Starfsreglur bankaráðs

Reglur nr. 201801-0454-10| Uppfærðar í mars 2019 | Endurskoðun 2020| Bankaráð

1. gr. Skipan bankaráðs

1.1. Bankaráð er kjörið á aðalfundi til eins árs í senn, í samræmi við samþykktir bankans.

1.2. Bankaráðsmenn skulu uppfylla hæfisskilyrði þau sem útlistuð eru í 52. og 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Ef bankaráðsmann brestur hæfi til að sinna bankaráðssetu skal hann skilyrðislaust víkja sæti og varamaður taka sæti hans. Varamaður heldur sæti sínu til næsta aðalfundar er kosið verður í bankaráð.

1.3. Bankaráðsmaður getur hvenær sem er tilkynnt um afsögn sína. Bankaráðsmaður skal senda bankaráði tilkynningu um afsögn sína.

1.4. Bankaráð skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu og fyrirtækjaskrá sé tilkynnt um skipan og síðari breytingar á bankaráði og bankastjóra og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort hæfisskilyrðum 52. og 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sé fullnægt.

2. gr. Skipting starfa

2.1. Formaður bankaráðs er kosinn sérstaklega á hluthafafundi. Bankaráð kýs sér varaformann á fyrsta bankaráðsfundi eftir kjör þess og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kosning ræðst af einföldum meirihluta, en verði atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns úrslitum. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans.

2.2. Bankaráð getur í sérstökum tilvikum falið einstökum bankaráðsmönnum tiltekin mál til athugunar og undirbúnings til afgreiðslu á bankaráðsfundi og skal bóka um slíkt í fundargerð. Verkaskipting hefur ekki í för með sér að bankaráðsmenn séu undanþegnir eftirlitsskyldu sinni eða öðrum lögbundnum hlutverkum.

3. gr. Hlutverk bankaráðs

3.1. Bankaráð fer með málefni bankans og skal annast um að skipulag hans og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við lög, reglur og kröfur eftirlitsaðila. Bankaráð fer með æðsta vald í málefnum bankans á milli hluthafafunda og hefur eftirlit með daglegum rekstri. Bankaráðið hefur lögbundnu hlutverki að gegna sem því ber sjálfu að annast nema heimild sé veitt í lögum til að framselja valdið með umboði. Bankaráð skal árlega skilgreina mikilvægustu verkefni sín á komandi starfsári.

3.2. Bankaráð ber ábyrgð á starfsemi og stefnumótun bankans, sem og áhættustefnu, og að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits sem samræmist lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og reglum settum með stoð í þeim. Bankaráð ber ábyrgð á að fullnægjandi eftirlit sé viðhaft með bókhaldi og að meðferð fjármuna bankans sé í samræmi við lög og reglur sem um starfsemina gilda. Bankaráð ber jafnframt ábyrgð á að stjórnarhættir og innra skipulag stuðli að skilvirkri og varfærinni stjórn bankans, aðskilnaði starfa og að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra. Bankaráð fylgist jafnframt með að dótturfélög starfi í samræmi við viðurkennd viðmið um innri og ytri stjórnarhætti og getur óskað eftir áliti Innri endurskoðanda á eftirfylgni dóttufélaga með þeim viðmiðum.

3.3. Bankaráð skilgreinir í starfsáætlun fyrir hvert ár þær reglubundnu upplýsingar sem leggja skal fyrir bankaráð, m.a. í samræmi við lög, reglur og tilmæli Fjármálaeftirlitsins, og ákvarðar hvernig þeim skuli komið á framfæri við ráðið.

3.4. Bankaráð skal sjá til þess, ásamt bankastjóra, að hagsmunum og jafnræði allra hluthafa sé gætt og að upplýsingagjöf til þeirra og annarra hagsmunaaðila sé viðeigandi og í samræmi við reglur kauphallar hafi Landsbankinn tekið fjármálagerninga til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði.

3.5. Helstu hlutverk bankaráðs er varða stefnumótun og stjórnun eru:

3.5.1. Að hafa forystu, ásamt bankastjóra, um að móta stefnu, viðskiptaáætlun og meginskipulag og setja Landsbankanum markmið til skemmri og lengri tíma.

3.5.2. Að verja hæfilegum tíma í að fjalla um helstu áhættuþætti í starfsemi bankans, tryggja að nægjanlegum fjármunum og tíma sé varið í virka áhættustjórnun og áhættumat þannig að innan bankans sé yfirsýn yfir helstu áhættuþætti.

