Bankaráð

Bankaráð Landsbankans er kjörið á aðalfundi til árs í senn og eru kjörnir 7 aðalmenn og 2 til vara.

Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir. Bankaráð mótar almenna stefnu bankans og skal annast um að skipulag og starfsemi bankans sé jafnan í réttu horfi. Bankaráð skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri bankans og að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.

Starfsreglur bankaráðs

Sérstakar starfsnefndir bankaráðs

Bankaráð Landsbankans skipa:

Aðalmenn

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður

Helga Björk Eiríksdóttir er fædd árið 1968. Helga Björk er framkvæmdastjóri Integrum, sem starfar á sviði fasteignaþróunar og ráðgjafar. Hún var áður fjárfesta- og almannatengill hjá Marel ásamt því að gegna formennsku í stjórn Sparisjóðs Svarfdæla. Helga Björk er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Edinborg. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í ensku og ítölsku frá Háskóla Íslands 1997 og lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun 1999 frá sama skóla. Helga Björk lauk prófi í markaðs- og útflutningsfræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 2002 og hefur lagt stund á verðbréfaviðskiptanám við Háskólann í Reykjavík. Á árunum 2010-2012 starfaði hún við sjálfstæða ráðgjöf. Hún hafði umsjón með samskiptamálum fyrir skilanefnd og slitastjórn Kaupþings hf. á árunum 2009 og 2010. Áður starfaði Helga Björk m.a. sem markaðs- og kynningarstjóri Nasdaq OMX kauphallarinnar á Íslandi um átta ára skeið. Helga Björk hefur einnig starfað við fjölmiðla, sinnt ýmsum öðrum störfum og var lengi starfsmaður Sparisjóðs Svarfdæla á Dalvík. Helga Björk var kjörin í bankaráð Landsbankans í apríl 2013. Hún er formaður bankaráðs ásamt því að gegna formennsku í Starfskjaranefnd.

Magnús Pétursson, varaformaður

Magnús Pétursson er fæddur árið 1947. Magnús lauk prófi í hagfræði BA Econ. (Hons) frá háskólanum í York á Englandi árið 1971. Hann stundaði síðan framhaldsnám í hagfræði og skipulagsfræði við Lundarháskóla og Háskólann í Umeå í Svíþjóð 1973-1976. Magnús starfaði sem skrifstofustjóri Fjárlaga- og hagsýslustofnunar 1976-1981 og var hagsýslustjóri hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun 1981-1988. Hann var ráðgjafi og aðstoðarforstjóri á skrifstofu Norðurlandanna í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1988-1990. Á árunum 1991-1998 gegndi hann starfi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis. Hann var skipaður forstjóri Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur 1. janúar 1999 og í framhaldi af því var hann ráðinn forstjóri hins sameinaða sjúkrahúss, Landspítala – háskólasjúkrahúss, þar sem hann starfaði fram til ársins 2008. Hann gegndi síðan stöðu ríkissáttasemjara á árunum 2008-2015. Magnús hefur átt sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum fyrir hið opinbera, þ. á m. framkvæmdanefnd vegna byggingar nýs Landspítala, 2005-2008, nefnd heilbrigðisráðherra um verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu, 2003-2006, nefnd um staðarval nýs háskólasjúkrahúss 2001-2002, stefnunefnd Landspítala og Háskóla Íslands um samskipti Landspítala og Háskóla Íslands 2001-2008 og þróunarnefnd Háskóla Íslands. Þá hefur hann á starfsferli sínum setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félaga, ásamt því að taka þátt í alþjóðlegu starfi á vegum hins opinbera. Magnús var kjörinn í bankaráð í apríl 2016 og er nú varaformaður.

Berglind Svavarsdóttir

Berglind Svavarsdóttir er fædd árið 1964. Hún er hæstaréttarlögmaður og meðeigandi hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur. Berglind lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1989, öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1995 og sem hæstaréttarlögmaður árið 2008. Berglind er með diplóma í stjórnun frá Háskólanum á Akureyri 2006. Hún starfaði hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins á árunum 1988-1989 og sýslumanninum á Húsavík 1990-1996. Hún rak eigin lögmannsstofu og fasteignasölu 1996-2003, var meðeigandi Regula lögmannsstofu ehf. 2003-2010 og meðeigandi Acta lögmannsstofu á árunum 2011-2016, sem sameinaðist Lögfræðistofu Reykjavíkur 1. apríl 2016 Berglind hefur gegnt ýmsum stjórnarstörfum og hefur setið í stjórn Lögmannafélags Íslands frá árinu 2015 og er núverandi varaformaður félagsins. Hún sat í slitastjórn SPB hf. 2009-2016 og endurupptökunefnd ad hoc 2014-2017. Einnig átti hún sæti í dómnefnd um umsækjendur um að vera tilnefndir af Íslands hálfu sem dómarar í MDE 2013, í stjórn Félags kvenna í lögmennsku 2008-2010 og var varamaður í úrskurðarnefnd lögmanna 2005-2015. Berglind var kjörin í bankaráð í apríl 2016.

