Húsnæðismál Landsbankans

7. febrúar 2020

Mikið hagræði af því að flytja í nýtt húsnæði

Nýtt hús Landsbankans við Austurhöfn mun kosta um 11,8 milljarða króna og sá hluti sem bankinn mun nýta mun kosta um 7,5 milljarða kr. Samkvæmt frumáætlun frá 2017 var reiknað með 9 milljarða kr. kostnaði sem jafngildir rúmlega 10 milljörðum kr. í dag, miðað við þróun byggingavísitölu.

  • Ákvörðun um að byggja nýtt húsnæði fyrir bankann við Austurhöfn í maí 2017 var tekin á grundvelli frumáætlunar sem miðaði við að kostnaður við að byggja skrifstofu- og þjónustuhúsnæði fyrir bankann yrði um 9 milljarðar króna, að lóðarverði meðtöldu.
  • Sú fjárhæð sem miðað var við árið 2017 jafngildir rúmlega 10 milljörðum króna í dag, að teknu tilliti til þróunar á byggingavísitölu.
  • Við mat á tillögum sem bárust í hönnun hússins var ljóst að bygging húss fyrir bankann myndi fela í sér meiri kostnað en miðað var við í frumáætluninni frá 2017 og samþykkti bankaráð að haldið yrði áfram með verkefnið á grundvelli nýrrar kostnaðaráætlunar. Verkefnið hefur síðan verið rekið í samræmi við nýja kostnaðaráætlun og hafa þau tvö útboð sem þegar hafa farið fram verið í samræmi við hana.
  • Auk þess var sumarið 2019 tekin ákvörðun um að húsið yrði umhverfisvottað samkvæmt alþjóðlega BREEAM-staðlinum sem snýr m.a. að umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góðri orkunýtingu og vatnssparnaði, vali á umhverfisvænum byggingarefnum og lágmörkun ýmiskonar mengunar frá byggingu.
  • Samkvæmt uppfærðri kostnaðaráætlun verður heildarkostnaður vegna byggingar hússins um 11,8 milljarðar króna.
  • Húsið verður því um 1,8 milljörðum króna dýrara en frumáætlun frá árinu 2017 gerði ráð fyrir, að teknu tilliti til þróunar byggingarvísitölu.
  • Landsbankinn mun nýta 60% hússins, eða um 10.000 fermetra, en leigja frá sér eða selja 40% hússins, eða um 6.500 fermetra.
  • Kostnaður við þann hluta sem bankinn mun nýta er áætlaður um 7,5 milljarðar króna.
  • Sparnaður bankans vegna flutninganna er áætlaður um 500 milljónir króna á ári.
  • Núverandi húsakostur bankans í miðborg Reykjavíkur er bæði óhentugur og óhagkvæmur en bankinn er þar að stærstum hluta í leiguhúsnæði. Bankinn mun flytja starfsemi úr 12 húsum í miðborginni ásamt stærstum hluta Borgartúns 33 undir eitt þak í nýju húsi.

Fjallað er um húsnæðismál Landsbankans í ávarpi formanns bankaráðs í ársskýrslu 2019

17. maí 2017

Landsbankinn hefur lengi haft hug á að koma miðlægri starfsemi undir eitt þak, enda eru núverandi húsakynni í miðborg Reykjavíkur óhentug og óhagkvæm. Höfuðstöðvar bankans í Kvosinni eru nú í 13 húsum en aðeins fjögur þeirra eru í eigu bankans. Stór hluti þessa húsnæðis nýtist afar illa. Auk þessa rekur bankinn miðlæga starfsemi í Borgartúni og Álfabakka og er með geymslur og aðra starfsemi á þremur stöðum til viðbótar.

Markmiðið með flutningum í nýtt hús er að ná fram hagræðingu, auka skilvirkni og mæta kröfum um breytt vinnulag í fjármálaþjónustu.