3.5.3. Að samþykkja áhættustefnu, áhættuvilja, mörk fyrir helstu tegundir áhættu og framkvæmd áhættustýringar, að fenginni tillögu bankastjóra þar sem álit framkvæmdastjóra Áhættustýringar kemur fram, auk umfjöllunar Áhættunefndar.

3.5.4. Að tryggja að innri ferlar vegna áhættustjórnunar séu yfirfarnir eigi sjaldnar en árlega. Til slíkra ferla teljast m.a. ferlar er varða áhættutöku og takmörkun á þeirri áhættu sem hefur, eða kann að hafa, áhrif á starfsemi bankans.

3.5.5. Að samþykkja stefnu um innra matskerfi fyrir útlánaáhættu (IRB), að fenginni tillögu bankastjóra og umfjöllun Áhættunefndar.

3.5.6. Að leggja mat á rekstur bankans í heild.

3.5.7. Að sjá um ráðningu og uppsögn bankastjóra, ákveða laun og ráðningarkjör hans og meta frammistöðu hans að minnsta kosti árlega.

3.5.8. Að ákveða, að fengnum tillögum bankastjóra, hvaða starfsmenn bankans teljist til lykilstarfsmanna í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.

3.5.9. Að samþykkja, að tillögu bankastjóra, hvaða starfsmaður skuli vera staðgengill bankastjóra.

3.5.10. Að fjalla árlega um mat bankastjóra á frammistöðu helstu stjórnenda bankans.

3.5.11. Að leggja starfskjarastefnu fyrir hluthafafund til samþykktar.

3.5.12. Að yfirfara árlega stjórnarháttayfirlýsingu bankans og endurmeta stjórnarhætti bankans með tilliti til viðurkenndra leiðbeininga um stjórnarhætti og bregðast við með viðeigandi hætti ef þörf er á.

3.5.13. Að yfirfara og endurskoða starfsreglur bankaráðs árlega.

3.5.14. Að framkvæma árangursmat, sbr. 19. gr. starfsreglna þessara.

3.5.15. Að samþykkja stefnu um samfélagslega ábyrgð bankans og siðasáttmála fyrir stjórn, stjórnendur og starfsmenn bankans og samstæðu bankans.

3.6. Helstu hlutverk bankaráðs er varða eftirlit með starfsemi bankans eru:

3.6.1. Að fylgjast með því að starfsemi bankans í heild og einstakra eininga sé í samræmi við ákvarðanir bankaráðs, stefnu þess og áætlanir.

3.6.2. Að sjá til þess að til staðar sé virkt innra eftirlit, en í því felst að fyrirkomulag innra eftirlits sé formlegt, skjalfest og að virkni þess sé sannreynd reglulega.

3.6.3. Að fjalla um greiningu þeirrar áhættu sem Landsbankinn stendur frammi fyrir, eiginfjárþörf og að viðeigandi viðbragðsáætlanir séu til staðar.

3.6.4. Að sjá til þess að virk og árangursrík áhættustjórnun sé viðhöfð í starfsemi bankans.

3.6.5. Að veita framkvæmdastjóra Áhættustýringar, innri endurskoðanda og regluverði fullan aðgang að bankaráði varðandi þau mál sem stjórnendur telja að eigi erindi við bankaráð í þeim tilgangi að það geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.

3.6.6. Að sjá um ráðningu og uppsögn innri endurskoðanda, ákveða laun og ráðningarkjör hans að fenginni umsögn Endurskoðunarnefndar, tryggja sjálfstæði hans í starfi og ákveða hvaða starfsmaður skuli vera staðgengill hans

3.6.7. Að samþykkja árlega erindisbréf Innri endurskoðunar, áhættumiðaða endurskoðunaráætlun, fjárhags- og mannauðsáætlun og val á aðilum sem framkvæma reglubundið ytra gæðamat á Innri endurskoðun.

3.6.8. Að staðfesta ráðningu regluvarðar og samþykkja starfslýsingu regluvarðar árlega og helstu starfsáherslur næsta árs.

3.5.9. Að leggja fram tillögu um kosningu ytri endurskoðenda fyrir aðalfund, að fenginni tillögu Endurskoðunarnefndar.

3.6.10. Að taka ákvörðun um tillögu bankastjóra um uppsögn framkvæmdastjóra Áhættustýringar eða um tilfærslu hans í starfi, að fenginni umsögn Áhættunefndar.

3.6.11. Að veita prókúruumboð.

3.6.12. Að fylgjast með því og tryggja eftir bestu getu að tilkynningar og upplýsingar sem bankanum ber að veita samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki séu réttar.