Einar Þór Bjarnason

Einar Þór Bjarnason er fæddur árið 1962. Hann hefur starfað sem meðeigandi og rekstrarráðgjafi hjá Intellecta m.a. á sviði stefnumótunar og breytingastjórnunar frá árinu 2001. Hann lauk prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og meistaragráðu í iðnaðar- og framleiðsluverkfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum árið 1992. Þá lauk hann einnig MBA námi frá Norwegian School of Management í Osló árið 1997. Einar Þór starfaði sem verkefnisstjóri hjá Eimskip 1987-1989 og hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins 1989-1991 en hefur starfað sem ráðgjafi frá 1992, fyrst hjá Ráðgarði 1992-1996 og hjá Accenture í Noregi 1997-2000. Árið 2000 tók hann þátt í stofnun ráðgjafarfyrirtækisins Cell Strategy í Noregi og starfaði þar á árunum 2000-2001 sem stjórnandi. Einar Þór sat í stjórn AFLS Sparisjóðs á Siglufirði 2013-2015. Hann hefur setið í stjórnum íslenskra fyrirtækja og samtaka og sat m.a. í stjórnum Stjórnvísi og Íslensku ánægjuvogarinnar. Hann gegnir nú stjórnarformennsku í Intellecta ehf. Einar Þór var kjörinn í bankaráð í apríl 2016.

Hersir Sigurgeirsson

Hersir Sigurgeirsson er fæddur árið 1972. Hann er dósent í fjármálum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Hersir lauk BSc-prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 1995, meistaraprófi í fjármálastærðfræði frá Stanford University árið 1999 og doktorsprófi í hagnýtri stærðfræði frá sama skóla 2001. Hann hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann starfaði sem sérfræðingur í hugbúnaðargerð hjá Integral í Bandaríkjunum 1999 og sem sérfræðingur í gagnarannsóknum hjá Íslenskri erfðagreiningu 2001-2002. Hersir var sérfræðingur hjá Kaupþingi banka á árunum 2003-2006 m.a. í áhættustýringu og eigin viðskiptum. Á árunum 2006-2010 gegndi hann stöðu lektors í fjármálum við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann starfaði um árabil fyrir Saga Capital á Akureyri, fyrst sem framkvæmdastjóri áhættustýringar og rekstrar 2006-2011 og síðar forstjóri 2011-2012. Einnig starfaði hann sem ráðgjafi hjá Alþjóðabankanum í Washington 2013-2015. Hersir var stjórnarformaður hjá fjármálafyrirtækinu T Plús hf., Akureyri, 2009-2014 og stjórnarformaður hjá Straumi sjóðum hf., Reykjavík, 2014-2015. Hann hefur setið í WACC-nefnd Orkustofnunar frá árinu 2014. Þá hefur hann undanfarin ár verið sérfróður meðdómari og dómkvaddur matsmaður í fjölda dómsmála vegna verðmats, skattamála o.fl. og veitt margvíslega ráðgjöf og sérfræðiþjónustu varðandi fjármál fyrirtækja, bankastarfsemi og fjármálamarkaði. Hersir var kjörinn í bankaráð í apríl 2016 og er formaður Áhættunefndar.

Jón Guðmann Pétursson

Jón Guðmann Pétursson er fæddur árið 1959. Hann lauk Cand. oecon. prófi frá Viðskiptadeild Háskóla Íslands árið 1982 og starfaði sem viðskiptafræðingur hjá Endurskoðunarskrifstofu Björns & Ara árin 1982-1983. Jón var fjármálastjóri sjálfseignarstofnana Varnarliðsins árin 1984-1987, fjármálastjóri Hampiðjunnar árin 1987-2002 og forstjóri árin 2002-2014. Jón hefur setið í stjórnum fjölmargra innlendra og erlendra fyrirtækja, þar á meðal í stjórn Hampiðjunnar árin 2006-2014 og í stjórnum dótturfélaga hennar í Danmörku, Írlandi, Litháen og fleiri löndum, stjórn Royal Iceland 2013-2014, stjórn Iceland Seafood International árin 2009-2011, stjórn Vaka árin 2002-2004 og í stjórn Kauphallar Íslands árin 1996-1999. Þá var Jón í reikningsskilaráði Íslands árin 2001-2004 og sat í stjórn Lífeyrissjóðs Framsýnar árin 2002-2005. Jón Guðmann var kjörinn í bankaráð í apríl 2016 og er formaður Endurskoðunarnefndar.

