Almennir skilmálar

Nr. 1500-05  |  Desember 2013

Um skilmálana

Almennir skilmálar Landsbankans hf. gilda í öllum viðskiptum milli bankans og viðskiptavina hans. Þeir hafa að geyma almenn ákvæði um réttindi og skyldur beggja aðila.

Í ákveðnum tilvikum gilda þó sérstakir skilmálar milli aðilanna og ganga þeir framar hinum almennu skilmálum ef misræmi er á milli þeirra, en jafnframt gilda þeir sérstöku skilmálunum til fyllingar. Viðskiptavinir bankans skulu kynna sér þær reglur og/eða þá skilmála sem gilda um viðkomandi viðskipti.

Samningar við bankann sem eru frábrugðnir þessum skilmálum eða öðrum sérstökum skilmálum bankans ganga þeim framar.

Landsbankinn getur gert breytingar á skilmálum þessum hvenær sem er og taka slíkar breytingar gildi án fyrirvara ef þær eru er til hagsbóta fyrir viðskiptavini hans. Að öðrum kosti skuli breytingar taka gildi með eins mánaðar fyrirvara. Breytingar á skilmálunum eru birtar á vef bankans www.landsbankinn.is. Sama regla á við um sérstaka skilmála bankans sem nefndir eru hér að ofan.

Stofnun viðskipta

Við stofnun viðskipta kannar Landsbankinn áreiðanleika nýrra viðskiptavina sinna með því að óska eftir ýmsum upplýsingum sem varða hagi þeirra, s.s. nafn, búsetu, lögheimili og kennitölu, auk upplýsinga um fjárhagslega stöðu þeirra og tilgang viðskiptanna, sjá nánar í umfjöllun um Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Með stofnun viðskipta við Landsbankann gangast nýir viðskiptavinir við skilmálum þessum sem og þeim skilmálum sem tilheyra viðkomandi viðskiptum.

Notkun leyninúmera og auðkennislykla

Í ákveðnum tilvikum þurfa viðskiptavinir Landsbankans að nota leyninúmer eða auðkennislykil til að framkvæma eða láta framkvæma tiltekin viðskipti.

Við ákvörðun leyninúmera skulu viðskiptavinir bankans gæta að því að númerin samræmist reglum bankans um leyninúmer og verði því ekki rakin til viðskiptavinar með auðveldum hætti. Sem dæmi má nefna er óheimilt að nota hluta úr kennitölu eða reikningsnúmeri.

Viðskiptavinum bankans er óheimilt að láta leyninúmer sitt öðrum í té. Jafnframt skuldbinda þeir sig til að breyta samstundis leyninúmeri ef grunur leikur á að einhver hafi fengið vitneskju um það. Þá skal tilkynna bankanum um slíkan grun án tafar.

Viðskiptavinir bankans bera ábyrgð á þeim aðgerðum sem gerðar eru og/eða upplýsingum sem fengnar eru með notkun leyninúmers óháð eðli þeirra.

Handhafi auðkennislykils ber fulla ábyrgð á aðgerðum sem framkvæmdar eru í netbanka Landsbankans með auðkennislykli hans. Handhafi lykilsins ábyrgist jafnframt tjón gagnvart eiganda hans (Auðkenni hf.) og/eða Landsbankanum, sem kann að verða við vörslu eða notkun auðkennislykils, t.d. við misnotkun notanda eða annars aðila.

Umboð

Umboð viðskiptavina Landsbankans til þriðja aðila til að annast viðskiptagerninga við bankann fyrir sína hönd skulu vera skrifleg og vottuð af tveimur vottum, af héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða af lögbókanda (notario publico). Skal tilgreina í umboði nákvæmlega til hvaða gerninga umboðið nær. Allar breytingar á umboði skulu einnig vera skriflegar og vottaðar með sama hætti og taka þær gildi þegar þær berast bankanum.

Afturköllun umboðs, sem jafnframt skal vera skrifleg, öðlast gildi þegar afturköllunin berst bankanum.

Landsbankinn getur synjað viðskiptum á grundvelli umboða viðskiptavina sinna telji bankinn umboðin ekki fullnægjandi.

