverju sinni í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Sérstakar verðbætur eru reiknaðar innan mánaðar á allar inn- og útborganir. Sérstakar verðbætur eru reiknaðar þannig að fyrir hvern dag frá því að fjárhæð er lögð inn eða greidd út eru verðbætur reiknaðar sem 1/30 hluti af breytingum verðbóta á milli mánaða fyrir hvern dag fram að næstu mánaðamótum sem munar til hækkunar eða lækkunar á innlagðri eða úttekinni fjárhæð. Fjármagnstekjuskattur reiknast af innborguðum vöxtum, verðbótum og gengishagnaði í samræmi við ákvæði laga og er skuldfærður af viðkomandi reikningi.

4.7 Útvextir, innstæðulausar úttektir, ósamþykktur yfirdráttur og rangar eða óheimilar greiðslur

Viðskiptavinur skuldbindur sig til að fylgjast með stöðu reiknings og er óheimilt að draga á reikninginn fjárhæð sem er umfram innstæðu eða heimilan yfirdrátt. Viðskiptavinur skuldbindur sig til að greiða vexti og kostnað af yfirdráttarheimild samkvæmt vaxtatöflu og verðskrá bankans á hverjum tíma nema um annað hafi verið samið. Vextir reiknast af notaðri yfirdráttarheimild við lok hvers dags og eru reiknaðir frá upphafi hvers mánaðar til loka hans. Skuldavextir eru skuldfærðir mánaðarlega hafi ekki verið um annað samið. Hið sama á við um annan kostnað af yfirdráttarheimild. Dragi viðskiptavinur á reikning umfram innstæðu eða samþykkta yfirdráttarheimild (t.d með innstæðulausri debetkortafærslu) eða yfirdráttarheimild fellur niður skal viðskiptavinur greiða gjald fyrir innstæðulausar úttektir samkvæmt verðskrá bankans hverju sinni. Gjald samkvæmt ofangreindu reiknast af hverri innstæðulausri úttekt. Ósamþykktur yfirdráttur er gjaldkræfur samdægurs og ber dráttarvexti frá færsludegi (þ.e. þeim degi sem greiðsla er færð til bókar í kerfum bankans) og til greiðsludags. Greiði viðskiptavinur inn á reikninginn eftir að hafa dregið á reikninginn umfram innstæðu eða yfirdráttarheimild áskilur bankinn sér rétt til að ráðstafa greiðslunni fyrst til greiðslu á dráttarvöxtum, því næst til greiðslu á kostnaði vegna óheimils yfirdráttar, þ.m.t. innheimtugjalda og lögmannsþóknunar, og að lokum til greiðslu á skuld samkvæmt yfirdrætti. Séu vanskil á reikningi ekki gerð upp áskilur bankinn sér rétt til að gjaldfella skuldina, fyrirvaralaust og án uppsagnar, og leita fullnustu kröfunnar með löginnheimtu. Bankanum er heimilt að fela þriðja aðila að annast innheimtu kröfunnar fyrir sína hönd. Um gjald fyrir milliinnheimtu fer eftir verðskrá bankans eða gjaldskrá viðkomandi ytri innheimtuaðila og um gjald fyrir löginnheimtu fer eftir verðskrá viðkomandi innheimtuaðila.

4.8 Reikningsfærslur og yfirlit

Yfirlit yfir allar færslur á reikningum (reikningsyfirlit) eru aðgengileg í netbanka. Ársyfirlit eru birt á rafrænu formi í netbanka. Viðskiptavinur, sem ekki hefur aðgang að netbanka, getur óskað eftir því að fá ársyfirlit send til sín í bréfapósti. Viðskiptavinur skal yfirfara reikningsyfirlit sín reglulega. Hafi viðskiptavinur athugasemdir við reikningsyfirlit sitt ber honum að senda skriflega og undirritaða athugasemd til bankans innan 30 daga frá greiðslu eða 20 daga frá birtingu reikningsyfirlits. Sé viðskiptavinur lögaðili skal hann gera athugasemdir innan 30 daga frá greiðslu. Berist ekki athugasemd telst reikningsyfirlitið rétt.

