Upplýsingatækni

Hlutverk og skipulag Upplýsingatæknisviðs

Upplýsingatæknisvið ber ábyrgð á rekstri, öryggi og framþróun stafrænna innviða Landsbankans. Þessari ábyrgð sinnir starfsfólk sviðsins með umsjón á innkaupum, uppsetningu, rekstri, viðhaldi, þjónustu, þróun stafrænna innviða og þátttöku í þróun stafrænnar þjónustu. Sviðinu er ætlað að tryggja öruggt aðgengi viðskiptavina og starfsmanna að kerfum, gögnum bankans og stafrænni þjónustu og að bankinn verði áfram leiðandi afl í upplýsingatækni á íslenskum fjármálamarkaði.

Undir Upplýsingatæknisvið falla sex deildir: Kerfisrekstur, Hugbúnaðarlausnir, Vefdeild, UT þjónusta, Högun og Upplýsingagreind.


Kerfisrekstur

Meginhlutverk Kerfisreksturs er rekstur og uppbygging tæknilegra innviða tölvukerfa bankans með áherslu á hámörkun uppitíma, afkasta og öryggis við notkun þeirra. Kerfisrekstur sér jafnframt um rekstur vélbúnaðar bankans auk aðgangs- og vinnslustjórnunar.

Hugbúnaðarlausnir

Hugbúnaðarlausnir reka, viðhalda, þróa og aðlaga innri og aðkeypt viðskiptakerfi bankans ásamt því að vera virkir aðilar í samstarfi við birgja. Hugbúnaðarlausnir marka og framkvæma stefnu bankans í útfærslu á viðskiptavirkni og hvernig hún er gerð aðgengileg með forritunarskilum. Þróun og rekstur lausna og stafrænnar þjónustu fer fram í samstarfi við vörueigendur og ábyrgðaraðila kerfa.

Vefdeild

Vefdeild hefur umsjón með viðmóti, hönnun, þróun og ritstjórn vefsvæða bankans auk sjálfsafgreiðslulausna í náinni samvinnu við ábyrgðaraðila á sviði upplýsingatækni, vöruþróunar, markaðsmála og almannatengsla.

UT þjónusta

Hlutverk UT Þjónustu er að veita starfsfólki bankans aðstoð við notkun á vél- og hugbúnaði og deildin er fyrsti snertiflötur notenda við Upplýsingatæknisvið. Deildin miðlar með virkum hætti upplýsingum til starfsfólks um breytingar, viðhaldstíma, vandamál og lausnir sem geta haft áhrif á störf fólks eða hagnýtingu viðskiptavina á stafrænum dreifileiðum bankans.

Högun

Högun leiðir mótun á tæknilegu landslagi bankans, umsjón innkaupa, ferlagreiningu og verkefnastjórnun stærri verkefna. Högun markar verklag bankans varðandi skjalastjórnun. Deildin sér um samningastjórnun og eftirfylgni athugasemda eftirlitsaðila gagnvart Upplýsingatæknisviði.

Upplýsingagreind

Hlutverk Upplýsingagreindar er að vera drifkraftur í hagnýtingu upplýsinga til ákvörðunartöku og bættrar þjónustu við viðskiptavini. Deildin sinnir þessu hlutverki með því annars vegar að tryggja gæði, áreiðanleika og aðgengi að vöruhúsi gagna og hins vegar með þjónustu, þjálfun og umsjón á viðskiptagreindarumhverfi bankans.


Skipurit Upplýsingatæknisviðs