Að öðru leyti gilda lög og reglur um veitingu umboðs, breytingu og afturköllun þess.

Reikningsfærslur

Landsbankinn ráðleggur viðskiptavinum sínum að yfirfara reikningsyfirlit sín reglulega.

Landsbankanum ber skylda til að endurgreiða fjárhæðir sem bankinn sannanlega tekur ranglega út af reikningum viðskiptavina sinna. Með sama hætti hefur bankinn rétt til að draga til baka fjárhæðir sem hann ranglega leggur inn á reikning viðskiptavina sinna, s.s. þegar sama fjárhæðin er lögð inn tvisvar eða þegar rangur innsláttur á upplýsingum um móttakanda greiðslu á sér stað. Slíkar leiðréttingar skulu eiga sér stað jafnharðan og koma þær fram á reikningsyfirlitum viðskiptavina bankans.

Mistök af hálfu viðskiptavina Landsbankans við millifærslur, skuldfærslur og innborgarnir á reikning þriðja aðila sem leiða til þess að greitt er inn á rangan reikning verða ekki leiðrétt af bankanum án samþykkis móttakanda greiðslunnar. Slík mistök eru á ábyrgð viðskiptavina bankans. Landsbankinn áréttar því við viðskiptavini sína að vanda vel til millifærslna/innborgana á reikning þriðja aðila hvort sem þær eru framkvæmdar í gegnum netbanka, síma eða hjá gjaldkera.

Vextir

1. Vaxtakjör

Vextir inn- og útlána eru breytilegir nema annað sé tiltekið eða umsamið. Innláns- og útlánsvextir ákvarðast og breytast án nokkurs fyrirvara í samræmi við vaxtaákvörðun Landsbankans á hverjum tíma.

Ef samið hefur verið um fasta vexti eða önnur sérstök vaxtakjör við bankann taka breytingar á vöxtum mið af þeim samningsskilmálum sem fram koma í samningum milli bankans og viðskiptavina hans.

Hægt er að fá upplýsingar um inn- og útlánsvexti á vef bankans www.landsbankinn.is, hjá þjónustuveri hans og hjá gjaldkerum eða þjónustufulltrúum í útibúum bankans. Þegar sérstaklega stendur á eru vaxtabreytingar bankans tilkynntar opinberlega, t.d. með fréttatilkynningum.

2. Vaxtaútreikningur og vaxtafærslur

Í hverjum mánuði eru 30 vaxtadagar og 360 vaxtadagar í árinu nema um annað sé sérstaklega samið.

Innborganir bera almennt vexti frá og með næsta degi eftir að féð er lagt inn. Dagurinn fyrir úttekt er síðasti vaxtadagur úttekinnar fjárhæðar. Sérreglur geta gilt um vaxtaútreikning vegna innborgana og úttekta sem framkvæmdar eru um helgar og á helgidögum hvort sem er í netbanka, hjá þjónustuveri og í útibúum bankans.

Vextir leggjast almennt við höfuðstól í árslok og verðbætur leggjast við höfuðstól í lok hvers mánaðar nema um sé að ræða sérstaka sparireikninga. Vextir birtast á reikningsyfirliti sem er birt í netbanka eða með öðrum rafrænum hætti í ársbyrjun.

Skuldavextir af yfirdráttarlánum eru reiknaðir mánaðarlega eftir á og skuldfærðir á reikninginn síðasta virka dag hvers mánaðar vegna vaxtatímabilsins frá 21. degi fyrri mánaðar til 20. dags viðkomandi mánaðar og vaxtadagsett miðað við 21. dag þess mánaðar.*

*Sjá nú Almenna skilmála um stofnun og notkun innlánsreikninga undir kaflanum Útvextir, innstæðulausar úttektir, ósamþykktur yfirdráttur og rangar eða óheimilar greiðslur: "Skuldavextir eru skuldfærðir mánaðarlega hafi ekki verið um annað samið."

Ef innstæða reynist ekki næg fyrir úttektum á tékkareikningum/debetkortareikningum reiknast annað hvort samningsvextir samkvæmt vaxtaákvörðun bankans eða dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands frá úttektardegi að viðbættum kostnaði samkvæmt verðskrá bankans.