Bankinn endurgreiðir fjárhæðir sem bankinn sannanlega tekur ranglega út af reikningum viðskiptavina sinna. Viðskiptavinur heimilar bankanum að bakfæra og/eða leiðrétta fjárhæðir sem verða fyrir mistök eða vegna kerfisvillu lagðar inn á reikning viðskiptavinar. Slíkar leiðréttingar skulu eiga sér stað án óeðlilegra tafa og koma fram á reikningsyfirliti viðskiptavinar.

Viðskiptavini ber að fara vel yfir upplýsingar áður en greitt er inn á reikning þriðja aðila, hvort sem greiðsla er framkvæmd með greiðslumiðli, í gegnum netbanka, síma, hjá gjaldkera eða með öðrum hætti. Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að upplýsingar um fjárhæð greiðslu, móttakanda greiðslu og skýringar með greiðslu séu réttar.

Þegar um óheimilaða eða gallaða greiðslu er að ræða og viðskiptavini verður ekki um kennt, hann hefur ekki lagt fram rangt kennimerki viðtakanda og gallinn verður ekki rakinn til óviðráðanlegra ytri atvika eða lagaskyldna sem bankanum ber að fylgja skal bankinn endurgreiða viðskiptavini fjárhæð hinnar óheimiluðu eða gölluðu greiðslu og, ef við á, bakfæra reikning viðskiptavinar til sömu stöðu og hann hefði verið í ef hin óheimilaða eða gallaða greiðsla hefði ekki átt sér stað. Viðskiptavini ber að gera kröfu um leiðréttingu án óþarfa tafar verði hann var við eða hefði átt að verða var við óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu og eigi síðar en 13 mánuðum eftir dagsetningu skuldfærslu. Þetta á þó ekki við geti viðskiptavinur sýnt fram á að bankinn hafi ekki uppfyllt skilyrði um aðgengi viðskiptavinar að reikningsyfirliti. Framangreint á ekki við þegar viðskiptavinur er ekki neytandi í skilningi laga um greiðsluþjónustu, með síðari breytingum.

4.9 Lokun reikninga

Óski viðskiptavinur eftir því að reikningi hans verði lokað, að fullu eða að hluta, getur hann lagt fram skriflega beiðni þess efnis hjá bankanum eða óskað eftir því símleiðis eða með tölvupósti. Skuldi viðskiptavinur bankanum gjöld eða aðrar þóknanir vegna veittrar þjónustu er bankanum heimilt að skuldfæra gjöldin af reikningi viðskiptavinar fyrir lokun hans.

Bankinn áskilur sér rétt til að loka reikningi, að fullu eða að hluta, að eigin frumkvæði ef samningi þessum er sagt upp, ef viðskiptavinur verður uppvís að því að brjóta lög, reglur bankans, skilmála bankans eða aðrar reglur sem gilda um viðskipti hans við bankann, ef viðskiptavinur eða þriðji aðili verður uppvís að því að misnota reikninginn, ef viðskiptin teljast að mati bankans fela í sér hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eða ef viðskiptasambandið getur að mati bankans skaðað orðspor hans. Bankinn getur þá lokað reikningnum án þess að tilkynna viðskiptavini um það fyrirfram. Viðskiptavinur verður látinn vita af lokun reiknings svo fljótt sem verða má. Bankinn áskilur sér jafnframt rétt til að loka reikningi ef reikningur hefur staðið óhreyfður í 2 ár eða lengur, að undangenginni tilkynningu sem bankinn sendir viðskiptavini þar um. Ef inneign er á reikningi sem hefur verið lokað að frumkvæði bankans verður henni ráðstafað inn á annan reikning viðskiptavinar. Eigi viðskiptavinur ekki annan reikning verður inneigninni ráðstafað inn á reikning hjá bankanum. Ef neikvæð staða er á reikningi viðskiptavinar við lokun, t.d. vegna kostnaðarfærslna, getur bankinn leitað fullnustu kröfunnar með löginnheimtu.

