Fjármál

Hlutverk og skipulag Fjármála

Fjármál er blandað tekju- og stoðsvið. Sviðinu er skipt upp í 8 deildir; Fjárstýringu, Hagdeild, Hagfræðideild, Lánaumsjón, Lögfræðideild, Reikningshald, Rekstur og Viðskiptaumsjón.


Fjárstýring

Helstu verkefni Fjárstýringar eru lausafjárstýring og fjármögnun bankans, eigna- og skuldastýring (ALM) viðskiptavakt á peningamarkaði og stýring á innri verðlagningu fjármagns í bankanum. Fjárstýring annast einnig samskipti við Seðlabankann, innlendar og erlendar fjármálastofnanir og matsfyrirtæki. Fjárstýring gerir jafnframt tillögur að breytingum á vaxtatöflu bankans og ákvarðar sérkjör á bankareikningum í samráði við útibú.

Hagdeild

Hagdeildin hefur umsjón með áætlanagerð bankans. Þá er uppbygging og miðlun stjórnendaupplýsinga stór hluti af starfsemi Hagdeildar. Hagdeild hefur jafnframt greiningar- og eftirlitshlutverki að gegna innan bankans. Deildin verk- og ritstýrir ICAAP-ferli bankans (eiginfjárþörf og eiginfjárstýring).

Hagfræðideild

Hagfræðideild gegnir lykilhlutverki við að móta sameiginlega sýn Landsbankans á þróun og horfur í efnahagslífinu innanlands og utan. Hún annast greiningu á hagkerfinu og gefur út þjóðhags- og verðbólguspá, auk þess að sinna atvinnuvegagreiningum og öðrum sérhæfðari verkefnum. Deildin annast einnig greiningu og verðmat á skráðum félögum á markaði.

Lánaumsjón

Lánaumsjón hefur umsjón með öllum lánum, tryggingaskjölum og ábyrgðum útgefnum af bankanum bæði til einstaklinga og fyrirtækja, allt frá skjalagerð til útgreiðslu, innheimtu og uppgreiðslu lána, bankaábyrgða og erlendra skjalainnheimtna.

Lögfræðideild

Lögfræðideild annast lögfræðileg mál bankans. Helstu verkefni deildarinnar eru ráðgjöf til bankans og dótturfélaga varðandi hvers konar lögfræðileg álitaefni, málflutningur fyrir héraðsdómi, undirbúningur mála fyrir úrskurðarnefnd fjármálafyrirtækja, skjalagerð og samskipti við eftirlitsaðila einkum Fjármálaeftirlit og Samkeppniseftirlit. Lögfræðideildin hefur jafnframt umsjón með innheimtu vanskilakrafna fyrir bankann og annast skuldaúrlausnir fyrir einstaklinga.

Reikningshald

Reikningshaldið ber ábyrgð á fjárhagsbókhaldi bankans sem felur m.a. í sér afstemmingar undirkerfa og eftirlit með viðskiptum. Reikningshaldið sér um mánaðar-, ársfjórðungs- og ársuppgjör samstæðu bankans. Reikningshald hefur jafnframt umsjón með skráningu og greiðslu allra kostnaðarreikninga bankans.

Rekstur

Innan Reksturs eru þrjár einingar; Eignadeild, Fullnustueignir og Aðalféhirðir.

Eignadeild sér um framkvæmdir á vegum bankans, allan rekstur og umsýslu fasteigna og viðhald á eignum. Eignadeild sér auk þess um rekstur mötuneytis auk þess sem ýmis þjónusta við starfsfólk er hluti af starfsemi deildarinnar.

Fullnustueignir sjá um alla umsýslu og sölu fullnustueigna bankans.

Aðalféhirðir hefur umsjón með innlendum og erlendum sjóði bankans. Annast afgreiðslu á seðlum og mynt til útibúa sem og talningu og móttöku á innleggjum. Sér um áfyllingu á hraðbönkum utan útibúa o.fl.

Viðskiptaumsjón

Viðskiptaumsjón annast bakvinnslu bankans. Undir starfsemina heyrir varsla og frágangur viðskipta, bakvinnsla lífeyrissjóða, alþjóðleg greiðslumiðlun og bókhald sjóða og bakvinnsla.

 

Skipurit Fjármála