3.6.13. Að hafa, eftir atvikum, eftirlit með mati á eignum félagsins, notkun innri líkana og notkun mats frá lánshæfismatsfyrirtækjum.

3.7. Helstu hlutverk bankaráðs er varða ársreikninga og uppgjör eru:

3.7.1. Að sjá til þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi, meðferð fjármuna, uppgjöri og rekstri.

3.7.2. Að sjá um, ásamt bankastjóra, gerð ársreiknings og samstæðureiknings bankans í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga.

3.7.3. Að taka ársreikning Landsbankans og samstæðureikning til afgreiðslu og undirrita, ásamt bankastjóra. Telji bankaráðsmaður eða bankastjóri að ekki beri að samþykkja ársreikning eða samstæðureikning, eða hann hefur mótbárur fram að færa sem hann telur rétt að hluthafar fái vitneskju um, skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.

3.7.4. Að leggja fram tillögur um ráðstöfun á tekjuafgangi til varasjóðs og annarra sjóða fyrir hluthafafund eða aðalfund bankans.

3.7.5. Að samþykkja arðgreiðslustefnu.

3.8. Bankaráð tekur ekki ákvarðanir um einstök viðskipti nema sérstaklega sé kveðið á um annað í innri reglum bankans sem settar eru af bankaráði, s.s. útlánareglum, markaðsáhættureglum og lausafjárreglum.

3.9. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar falla undir verksvið bankaráðs. Dæmi um ráðstafanir sem teljast vera óvenjulegar eða mikilsháttar:

3.9.1. Ákvarðanataka í málum sem eru umfram heimildir bankastjóra eins og þær hafa verið skilgreindar í reglum, stefnu eða öðru sem bankaráð hefur samþykkt.

3.9.2. Ákvarðanataka um byggingu, kaup, sölu og veðsetningu á fasteignum sem nýttar eru í starfsemi bankans, að fenginni tillögu bankastjóra. Bankaráð getur veitt tilteknum starfsmönnum bankans tímabundið umboð til að undirrita kaupsamninga og afsöl um fasteignir fyrir hönd bankans.

3.9.3. Ákvarðanataka um að stofna eða leggja niður útibú að fenginni tillögu bankastjóra.

3.9.4. Ákvarðanataka um samruna við önnur fjármálafyrirtæki.

3.9.5. Ákvarðanataka um kaup og sölu á eignarhlutum í dóttur- og hlutdeildarfélögum.

4. gr. Störf bankaráðsmanna

4.1. Bankaráðsmenn þurfa að þekkja þau lög og reglur sem gilda um starfsemi Landsbankans. Bankaráðsmenn þurfa jafnframt að:

4.1.1. Verja fullnægjandi tíma í störf sín í þágu bankans.

4.1.2. Taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig, enda eiga bankaráðsmenn ekki sérstaklega að gæta hagsmuna þeirra aðila sem studdu þá til stjórnarsetu.

4.1.3. Hafa skilning á hlutverki bankaráðs, hlutverki sínu og ábyrgð.

4.1.4. Hafa skilning á markmiðum og verkefnum bankans, hvernig þeir eigi að haga störfum sínum til að stuðla að því að markmið hans náist.

4.1.5. Óska eftir og kynna sér öll gögn og upplýsingar sem þeir telja sig þurfa til að hafa fullan skilning á rekstri bankans og til að taka upplýstar ákvarðanir.

4.1.6. Sjá til þess að til staðar sé innra eftirlit og að ákvörðunum stjórnar sé framfylgt.

4.1.7. Sjá til þess að lögum og reglum sé fylgt í rekstri.

4.1.8. Starfa af heiðarleika, heilindum og fagmennsku og vera sjálfstæðir í hugsun til þess að geta með skilvirkum hætti metið, gagnrýnt og haft eftirlit með ákvarðanatöku bankastjóra.

4.1.9. Haga störfum sínum í samræmi við góða stjórnarhætti, sbr. leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, útgefnum af Viðskiptaráði, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins.

4.1.10. Stuðla að góðum starfsanda innan bankaráðs.

4.1.11. Koma í veg fyrir að málefni þeirra, hvort heldur persónuleg eða viðskiptatengd, leiði til beinna eða óbeinna hagsmunaárekstra milli þeirra og bankans eða viðskiptavina hans.