5 Greiðslukort

5.1 Um greiðslukort

Greiðslukort eru debetkort og kreditkort (hér eftir er vísað til þeirra í sameiningu sem „greiðslukort“ eða „kort“). Greiðslukort er greiðslumiðill í formi persónugerðs plastkorts með örgjörva og segulrönd, greiðslukortanúmer eða sýndarnúmer („token“) sem er tengt við tiltekinn greiðslureikning vegna debetkorts eða kortareikning vegna kreditkorts (hér eftir er vísað til greiðslureiknings og kortareiknings í sameiningu sem „reiknings“) hjá reikningseiganda. Greiðslukort er útgefið af bankanum. Kortið má nota til að greiða fyrir vörur og þjónustu, til úttekta á reiðufé eða til annarra nota sem samrýmast skilmálum þessum og öðrum reglum um notkun greiðslukorta sem í gildi eru á hverjum tíma. Kortið er eign bankans. Reikningseigandi getur óskað eftir útgáfu fleiri en eins debetkorts á greiðslureikning sinn. Óski reikningseigandi eftir því að bankinn afhendi öðrum aðila kort á reikning sinn veitir reikningseigandi þeim aðila heimild til að skuldbinda reikningseiganda og nota kortið til samræmis við skilmála þessa. Greiðslur/úttektir með korti dragast af greiðslureikningi eða færast á kortareikning. Reikningseigandi greiðir vexti og kostnað vegna útgáfu og notkunar korts í samræmi við vaxtatöflu og verðskrá bankans. Reikningseigandi greiðir jafnframt kostnað við kortanotkun sem aðrir þjónustuaðilar leggja á, þ.m.t. hraðbankaþjónustuveitendur vegna reiðufjárúttekta. Korthafi er sá sem kort er gefið út á. Korthafi getur verið reikningseigandi eða sá sem reikningseigandi heimilar að sé með kort. Korthafi er einnig sá einstaklingur sem hefur fyrirtækjakort. Reikningseigandi sem er forráðamaður ófjárráða einstaklings getur sótt um debetkort fyrir hönd hins ófjárráða og ber reikningseigandi þá einn ábyrgð á allri notkun og reikningsfærslum hins ófjárráða. Einstaklingskort eru kort sem gefin eru út á einstaklinga. Fyrirtækjakort eru kort sem gefin eru út á einstaklinga með atvinnustarfsemi á eigin kennitölu eða kennitölu lögaðila, t.d. félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana. Lögaðilinn er þá reikningseigandi og ber ábyrgð á allri notkun, greiðslum og úttektum korthafa. Auðkenning er sú aðferð sem korthafi notar til að sanna á sér deili með persónubundnum öryggisþáttum þegar hann staðfestir framkvæmd greiðslu/úttekt með korti. Auðkenning felst í innslætti persónubundinna öryggisþátta eins og PIN eða annars konar öryggisnúmers til auðkenningar. Auðkenning getur einnig falist í notkun annarra aðferða við auðkenningu, allt í samræmi við öryggiskröfur bankans á hverjum tíma. Bankinn áskilur sér rétt til að breyta öryggiskröfum sínum án fyrirvara.