Vextir af útlánum eru mismunandi eftir útlánsformum. Útborgunardagur láns er fyrsti vaxtadagur nema um annað hafi verið samið. Gjalddagi skuldabréfs er ekki vaxtareiknaður en gjalddagi víxils er vaxtareiknaður.

Bankadagur er virkur dagur þegar bankar eru opnir á Íslandi. Ef gjalddagi, sem jafnframt er eindagi, lendir á almennum frídegi eða helgidegi færist hann á þann bankadag sem næstur kemur á eftir gjalddaganum. Ef gjalddagi og eindagi krafna sem bankinn annast innheimtu á fyrir þriðja aðila er ekki sami dagur færist eindagi ekki þótt hann lendi á almennum frídegi eða helgidegi.

Verðskrá (gjaldtaka bankans)

Viðskiptavinir Landsbankans skulu greiða gjöld fyrir þjónustu bankans sem og annan kostnað samkvæmt verðskrá bankans hverju sinni. Gjöldin eru innheimt annað hvort sem ákveðin krónutala fyrir þjónustu, prósentutala af upphæð eða tímagjald samkvæmt útseldri vinnu starfsmanna bankans eða sambland af þessu þrennu.

Landsbankinn getur breytt án nokkurs fyrirvara verðskrá sinni. Ákvæðum sérsamninga bankans við viðskiptavini sína sem kveða á um önnur kjör verður þó ekki breytt án samkomulags þar um.

Hægt er að fá upplýsingar um innlenda og erlenda verðskrá á vef bankans www.landsbankinn.is, hjá þjónustuveri hans og hjá gjaldkerum eða þjónustufulltrúum í útibúum bankans.

Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, ber Landsbankanum við stofnun viðskipta og vegna einstakra viðskipta að kanna áreiðanleika viðskiptavina sinna.

Til að fullnægja þessari lagaskyldu óskar bankinn meðal annars eftir persónuupplýsingum nýrra viðskiptavina, s.s. nafni, kennitölu, lögheimili og fæðingarstað og þjóðerni. Lögaðilar skulu veita upplýsingar um lagalegt form félagsins, stjórn og framkvæmdastjórn sem og upplýsingar um það hverjir hafi heimild til að skuldbinda félagið. Þá þarf Landsbankinn að afla upplýsinga um hvort viðskipti fari fram í þágu þriðja aðila, upplýsinga um eðli og tilgang hins fyrirhugaða viðskiptasambands sem og upplýsinga um uppruna fjármagns.

Þá skulu nýir viðskiptavinir, áður en til viðskipta er stofnað, sanna á sér deili með framvísun persónuskilríkja sem gefin eru út af opinberum aðilum. Lögaðilar sanna á sér deili með því að framvísa vottorðum úr opinberri skrá sem sanna skráningu viðkomandi félags. Metið er hverju sinni hvort krafist verði afrits af samþykktum félags og/eða endurskoðaðra ársreikninga.

Bankanum ber auk þess að kanna sérstaklega áreiðanleika viðskiptavina sinna við ákveðnar aðstæður þar sem sérstakrar varúðar er þörf.

Á meðan á viðskiptasambandi viðskiptavinar við Landsbankann stendur sæta viðskipti hans reglubundnu eftirliti í því skyni að kanna hvort viðskiptin samrýmist þeim upplýsingum sem veittar voru um viðskiptavin og starfsemi hans er viðskiptasambandið hófst.

Landsbankinn varðveitir afrit af persónuskilríkjum og opinberum gögnum auk annarra upplýsinga um viðskiptavin sem safnað er í a.m.k. fimm ár frá því að einstökum viðskiptum eða varanlegu viðskiptasambandi lýkur.

Gruni Landsbankann, eða hafi bankinn réttmæta ástæðu til að ætla, að fjármunir þeir sem ætlun viðskiptavinar stendur til að fari um hendur bankans séu ágóði af ólögmætri háttsemi eða tengist fjármögnun hryðjuverka geta hin umbeðnu viðskipti verið stöðvuð.

