Sparireikningar - eldri skilmálar

Skilmálar innlánsreikninga (PDF útgáfa)

Almennir skilmálar innlánsreikninga (sparireikninga) sem voru í gildi til 19. nóvember 2017

 Nr. 1501-05  |  Janúar 2014

Stofnun

 • Við stofnun innlánsreikninga ber umsækjanda að sanna á sér deili með framvísun fullgildra persónuskilríkja, s.s. með vegabréfi, nafnskírteini eða ökuskírteini. Ef um lögaðila (fyrirtæki og félög) er að ræða, á þetta við um alla stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og prókúruhafa. Prókúruhafi lögaðila getur einn verið skráður með prókúru á þeim reikningum sem hann stofnar. Stjórn getur þó ávallt samþykkt skriflega að veita öðrum aðila prókúru á reikning lögaðila samkvæmt umboði.
 • Umsækjanda ber að fylla út spurningalista vegna laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
 • Ekki er heimilt að stofna innlánsreikning fyrir annan fjárráða aðila nema hann veiti umboð til þess.
 • Fyrir utan lögráðamenn geta eingöngu nánustu skyldmenni, þ.e. afar, ömmur og systkini, stofnað innlánsreikning fyrir ófjárráða einstakling.
 • Landsbankanum er heimilt að synja umsókn um innlánsreikning.

Útborganir

 • Skilyrði fyrir úttekt af innlánsreikningi er að innstæða reikningsins sé laus og að viðkomandi hafi heimild til úttektar, viti leyninúmer og sýni fullgild persónuskilríki.
 • Aðeins reikningseigandi hefur heimild til úttektar af innlánsreikningi nema hann hafi veitt öðrum aðila umboð til úttektar eða lög kveða á um annað.

Ávöxtun

 • Innlánsreikningar geta verið verðtryggðir eða óverðtryggðir. Upplýsingar um binditíma verðtryggðra innlánsreikninga er að finna í skilmálum einstakra reikninga.
 • Vextir eru breytilegir samkvæmt vaxtaákvörðun Landsbankans eins og hún er á hverjum tíma.
 • Innborganir bera vexti frá og með innborgunardegi og að útborgunardegi, nema skilmálar einstakra reikninga kveði á um annað.
 • Vextir leggjast við höfuðstól um áramót og þegar innlánsreikningur er eyðilagður, nema skilmálar einstakra reikninga kveði á um annað.
 • Innborgaðir vextir eru alltaf lausir til útborgunar nema skilmálar einstakra reikninga kveði á um annað.
 • Ef innlánsreikningur er verðtryggður eru verðbætur færðar í lok hvers mánaðar og bindast eins og binditími reikningsins kveður á um.
 • Fjármagnstekjuskattur reiknast af innborguðum vöxtum og er skuldfærður af viðkomandi reikningi. Á verðtryggðum innlánsreikningum reiknast fjármagnstekjuskattur jafnframt af verðbótum.

Aðrir skilmálar