5.2 Umsókn og útgáfa

Viðskiptavinur sækir um kort í útibúi, síma eða með rafrænum hætti, t.d. netbanka. Bankinn áskilur sér rétt til að hafna umsókn um kort. Kort er útgefið á nafn korthafa. Korthafi fær úthlutað leyninúmeri, PIN, samhliða útgáfu kortsins sem hann notar til að staðfesta framkvæmd greiðslu/úttekt. Korthafi hefur aðgang að PIN í netbanka. Korthafi getur einnig fengið PIN sent í skilaboðum á skráð símanúmer korthafa hjá bankanum. Óski korthafi eftir að fá PIN heimsent í bréfapósti ber hann ábyrgð á sendingunni og greiðir fyrir hana samkvæmt verðskrá. Hafi korthafa ekki borist PIN innan eðlilegs tíma skal hann tilkynna það til bankans. Korthafi getur breytt PIN korts í útibúi. Bankinn ákveður gildistíma kortsins sem er skráður á kortið. Kortið gildir til síðasta dags þess mánaðar sem tilgreindur er á kortinu. Korthafi fær sent endurnýjað kort fyrir lok gildistímans nema annað sé tekið fram við umsókn. Vilji korthafi eða reikningseigandi ekki endurnýja kortið skal annar hvor þeirra senda bankanum skriflega tilkynningu þar um í síðasta lagi mánuði fyrir lok gildistímans. Við útgáfu og endurnýjun korts fær korthafi kortið sent á lögheimili eða skráð aðsetur samkvæmt verðskrá. Hafi korthafa ekki borist kortið innan eðlilegs tíma skal hann tilkynna það til bankans án tafar.

Korthafi getur greitt fyrir vörur og þjónustu hjá þeim sölu- og þjónustuaðilum sem taka við kortum. Korthafi getur tekið út reiðufé með kortinu í bönkum, sparisjóðum, hraðbönkum og hjá öðrum aðilum sem bjóða korthöfum slíka þjónustu. Korthafi á rétt á að fá afhent eintak sölunótu við notkun kortsins en annað eintak er varðveitt hjá seljanda. Færsluboð eru send frá seljanda rafrænt til uppgjörs hjá bankanum. Notkun korts kann að takmarkast við hámarksheimildir, t.d. í hraðbönkum og posum eða samkvæmt reglum bankans. Korthafi ábyrgist að nota kortið ekki umfram heimild á reikningi. Að öðrum kosti kann að koma til kostnaðar í samræmi við verðskrá og refsiábyrgðar lögum samkvæmt. Sé rökstuddur grunur um óheimila eða sviksamlega notkun korts áskilur bankinn sér rétt til að synja um heimild og loka korti. Korthafi notar PIN til að samþykkja greiðslur/úttektir af reikningi með kortinu nema þegar skilmálar þessir heimila annað, t.d. snertilausa greiðslu eða greiðslu á netinu. Framkvæmd greiðslu eða úttektar felur í sér samþykki korthafa fyrir úttekt á vörum eða þjónustu. Hafi korthafi slegið inn rangt PIN þrisvar í röð kann bankinn að læsa kortinu, loka því eða afturkalla það. Bankinn ákveður einhliða úttektarheimildir fyrir kort og áskilur sér rétt til að synja um hækkun heimildar. Bankinn áskilur sér jafnframt rétt til að synja um framkvæmd greiðslu eða úttekt m.a. vegna eftirfarandi ástæðna: (a) kort hefur verið tilkynnt glatað eða stolið, (b) greiðslureikningi hefur verið lokað eða hann eyðilagður, (c) heimild hefur áður verið fullnýtt eða skuld við bankann gjaldfallin (d) korti hefur verið lokað, (e) fjárhæð greiðslu (eftir atvikum að viðlögðum kostnaði) fer yfir innstæðu eða heimild á reikningi, (f) rangir persónubundnir öryggisþættir hafa verið notaðir, t.d. rangt PIN, (g) gildistími korts er útrunninn eða (h) annað sem lög, skilmálar eða reglur bankans kveða á um. Misnotkun kortsins varðar við lög.

5.3 Ábyrgð og varðveisla

Korthafi er ábyrgur fyrir varðveislu kortsins, PIN og annarra persónubundinna öryggisþátta til þess að koma í veg fyrir að þriðji aðili geti komist yfir kortið, PIN eða aðrar upplýsingar um kortið, t.d. kortanúmer eða öryggisnúmer. Korthafa er óheimilt að láta kortið, PIN eða aðrar upplýsingar um kortið þriðja aðila í té og skal korthafi gæta fyllsta öryggis upplýsinganna. Korthafa er óheimilt að geyma PIN með kortinu, í veski sínu, í farsíma, á netinu eða með öðrum rafrænum búnaði eða öðrum hætti sem kann að vera aðgengilegur þriðja aðila. Korthafa er óheimilt að fjölfalda kortið eða breyta virkni þess. Varðveiti korthafi ekki kortið, PIN eða aðra persónubundna öryggisþætti með öruggum hætti eða í samræmi við framangreint telst það vera stórfellt gáleysi. Korthafa ber ávallt að gæta þess að enginn sjái þegar hann slær inn PIN eða aðra persónubundna öryggisþætti.