4.1.12. Framfylgja innri reglum bankans að því leyti sem þær gilda um bankaráðsmenn.

4.2. Störf bankaráðs eiga almennt að fara fram á bankaráðsfundum. Komi til samráðs milli bankaráðsmanna og/eða milli bankaráðsmanna og stjórnenda Landsbankans utan bankaráðsfunda skal upplýst um slíkt við upphaf næsta bankaráðsfundar, varði samráðið ákvarðanir bankaráðs eða forsendur ákvarðana bankaráðs.

4.3. Störf bankaráðs skulu fara fram með þeim hætti að samkeppnislegt sjálfstæði bankans sé tryggt gagnvart öðrum viðskiptabönkum í eigu íslenska ríkisins í samræmi við ákvæði samkeppnislaga nr. 44/2005 og ákvæði sáttar annars vegar Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Landsbankans hf. og Íslandsbanka hf. og hins vegar Samkeppniseftirlitsins dagsetta 11. mars 2016, nr. 9/2016.

5. gr. Hlutverk formanns bankaráðs

5.1. Formaður bankaráðs skal sjá til þess að bankaráð gegni hlutverki sínu með skilvirkum og skipulögðum hætti. Formaður skal ekki taka að sér önnur störf fyrir Landsbankann en þau sem teljast eðlilegur hluti af störfum hans sem formaður bankaráðs. Þó má formaður bankaráðs sinna einstökum verkefnum sem bankaráð felur honum að vinna fyrir sig.

5.2. Helstu hlutverk formanns bankaráðs eru:

5.2.1. Að stuðla að því að verklag bankaráðs sé í samræmi við lög, reglur og góða stjórnarhætti og að bankaráði séu búnar sem bestar starfsaðstæður.

5.2.2. Að halda öllum bankaráðsmönnum upplýstum um málefni sem bankanum tengjast og stuðla að virkni bankaráðs í allri umræðu og ákvarðanatöku.

5.2.3. Að sjá til þess að bankaráð uppfæri, með reglubundnum hætti, þekkingu sína á bankanum og rekstri hans.

5.2.4. Að sjá til þess að bankaráðsmenn fái viðeigandi leiðsögn um helstu þætti er varða stjórnun fyrirtækja, t.a.m. um lögbundnar skyldur þeirra og ábyrgð, eða að bankaráðsmenn sæki námskeið af því tagi.

5.2.5. Að boða til bankaráðsfunda.

5.2.6. Að útbúa fundardagskrá í samstarfi við varaformann og bankastjóra og að sjá til þess að hún sé send út tímanlega fyrir hvern bankaráðsfund. Formaður skal verða við beiðni bankaráðsmanns um að taka tiltekið málefni á dagskrá, enda berist beiðnin tímanlega áður en dagskráin er send út.

5.2.7. Að sjá til þess að bankaráð fái almennt í störfum sínum nákvæmar og skýrar upplýsingar og gögn til þess að sinna starfi sínu.

5.2.8. Að leggja til við bankaráð, í samráði við bankastjóra, að ákveðnum starfsmanni bankans verði falið að rita fundargerðir bankaráðs og annast um tengd störf og í hverju starfsskyldur ritarans felast.

5.2.9. Að stýra bankaráðsfundum og sjá til þess að nægur tími sé gefinn til umræðna og ákvarðanatöku, sérstaklega hvað varðar stærri og flóknari mál.

5.2.10. Að stuðla að virkri þátttöku allra bankaráðsmanna í umræðu og ákvarðanatöku.

5.2.11. Að sjá til þess að nýir bankaráðsmenn fái nauðsynlegar upplýsingar og leiðsögn í starfsháttum bankaráðs og málefnum Landsbankans, m.a. um stefnu hans, markmið, starfsemi, áhættuviðmið og rekstur.

5.2.12. Að sjá til þess að bankaráð meti árlega störf sín og að lagt sé mat á frammistöðu undirnefnda.

5.2.13. Að fylgjast með framvindu ákvarðana bankaráðs innan Landsbankans og staðfesta innleiðingu þeirra gagnvart bankaráði.

5.2.14. Að bera ábyrgð á samskiptum bankaráðs við hluthafa bankans.

5.2.15. Að vera talsmaður bankaráðs gagnvart fjölmiðlum, hluthöfum og öðrum hagsmunaaðilum.

5.2.16. Að taka frumkvæði að árlegri endurskoðun starfsreglna bankaráðs.

5.2.17. Að leggja fram tillögu að árlegri starfsáætlun bankaráðs innan mánaðar frá aðalfundi.

6. gr. Hlutverk bankastjóra

6.1. Bankastjóri annast daglegan rekstur Landsbankans og framkvæmir stefnu, ákvarðanir og fyrirmæli bankaráðs. Bankastjóri skal ávallt starfa af heilindum, með hagsmuni bankans að leiðarljósi. Hann fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum bankans í samræmi við stefnu, markmið, áhættuvilja og mörk samkvæmt ákvörðun bankaráðs. Ákvörðunarvald bankastjóra nær til allra málefna sem ekki eru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Slíkar ráðstafanir getur bankastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá bankaráði, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana bankaráðs án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi bankans. Í slíkum tilvikum skal bankaráði tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.