Minna húsnæði en áður var gert ráð fyrir

Með flutningi í nýtt húsnæði mun starfsemi sem í dag fer fram á um 21.000 m2 rúmast á um 10.000 m2. Þetta er umtalsvert minna húsnæði en áður var gert ráð fyrir. Það sem einkum skýrir minni húsnæðisþörf er að ákveðið hefur verið að í nýju húsi verði svokölluð verkefnamiðuð vinnuaðstaða sem þýðir m.a. að starfsfólk geti fært sig til eftir því sem verkefni krefjast. Ekki er raunhæfur möguleiki á að taka upp slíkt vinnulag í núverandi húsakynnum.

Brýnt er að finna lausn á húsnæðismálum bankans því talið er að árlegur sparnaður við að flytja í nýtt hús nemi um 500 milljónum króna á ári.

Höfuðstöðvar Landsbankans
Starfsemi Landsbankans í húsunum sem sjást á myndinni hér fyrir ofan mun færast undir eitt þak í nýju húsi. Einnig verður hægt að loka einni geymslu bankans á höfuðborgarsvæðinu en bankinn verður þar áfram með eina geymslu.

Ýmsir kostir í húsnæðismálum skoðaðir

Landsbankinn keypti árið 2014 lóð við Austurhöfn í Reykjavík með það í huga að þar risi nýtt hús fyrir höfuðstöðvar bankans. Í kjölfar gagnrýni var áformum um hönnunarsamkeppni frestað sumarið 2015 og ákveðið að fara yfir fram komin sjónarmið.

Undanfarið hefur bankinn skoðað ýmsa kosti í húsnæðismálum í samvinnu við ráðgjafarfyrirtækið KPMG. Þeir þættir sem horft var til í mati KPMG á mismunandi staðarvalkostum voru hagkvæmni, verðgildi hússins til framtíðar, samgöngur, staðsetning, skipulagsmál, sveigjanleiki húsnæðis og þjónusta og mannlíf í nágrenninu. Fjölbreytt starfsemi bankans gerir það að verkum að bankinn telur þörf á að vera með starfsemi sína miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Meðal kosta sem voru sérstaklega skoðaðir voru lóðir í grennd við Borgartún, Kringlu og Smáralind. Niðurstaðan var að Austurhöfn er ákjósanlegasti kosturinn þegar tekið er tillit til allra ofangreindra atriða.

Verðmætustu hlutar hússins á neðri hæðum seldir eða leigðir út

Lóðarverðmæti í Austurhöfn er mikið en það á fyrst og fremst við um þann hluta byggingarinnar sem er ætlaður fyrir aðra þjónustu og verslun á neðri hæðum hússins. Byggingaréttur á lóðinni er 16.500 m2, þar af 2.000 m2 í kjallara. Bankinn ætlar að nýta 10.000 m2, eða um 60% hússins, en selja eða leigja frá sér 6.500 m2, þ.m.t. verðmætustu hluta hússins á neðri hæðum. Starfsemi bankans verður einkum á efri hæðum hússins en samkvæmt mati sem fasteignasala gerði fyrir bankann er fermetraverð á efri hæðunum sambærilegt við fermetraverð í skrifstofuhúsnæði á öðrum góðum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Byggingin býður upp á að efri hæðirnar verði hannaðar að þörfum Landsbankans og styðji við breytt vinnulag og verkefnamiðaða vinnuaðstöðu. Húsnæðið verður hannað með það í huga að hægt verði að aðlaga það að breytingum á starfsemi bankans.

Lóðin er tilbúin og engin óvissa um skipulagsmál

Lóðin við Austurhöfn er tilbúin til framkvæmda og engin óvissa er um skipulagsmál á svæðinu.

Samkvæmt mati Mannvits verkfræðistofu er kostnaður við að reisa 16.500 m2 hús tæpir 9 milljarðar króna, að lóðarverði meðtöldu. Að teknu tilliti til þess að bankinn mun selja og/eða leigja 6.500 m2 er gert ráð fyrir að kostnaður bankans við þann hluta hússins sem hann mun nýta verði um 5,5 milljarðar króna. Á móti kæmi söluverðmæti þeirra fasteigna sem bankinn getur selt við flutningana.

Bankinn mun leggja mikla áherslu á að kostnaður fari ekki fram úr áætlunum og mun leita aðstoðar ytri aðila við að stýra framkvæmdum.