Viðbótarlífeyrissparnaður

Skilmálar fyrir viðbótarlífeyrissparnað Landsbankans

1. gr. Gildissvið

Reglur þessar gilda um Viðbótarlífeyrissparnað Landsbankans. Lögheiti Landsbankans er Landsbankinn hf., kt. 471008-0280. Reglurnar eru settar með vísan til 10. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og 3. gr. reglugerðar nr. 698/1998, um ráðstöfun iðgjalds til viðbótarlífeyrissparnaðar og viðbótartryggingarverndar. Landsbankinn er rekstrar- og vörsluaðili viðbótarlífeyrissparnaðar samkvæmt reglum þessum.

Rétthafi er einstaklingur sem greitt er fyrir, greiðir eða greitt hefur iðgjald til vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar.

2. gr. Greiðsla iðgjalds

Rétthafi skal gera samning um viðbótarlífeyrissparnað við vörsluaðila og er iðgjald rétthafa séreign hans.

Iðgjaldið ber að greiða mánaðarlega og skulu greiðslur hefjast eigi síðar en tveimur mánuðum frá undirritun samnings um viðbótarlífeyrissparnað. Iðgjaldagreiðslutímabil skal eigi vera lengra en mánuður og skal gjalddagi vera tíunda næsta mánaðar, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997. Rétthafa ber að tilkynna vörsluaðila um þann aðila (launagreiðanda) er greiðir iðgjald hans á hverjum tíma.

Allar breytingar á hlutfalli greidds iðgjalds skal rétthafi tilkynna skriflega til vörsluaðila. Vörsluaðili ber ekki ábyrgð gagnvart rétthafa, maka hans, erfingjum eða öðrum á því að iðgjald berist frá launagreiðanda.

3. gr. Ávöxtun iðgjalds

Vörsluaðili ávaxtar iðgjald rétthafa í samræmi við ákvæði samnings aðila um viðbótarlífeyrissparnað.

Yfirlit yfir stöðu inneignar eru send til rétthafa tvisvar á ári.

4. gr. Útborgun

Rétthafi getur hafið úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði ásamt ávöxtun samkvæmt samningi um viðbótarlífeyrissparnað eða gert sérstakan útborgunarsamning við vörsluaðila, sbr. 5. gr. reglna þessara, tveimur árum eftir að fyrsta greiðsla iðgjalds hefur borist.

Útborgun getur þó ekki hafist fyrr en rétthafi hefur uppfyllt skilyrði 11. gr. laga nr. 129/1997 en þau eru eftirfarandi: 

  • Rétthafi hefur náð 60 ára aldri. Heimilt er að greiða inneign rétthafa út ásamt vöxtum í einu lagi eða dreifa greiðslum yfir lengra tímabil.
  • Verði rétthafi öryrki og örorkutapið sem hann verður fyrir er 100% á hann rétt á að fá viðbótarlífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Árleg útborgun lækkar og úttektartími lengist í hlutfalli við lækkun örorkuprósentu.
  • Við andlát rétthafa öðlast erfingjar rétt til inneignar hins látna hjá vörsluaðila og skiptist hún milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig börn eða maka skal inneign renna til dánarbús rétthafa án takmarkana samkvæmt 2. ml. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.
  • Sé innstæða undir kr. 500.000 greiðir vörsluaðili inneign út í einu lagi, óski rétthafi þess. Þessi viðmiðunarfjárhæð skal breytast árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

Með jöfnum greiðslum hér að ofan er átt við jafnar greiðslur að tiltölu við fjölda greiðsluára þannig að rétthafi (eða þeir sem leiða rétt sinn frá honum) fái á hverju ári þann hlut af inneigninni, að meðtöldum tekjum vegna hennar, sem samsvarar tölu þeirra ára er eftir standa af endurgreiðslutímanum.

5. gr. Sérstakur útborgunarsamningur

Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. reglna þessara um jafnar greiðslur er rétthafa og vörsluaðila heimilt að gera sérstakan samning um mánaðarlega útborgun tiltekinnar krónutölu sem fylgir vísitölu neysluverðs. Slíkur samningur getur að hluta eða öllu leyti verið til ákveðins tíma, sbr. 11. gr. laga nr. 129/1997 um lágmarkstíma. Rétthafi skal tilkynna vörsluaðila skriflega hyggist hann gera slíkan samning með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara áður en útborgun hefst. 

6. gr. Ráðstöfunarréttur

Rétthafa er heimilt að ráðstafa innstæðu sinni og flytja réttindi sín til annars viðurkennds vörsluaðila. Kostnaður vegna flutnings er samkvæmt verðskrá Landsbankans á hverjum tíma en þó að hámarki 2% af verðmæti fluttra réttinda.

7. gr. Uppsögn samnings

Samningi um viðbótarlífeyrissparnað má segja upp með tveggja mánaða fyrirvara. Uppsögnin skal vera skrifleg og send afgreiðslustað Landsbankans. Uppsögn veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda en rétthafi hefur heimild til ráðstöfunar innstæðu í samræmi við 6. gr. reglna þessara.

8. gr. Framsal

Rétthafa er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa inneign og tekjum af inneign viðbótarlífeyrissparnaðar. Ekki verður gerð aðför í réttindum samkvæmt reglum þessum og enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða þessi réttindi á nokkurn hátt.

9. gr. Skattaleg meðferð viðbótarlífeyrissparnaðar

Inneign og tekjur vegna hennar samkvæmt samningi um viðbótarlífeyrissparnað lúta gildandi skattalögum eins og þau eru á hverjum tíma.

10. gr. Breyting á reglum um Viðbótarlífeyrissparnað Landsbankans

Landsbankanum er heimilt að breyta reglum þessum. Breytingar öðlast gildi þegar þær hafa verið staðfestar af fjármálaráðherra að fenginni umsögn opinbers eftirlitsaðila sbr. 10. gr. laga nr. 129/1997.

11. gr. Aðrir skilmálar

Að öðru leyti gilda Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans eftir því sem við á.

 Reglur um viðbótarlífeyrissparnað Landsbankans