Ef Landsbankinn hefur fyrir því rökstuddan grun eða réttmæt ástæða er til að ætla að viðskipti séu grunsamleg með tilliti til peningaþvættis og/eða fjármögnun hryðjuverka er bankanum skylt að tilkynna viðskiptin til lögreglu og láta henni í té allar nauðsynlegar upplýsingar vegna tilkynningarinnar.

Lánsviðskipti

Við upphaf lánsviðskipta skulu viðskiptavinir Landsbankans veita bankanum heimild til að afla yfirlits um skuldbindingar þeirra við önnur fjármálafyrirtæki þar með taldar ábyrgðarskuldbindingar og skuldbindingar sem fyrirtæki innheimta fyrir aðra aðila. Viðskiptavinir Landsbankans skulu einnig afhenda bankanum önnur gögn sem krafist er hverju sinni vegna lánsviðskipta en Landsbankinn getur auk þess þurft að afla ýmissa nauðsynlegra upplýsinga úr opinberum skrám, s.s. frá þjóðskrá og Creditinfo Lánstrausti hf., eða sambærilegum aðila sem annast rekstur vanskilaskrár. Landsbankinn aflar sömu heimilda hjá mökum viðskiptavina bankans þegar um sameiginlegar og/eða gagnkvæmar skuldbindingar er að ræða.

Viðskiptavinir Landsbankans skulu jafnframt veita bankanum heimild til að framkvæma áhættumat vegna lánsviðskipta á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna sem viðskiptavinir bankans hafa látið honum í té og hann hefur aflað sjálfur.

Landsbankinn athugar reglulega hvort þörf er á að óska eftir tryggingum eða bæta þurfi við tryggingar vegna útlána og ábyrgða sem þegar hafa verið veitt og getur þá kallað eftir frekari tryggingum telji bankinn þess þurfa.

Verðbréfaviðskipti

Landsbankanum ber samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti að kanna og leggja mat á mikilvæga þætti varðandi þekkingu, fjárhagslegan styrk og reynslu viðskiptavina sinna vegna fjárfestingarráðgjafar eða eignastýringar. Landsbankinn flokkar því viðskiptavini sína vegna verðbréfaviðskipta í þrjá flokka: viðurkennda gagnaðila, fagfjárfesta og almenna fjárfesta. Viðskiptavinir bankans njóta mismikillar fjárfestaverndar eftir því til hvaða flokks þeir teljast en verndin er mest fyrir almennan fjárfesti. Landsbankinn upplýsir viðskiptavini sína í hvaða flokk þeir falla að mati bankans en viðskiptavinir hans geta óskað eftir því að teljast til annars flokks.

Samkvæmt ákvæðum sömu laga heldur Landsbankinn skrár yfir alla þjónustu sem bankinn veitir og öll viðskipti sem hann hefur milligöngu um á sviði verðbréfaviðskipta. Þá ber Landsbankanum að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um öll viðskipti sem bankinn framkvæmir með fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Lok viðskipta

Landsbankinn og viðskiptavinir hans geta hvenær sem er sagt upp viðskiptum sín á milli án fyrirvara nema laga- eða samningsákvæði kveði á um annað.

Tilteknum útlánasamningum er óheimilt að segja upp samkvæmt ákvæðum þeirra eða lögum. Í öðrum ákveðnum tilvikum lánaviðskipta, þegar heimilt er að greiða lán upp, getur bankinn krafist uppgreiðslugjalds samkvæmt verðskrá bankans nema um aðra upphæð hafi sérstaklega verið samið.

Bundnum innlánsreikningum er ekki hægt að segja upp fyrr en að binditíminn er liðinn.

Uppsögn af hálfu bankans skal vera rökstudd skriflega í uppsagnarbréfi. Útlánasamningum er aðeins hægt að segja upp af bankans hálfu með aðvörun og þá því aðeins að fyrir liggi samningsrof eða aðrar vanefndir, sbr. skilmálar viðkomandi útlána.