Korthafi eða reikningseigandi geta ekki afturkallað greiðslur/úttektir sem korthafi framkvæmir með korti. Korthafi er ábyrgur fyrir greiðslu/úttekt hafi hann staðfest framkvæmd hennar með undirritun á sölunótu eða skráningu PIN, með skráningu upplýsinga um kort í þar til gerða reiti við kaup á vörum eða þjónustu á netinu, með því að gefa upplýsingar um öryggisnúmer við símagreiðslu, með fyrirfram veittri heimild til söluaðila, með framkvæmd snertilausrar greiðslu eða með því að samþykkja framkvæmd greiðslu/úttekt með öðrum hætti til samræmis við reglur bankans hverju sinni. Korthafi skal sjálfur framkvæma greiðslu/úttekt og slá inn PIN eða eftir atvikum aðra persónubundna öryggisþætti. Hafi korthafi ekki varðveitt kortið, PIN eða aðra persónubundna öryggisþætti sína til samræmis við skilmála þessa er hann ábyrgur fyrir öllum greiðslum/úttektum sem framkvæmdar eru með kortinu. Bankinn gengur út frá því að allar greiðslur/úttektir með korti hafi verið framkvæmdar af korthafa og í samræmi við vilja reikningseiganda þar til sýnt hefur verið fram á annað. Sé korthafi annar en reikningseigandi bera reikningseigandi og korthafi fulla ábyrgð á notkun kortsins og öllum greiðslum/úttektum sem framkvæmdar eru með kortinu. Greiðslur/úttektir með korti koma fram á færsluyfirliti kortareiknings/reikningsyfirliti greiðslureiknings („yfirlit“). Á yfirlitinu koma fram upplýsingar um dagsetningu og sundurliðun fjárhæða greiðslna/úttekta, gengi, fjárhæð greiðslu eftir gjaldmiðilsumreikni, gildisdag skuldfærslu eða dagsetningu viðtöku greiðslufyrirmæla, nafn söluaðila auk upplýsinga um greiðslur tímabils sem gjaldfalla á næsta gjalddaga. Um yfirlit gilda að öðru leyti ákvæði skilmála þessara eftir því sem við á.