Sigríður Benediktsdóttir

Sigríður Benediktsdóttir er fædd 1972. Hún starfar nú við rannsóknir og kennslu við Yale háskóla í Bandaríkjunum. Sigríður lauk BSc-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 1995 og BSc-prófi í tölvunarfræðum frá sama skóla 1998. Sigríður lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale háskóla í maí 2005. Á árunum 1995-1997 starfaði Sigríður hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og sem verkefnisstjóri og ráðgjafi hjá Hugviti hf. 1997-1998. Hún starfaði sem hagfræðingur hjá Seðlabanka Bandaríkjanna á árunum 2005-2007. Frá 2007 starfaði Sigríður sem kennari og aðstoðarmaður deildarforseta við hagfræðideild Yale háskóla í Bandaríkjunum. Samhliða því stundaði hún rannsóknir á sviði fjármálahagfræði, með áherslur á fjármálamarkaði. Hún var skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið árið 2008 og átti sæti í kerfisáhætturáði Danmerkur 2013-2016. Sigríður Benediktsdóttir var ráðin til Seðlabanka Íslands sem framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika árið 2011 og gegndi því starfi til ársins 2016. Sigríður er í fjármálastjórn sjálfseignarstofnunarinnar New Haven Reads sem aðstoðar börn frá efnaminni heimilum við lestrarnám og annað nám. Hún hefur gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum og ritað fjölda fræðigreina.

Varamenn

Samúel Guðmundsson

Samúel Guðmundsson er fæddur árið 1967. Hann starfar sem framkvæmdastjóri Sjávarkaupa hf., Food Diagnostic Ísland ehf. og S67 ehf. Samúel lauk viðskiptafræðiprófi, Cand. oecon., frá Háskóla Íslands árið 1991 og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007. Hann á að baki langan starfsferil hjá Olís hf. sem deildarstjóri hagdeildar 1992-1995, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs 1995-1996, framkvæmdastjóri fjárfestinga- og áhættustýringarsviðs 1997-2006, framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs 2006-2013 og framkvæmdastjóri heildsölu- og rekstrarvörusviðs 2013-2014. Samúel situr nú í stjórn S67 ehf. og Food Diagnostic Ísland ehf., en áður hefur hann setið m.a. í stjórnum Flutningsjöfnunarsjóðs 2004-2014, stjórn Gasfélagsins 2002-2005, varastjórn Olíudreifingar 2002 og stjórn Ellingsen 1999-2000. Samúel var kjörinn varamaður í apríl 2016.Nefndarmaður í endurskoðunarnefnd bankaráðs

Stefán Svavarsson

Stefán Svavarsson situr í endurskoðunarnefnd bankaráðs Landsbankans sem utanaðkomandi sérfræðingur á sviði reikningsskila og endurskoðunar. Hann lauk BSc. í viðskiptafræði með áherslu á reikningshald og endurskoðun frá Ríkisháskólanum í Ohio árið 1970 og hlaut löggildingu sem endurskoðandi árið 1975. Hann hefur víðtæka reynslu sem endurskoðandi og hefur stundað kennslu í endurskoðun við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann í Bifröst um langt árabil. Stefán starfaði sem innri endurskoðandi hjá Kraftco Inc. í Bandaríkjunum á árunum 1970 og 1971 og svo sem fulltrúi hjá Ríkisendurskoðun á árinu 1972. Frá 1972 til 1984 starfaði Stefán og var meðeigandi hjá Endurskoðunarskrifstofu Svavars Pálssonar. Stefán var skipaður lektor í endurskoðun við Háskóla Íslands árið 1975 og dósent tíu árum síðar. Á árunum 2004 og 2005 starfaði Stefán hjá Landsvirkjun, en árið 2005 var hann skipaður dósent og forstöðumaður meistaranáms í endurskoðun við Háskólann í Reykjavík og sinnti þar kennslustörfum til vors 2013. Á árunum 2006-2009 starfaði Stefán hjá Seðlabanka Íslands. Hann hefur gegnt stöðu prófessors við Háskólann á Bifröst frá árinu 2009. Meðfram kennslu starfsrækti Stefán eigin endurskoðunarstofu á árunum 1984 – 1998. Stefán hefur gegnt margvíslegum nefndarstörfum á sviði endurskoðunar svo sem í fagnefndum á vegum Félags löggiltra endurskoðenda og var formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins 2001 - 2006. Stefán situr nú í endurskoðunarnefnd Lífeyrissjóðs bankamanna.