Erlend viðskipti

Landsbankinn ber enga ábyrgð á mögulegum mistökum eða vanrækslu sem leiða kann af vali viðskiptavinar á erlendum viðskiptaaðila og áreiðanleika hans. Hið sama gegnir um mistök eða vanrækslu erlendra fjármálafyrirtækja. Er viðskiptavinum bankans bent á að kynna sér skilmála viðkomandi erlends fjármálafyrirtækis, gildandi löggjöf þess ríkis og framkvæmd viðskipta þar í landi.

Gengistafla Landsbankans gildir í öllum viðskiptum með erlenda mynt nema um annað sé sérstaklega samið. Fer það eftir eðli viðskipta hvort notað er stundargengi, lokagengi eða sérgengi sem er ákveðið af bankanum.

Í þeim viðskiptum sem myndast getur gengismunur bera viðskiptavinir bankans alla áhættu þar af nema sérstaklega hafi verið samið um annað.

Rafrænar upplýsingar og rafrænar undirskriftir

Landsbankanum er heimilt að veita viðskiptavinum sínum allar upplýsingar sem honum er skylt að veita með rafrænum hætti nema lög kveði á um annað.

Undirritanir viðskiptavina bankans sem veittar eru með rafrænum skilríkjum hafa fullt gildi í viðskiptum við bankann.

Hljóðritun símtala

Landsbankinn áskilur sér rétt til að hljóðrita símtöl til að geta sannreynt efni þeirra. Bankinn áskilur sér jafnframt rétt til þess að nýta upplýsingarnar ef upp kemur ágreiningur milli aðila eða í öðrum þeim tilvikum sem bankinn telur nauðsynlegt.

Öll hljóðritun símtala er í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Skoðun og afhending upptaka er aðeins heimil ákveðnum starfsmönnum bankans og yfirvaldi, s.s. lögreglu og eftirlitsstofnunum.

Eftirlitsmyndavélar

Í útibúum og hraðbönkum Landsbankans fer fram eftirlit með stafrænum myndavélum. Er öll notkun eftirlitsmyndavélanna í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga.  Skoðun og afhending upptaka er aðeins heimil ákveðnum starfsmönnum bankans og yfirvaldi, s.s. lögreglu og sýslumannsembættum.

Meðferð persónuupplýsinga

Landsbankinn skal eingöngu óska eftir upplýsingum frá viðskiptavinum sínum sem nauðsynlegar eru fyrir bankann til að þjónusta þá eða lög eða reglur áskilja að aflað sé. Sama á við um upplýsingar sem bankinn aflar um viðskiptavini sína frá opinberum aðilum, s.s. frá þjóðskrá.

Upplýsingarnar skulu eingöngu notaðar í þeim tilgangi sem þeirra var aflað en í því skyni er Landsbankanum t.a.m. heimilt að afhenda öðrum félögum innan Landsbankasamstæðunnar persónuupplýsingar um viðskiptavini sína án samþykkis þeirra ef þjónusta við þá krefst þess. Viðskiptavinir bankans geta hins vegar óskað eftir því við bankann að afhending upplýsinga í þessum tilgangi fari ekki fram.

Bankanum er heimilt lögum samkvæmt að halda utan um og vinna með upplýsingarnar með rafrænum hætti. Viðskiptavinir bankans eiga rétt á að fá upplýst hvaða persónuupplýsingar bankinn hefur skráð um þá samkvæmt ákvæðum persónuverndarlaga.

Þagnarskylda

Starfsmenn Landsbankans eru bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptavina bankans og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara með samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Bankinn getur hins vegar gefið upplýsingar um viðskiptavini sína þegar þeir sjálfir óska þess eða hafa veitt samþykki sitt fyrir slíku.

Þrátt fyrir lögboðna trúnaðarskyldu gagnvart utanaðkomandi um málefni viðskiptavina er bankanum skylt samkvæmt lögum að veita opinberum aðilum (s.s. tollgæslu-, skatta- og lögregluyfirvöldum) slíkar upplýsingar undir ákveðnum kringumstæðum.

Landsbankinn gefur öðrum fjármálafyrirtækjum upp nöfn og kennitölur viðskiptavina bankans í þeim tilvikum þegar þeir sjálfir hafa óskað eftir millifærslu á reikning annars fjármálafyrirtækis. Er það gert m.a. svo viðtakandi greiðslunnar viti hver greiðandi hennar er.