Korthafi ber sjálfsábyrgð vegna óheimilaðra úttekta/greiðslna að fjárhæð sem svarar til allt að EUR 150, miðað við opinbert viðmiðunargengi hverju sinni, ef þær má rekja til þess að korthafi hafi týnt kortinu, því verið stolið eða það notað með öðrum óréttmætum hætti áður en kortið hvarf eða misnotkun þess hefur verið tilkynnt og notkunina má rekja til þess að korthafi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum. Við ákvörðun fjárhæðar sjálfskuldarábyrgðar er horft til þess hvernig korthafi varðveitti kortið og PIN eða aðra persónubundna öryggisþætti og málsatvika þegar kortið glataðist eða var nýtt með óréttmætum hætti. Ef sannað er að kort hafi verið notað með sviksamlegum hætti án heimildar korthafa og ekki er um að ræða stórfellt gáleysi eða svik af hálfu korthafa skal korthafi ekki bera ábyrgð á tjóni vegna þeirrar greiðslu umfram sjálfsábyrgð. Ef sannað er að annar en korthafi hafi framkvæmt með sviksamlegum hætti snertilausar greiðslur eða annars konar greiðslur eða úttektir án staðfestingar með PIN eða öðrum persónubundnum öryggisþáttum skal korthafi ekki bera ábyrgð á tjóni vegna þeirrar greiðslu, enda hafi korthafi ekki sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Korthafi ber ekki ábyrgð á notkun korts eftir að hann hefur sannanlega tilkynnt það glatað nema hann hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi eða stórfellt gáleysi. Korthafi ber ábyrgð á öllu tjóni vegna óheimilaðra greiðslna ef hann stofnar til þeirra með sviksamlegum hætti eða vanrækir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Þegar korthafi kemur fram fyrir hönd lögaðila eða einstaklings í atvinnurekstri ber reikningseigandi allt tjón sem hlýst af óheimilaðri greiðslu, enda hafi korthafi eða eftir atvikum reikningseigandi vanrækt skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum. Bankinn ber hvorki ábyrgð á tjóni korthafa vegna tæknilegrar bilunar í hraðbanka eða öðru afgreiðslutæki né á tjóni korthafa sem hlýst af því að afgreiðslutæki hefur ekki samband við heimildarkerfi bankans. Telji korthafi að hann hafi orðið fyrir slíku tjóni skal hann senda bankanum skriflega kvörtun. Bankinn framsendir kvörtun korthafa til færsluhirðis. Sérhver ágreiningur eða tjón vegna kaupa á vörum eða þjónustu, sem greidd eru með korti, er bankanum algerlega óviðkomandi og án ábyrgðar fyrir hann.

5.4 Glötuð kort, lokun og afturköllun

Glatist kort eða telji korthafi að kort hans hafi verið notað með sviksamlegum hætti ber honum eða reikningseiganda að tilkynna það tafarlaust til bankans á afgreiðslutíma bankans en í neyðarsíma greiðslukortafyrirtækis utan afgreiðslutíma bankans. Strax eftir að tilkynning hefur verið móttekin er kortinu lokað, tímabundið eða varanlega, eða það afturkallað til að koma í veg fyrir frekari notkun þess eða misnotkun. Korthafa ber skylda til að aðstoða greiðslukortafyrirtæki og bankann við vinnslu málsins og lágmarka tjónið eins og unnt er. Móttakandi tilkynningar heldur utan um og skráir tilkynningar um glötuð kort. Bankinn kann að óska eftir því að korthafi skili inn skriflegri yfirlýsingu um glatað kort og undirriti beiðni um nýtt kort. Glati korthafi korti sínu erlendis býðst honum neyðarkort eða neyðarfé fyrir milligöngu greiðslukortafyrirtækis. Kostnaður vegna þessarar þjónustu skuldfærist á reikning reikningseiganda samkvæmt verðskrá. Finni korthafi kort sem hann hefur tilkynnt glatað er honum óheimilt að nota það. Tilkynna ber bankanum um fund kortsins og skal skila kortinu til bankans. Óski korthafi eftir enduropnun kortsins ber hann ábyrgð á allri notkun kortsins á meðan það var glatað. Beiðni um enduropnun korts skal vera skrifleg eða staðfest með úthlutuðu öryggisnúmeri.

Korthafi og reikningseigandi geta lokað korti hvenær sem er. Vilji korthafi segja upp korti eða afturkalla umsókn sína skal hann senda bankanum skriflega tilkynningu þar um. Bankanum er heimilt, fyrirvaralaust og án tilkynningar, að loka eða takmarka notkun korthafa á korti, tímabundið eða varanlega, eða afturkalla það fyrirvaralaust (a) vakni grunur um misnotkun eða brot korthafa á lögum, reglum og skilmálum sem um kortið gilda, (b) fjárnám er gert hjá reikningseiganda, korthafa eða eftir atvikum hjá ábyrgðarmanni, komi fram ósk um skipti á búi þeirra, hafi þeir leitað nauðasamninga eða ef öðrum kortum þeirra hefur verið lokað, (c) ef bankinn þarf að afskrifa ógreiddar kröfur á korthafa eða reikningseiganda eða ef vanskil verða af hálfu korthafa og/eða reikningseiganda, (d) hafi debetkort ekki verið notað í 18 mánuði samfellt eða árgjald kreditkorts ekki verið greitt. Korthafa er gert viðvart um lokun. Reynist grunur ekki á rökum reistur er opnað fyrir notkun korts. Við afturköllun ber korthafa að skila kortinu án tafar í næsta útibú. Skili korthafi ekki kortinu getur bankinn krafist vörslusviptingar kortsins. Bankinn skráir lokuð og afturkölluð kort og miðlar þeim upplýsingum til sölu- og þjónustuaðila. Fari sölu- eða þjónustuaðili fram á að korthafi skili lokuðu eða afturkölluðu korti ber korthafa að afhenda sölu- eða þjónustuaðila kortið. Korthafa er óheimilt að nota kortið eftir að gildistími þess rennur út, ef það hefur verið ógilt eða ef það er ónothæft af öðrum ástæðum.

5.5 Sérákvæði um kreditkort

Hafi reikningseigandi eða korthafi veitt bankanum heimild til skuldfærslu greiðslna á greiðslureikning verður skuldfærslan framkvæmd á gjalddaga kortareiknings. Sé ekki næg innstæða á greiðslureikningi viðskiptavinar er bankanum heimilt að láta reyna á skuldfærslu þrátt fyrir að gjalddagi kortareiknings sé liðinn. Færsludagur ákvarðar á hvaða kortatímabil greiðsla/úttekt með korti færist. Skiladagur færslu frá söluaðila til bankans getur leitt til þess að færsla færist á næsta tímabil. Almennt færslutímabil, sem færsluyfirlit korthafa miðast við, er mánuður og eru byrjun og lok þess auglýst á vef bankans. Sé gjalddagi almennur lokunardagur banka færist gjalddaginn til næsta viðskiptadags. Hafi greiðsla ekki borist innan þess tíma greiðast dráttarvextir frá gjalddaga til greiðsludags, eins og þeir eru auglýstir af Seðlabanka Íslands. Korthafi getur tekið út inneign á kortareikningi á næsta gjalddaga eftir að kortatímabil sem inneign myndaðist á er lokið. Sé korthafi reikningseigandi getur hann hækkað/lækkað kreditkortaheimild í netbanka gegn greiðslu kostnaðar samkvæmt verðskrá. Hámarksheimild korthafa fer eftir lánaramma hans á hverjum tíma.

Korthafi getur gert greiðslusamninga við þriðja aðila með kreditkorti. Korthafi ber ábyrgð á gerð slíkra samninga og að greiðslur séu innan kreditkortaheimildar. Sé fyrir hendi greiðslusamningur, eða greiðsla hefur verið gerð á kort eftir að þjónusta var afhent í tilviki bílaleiga, hótela og skemmtiferðaskipa, hefur korthafi 8 vikur frá færsludegi til að gera undirritaða athugasemd til bankans við greiðslu með ósk um endurgreiðslu. Hafi korthafi lagt fram athugasemd innan tímafrests og framvísað viðeigandi gögnum máli sínu til stuðnings, fær hann innan 10 daga rökstudda synjun eða endurgreiðslu og þá með fyrirvara um að alþjóðlegar reglur greiðslukortafyrirtækjanna leiði til þess að hann eigi réttmætt tilkall til endurgreiðslu. Leiði alþjóðlegar reglur greiðslukortafyrirtækjanna til þess að korthafi eigi ekki réttmætt tilkall til endurgreiðslu verður hún innheimt af kortreikningi korthafa. Hafi korti verið sagt upp eða því lokað skuldfærir bankinn afborganir af greiðslusamningum korthafa á skuldfærslureikning korthafa. Sé ekki fyrir hendi skráður skuldfærslureikningur fær korthafi greiðsluseðil sendan í netbanka. Fái korthafi nýtt kort í stað korts sem hefur verið endurnýjað, sagt upp, lokað eða sem hefur glatast er bankanum heimilt, en ekki skylt, að færa á hið nýja kort, eða annað kort í eigu reikningseiganda, það sem eftir stendur af greiðslusamningi. Sá skuldfærslureikningur og eftir atvikum sú trygging sem sett var til tryggingar skilvirkum og skaðlausum greiðslum vegna kortsins gildir með sama hætti fyrir hið nýja kort eða annað kort í eigu reikningseiganda.