Ábyrgð á tjóni

Landsbankinn ber ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinir hans verða sannanlega fyrir vegna mistaka eða vanrækslu starfsmanna bankans við framkvæmd samningsskyldna.

Landsbankinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem orsakast af:

 • Bilunum í samskipta- eða tölvukerfum bankans eða skemmdum í gagnaskrám óháð því hvort bankinn eða þriðji aðili ber ábyrgð á rekstri kerfanna.
 • Lagafyrirmælum, lögaldursákvæðum eða áþekkum ákvæðum, styrjöld eða styrjaldarógnunum, uppþotum, borgaralegum óeirðum, ofbeldisverkum, skemmdarstarfsemi, náttúruhamförum, verkföllum, verkbönnum, viðskiptabönnum og hafnbönnum, að því tilskildu að þau snerti hluta af starfsemi bankans.
 • Öðrum óviðráðanlegum aðstæðum.

Viðskiptavinir bankans bera ábyrgð á tjóni gagnvart bankanum sem rakið verður til ásetnings, vanrækslu eða stórfellds gáleysis af þeirra hálfu.

Kvartanir og ábendingar

Hafi viðskiptavinir Landsbankans einhverjar ábendingar eða kvartanir vegna þjónustu eða meintra mistaka Landsbankans og/eða starfsmanna hans við framkvæmd laga eða reglna geta þeir komið erindi sínu á framfæri með neðangreindum boðleiðum:

 • Með tölvupósti: kvartanir@landsbankinn.is
 • Bréfleiðis:
  Landsbankinn
  Þjónustumál
  Austurstræti 11
  155 Reykjavík
 • Símleiðis: 410-4000
 • Í næsta útibúi Landsbankans

Viðskiptavinir Landsbankans, sem telja á sig hallað í viðskiptum við bankann og finnst þeir ekki hafa fengið sanngjarna úrlausn sinna mála hjá bankanum, geta leitað til Umboðsmanns viðskiptavina. Hlutverk Umboðsmanns er að skoða mál sem honum berast af hlutleysi.

Hægt er að koma erindum á framfæri við Umboðsmann viðskiptavina þar sem gerð er grein fyrir viðkomandi máli, með neðangreindum boðleiðum

 • Bréfleiðis: 
  Umboðsmaður viðskiptavina Landsbankans,
  Austurstræti 11,
  155 Reykjavík.
 • Með tölvupósti: umbodsmadur@landsbankinn.is
 • Með viðtali. Tímapantanir í síma: 410-4000

Ef viðskiptavinir bankans eru ósáttir við þau svör eða þær úrlausnir sem þeim berast frá Landsbankanum geta þeir beint kvörtun sinni til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki:

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki,

Suðurlandsbraut 32,
108 Reykjavík
Sími: 525 2700
Fax: 525 2727
urskfjarm@fme.is

Til að óska eftir úrskurði nefndarinnar þarf að fylla út sérstakt eyðublað sem finna má á vef Fjármálaeftirlitsins eða á skrifstofu þess.

Sjá nánar vef Landsbankans um meðferð kvartana og vef Fjármálaeftirlitsins þar sem fram kemur m.a. hvaða kvartanir nefndin tekur til meðferðar.

Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta

Með lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, er innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf veitt lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis með stofnun sérstakrar stofnunar er nefnist Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta. Sjóðnum er skylt að greiða viðskiptavini viðkomandi fyrirtækis andvirði innstæðu og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf ef fyrirtækið er ekki fært að áliti Fjármálaeftirlitsins að inna af hendi slíka greiðslu sem viðskiptavinur hefur krafið fyrirtækið um endurgreiðslu eða skil á. Ákveðnar reglur gilda um fjárhæð til greiðslu ef eignir sjóðsins duga ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár. Sjá nánar lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og vef Tryggingarsjóðs innstæðueiganda og fjárfesta www.tryggingarsjodur.is.

Skilmálar þessir gilda fyrir alla viðskiptavini Landsbankans og koma í stað áður samþykktra skilmála sama efnis.

 

Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans (PDF útgáfa)