6 Lokaákvæði

Bankinn og viðskiptavinur geta hvenær sem er sagt upp viðskiptum sín á milli án fyrirvara nema annað leiði af lögum, samningi, skilmálum þessum, skilmálum, reglum bankans eða eðli máls. Bankanum er heimilt að segja upp rammasamningi samkvæmt skilmálum þessum með tveggja mánaða uppsagnarfresti. Vilji viðskiptavinur segja upp viðskiptum við bankann, eða afturkalla veitt samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga, skal hann senda bankanum skriflega tilkynningu þar um.

Bankinn áskilur sér jafnframt rétt til að slíta viðskiptasambandi, að fullu eða að hluta, að eigin frumkvæði og með einhliða tilkynningu til viðskiptavinar ef viðskiptavinur verður uppvís að því að brjóta lög, reglur bankans, skilmála bankans eða aðrar reglur sem gilda um viðskipti hans við bankann, ef viðskiptavinur eða þriðji aðili verður uppvís að því að misnota viðskiptasambandið, ef viðskiptin teljast að mati bankans fela í sér hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eða ef viðskiptasambandið getur að mati bankans skaðað orðspor hans.

Ef eingöngu er notuð fjarskiptaaðferð fram að og við samþykkt skilmála þessara teljast skilmálarnir fjarsölusamningur í skilningi laga nr. 33/2005 um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Sé viðskiptavinur neytandi hefur hann rétt, með þeim takmörkunum sem fram koma í lögum um fjarsölu á fjármálaþjónustu, til að falla frá skilmálunum teljist þeir fjarsölusamningur í skilningi þeirra laga án þess að tilgreina nokkra ástæðu, enda sendi hann tilkynningu þar að lútandi með sannanlegum hætti til bankans innan 14 daga frá þeim degi sem skilmálarnir eru samþykktir.

Viðskiptavini er heimilt að leita með hvers kyns ágreining við bankann til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki að því gefnu að ágreiningsefnið falli undir starfssvið nefndarinnar. Úrskurðarnefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík, www.fme.is. Öll mál sem rísa kunna vegna viðskipta við bankann skulu fara eftir íslenskum lögum nema um annað sé samið. Rísi mál vegna brota á skilmálum þessum má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Bankinn ber ekki ábyrgð á tjóni, beinu eða óbeinu, sem viðskiptamaður kann að verða fyrir og tengist skilmálum þessum eða viðskiptum sem framkvæmd eru á grundvelli þeirra, ef rekja má tjónið til atvika sem stafa af lagaboði, aðgerðum stjórnvalda eða óviðráðanlegum aðstæðum (force majeure), s.s, náttúruhamförum, styrjöldum, hryðjuverkum, verkföllum, lokun landamæra, rafmagnstruflunum eða rafmagnsleysi, truflunum í uppgjörskerfi, símkerfi eða öðrum boðleiðum, eða öðrum sambærilegum atvikum. Landsbankinn ber jafnframt ekki ábyrgð á óþægindum, kostnaði, missi fjárfestingartækifæra eða öðru fjártjóni, beinu eða óbeinu sem stafar af lokun, bilun, truflun eða annarri röskun á starfsemi bankans.

Skilmálar þessir eru gefnir út á íslensku. Íslensk útgáfa skilmálanna er eina gilda útgáfa skilmálanna, óháð því hvort bankinn birti þýðingu á skilmálunum á öðrum tungumálum en íslensku.

Skilmálar þessir gilda frá og með 1. nóvember 2019. Skilmálar þessir gilda þó frá og með 1. september 2019 gagnvart viðskiptavinum sem staðfesta skilmálana frá og með þeim degi.