6.2. Bankastjóra ber að sjá til þess að meðferð eigna og rekstur Landsbankans sé í samræmi við stefnu bankans, lög, reglur og góða viðskiptahætti og bankastjóri innleiðir og starfrækir skilvirkt innra eftirlitskerfi í samræmi við ákvörðun bankaráðs.

6.3. Bankastjóri skal sjá til þess að bankaráðsmenn fái reglulega nauðsynlegar upplýsingar um fjármál, uppbyggingu og rekstur bankans svo að þeir geti sinnt störfum sínum. Bankastjóri skal á reglubundnum fundum bankaráðs gera grein fyrir helstu atriðum í starfsemi bankans og hvernig ákvörðunum og stefnumótun bankaráðs hefur verið framfylgt. Bankaráð getur kallað eftir sérstökum skýrslum um reksturinn telji það ástæðu til.

6.4. Bankastjóri leggur árlega fram drög að viðskipta- og fjárhagsáætlun fyrir bankaráð.

6.5. Bankastjóri skal hvorki eiga sæti í stjórnum annarra fyrirtækja né taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema með sérstöku leyfi bankaráðs. Við þá ákvörðun skal fjalla um ástæður þess að bankastjóri taki slíkt sæti og áhrif stjórnarsetunnar á Landsbankann. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri, nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórnun þess. Bankastjóri setur reglur um þátttöku starfsmanna Landsbankans í atvinnurekstri.

6.6. Bankastjóri upplýsir bankaráð um hvaða starfsmenn skuli vera staðgenglar framkvæmdastjóra

7. gr. Hlutverk ritara bankaráðs

7.1. Bankaráð tilnefnir ritara að fenginni tillögu formanns bankaráðs, eftir samráð við bankastjóra. Breytingar á starfshögum ritara bankaráðs verða ekki nema með samþykki bankaráðs. Hlutverk ritara er nánar skilgreint í starfslýsingu hans sem bankaráð samþykkir.

8. gr. Undirnefndir bankaráðs

8.1. Bankaráð ber ábyrgð á skipun og störfum undirnefnda og starfa þær í umboði þess. Stofnun undirnefnda dregur ekki úr ábyrgð bankaráðs né leysir það undan ábyrgð. Allir bankaráðsmenn skulu hafa yfirsýn yfir þau mál sem eru unnin af undirnefndum og vera meðvitaðir um að ákvörðunarvald er ávallt á hendi bankaráðsins alls.

8.2. Innan bankaráðs starfa fjórar undirnefndir sem undirbúa umfjöllun innan bankaráðs á tilteknum starfssviðum og annast nánari athugun á málum. Ákvörðunarvald og ábyrgð er óskert hjá bankaráði. Undirnefndirnar eru:

 • Áhættunefnd.
 • Endurskoðunarnefnd.
 • Framtíðarnefnd.
 • Starfskjaranefnd.

8.3. Innan eins mánaðar frá aðalfundi bankans skipar bankaráð nefndarmenn og formenn í hverja nefnd til eins árs í senn. Hlutverk undirnefnda er ákvarðað nánar í starfsreglum sem bankaráð setur hverri nefnd. Starfsreglurnar skulu birtar á vef bankans.

8.4. Um undirbúning og framkvæmd funda, hlutverk formanns, fundarsetu annarra en nefndarmanna, ritara, hæfi, sjálfstæði og hagsmunaárekstra gilda ákvæði starfsreglna þessara eftir því sem við á, nema kveðið sé á um annað í starfsreglum viðkomandi undirnefndar.

8.5. Undirnefnd má að fengnu samþykki bankaráðs leita eftir viðeigandi, óháðri, faglegri ráðgjöf á kostnað bankans ef og þegar hún telur það nauðsynlegt. Ráðgjafar skulu vera óháðir bankanum, nefndarmönnum, bankaráðsmönnum og daglegum stjórnendum. Það er nefndarinnar að ganga úr skugga um óhæði slíkra ráðgjafa.

8.6. Formenn viðkomandi nefnda skulu reglulega gera bankaráði grein fyrir störfum undirnefnda, svo og þegar einstök mál koma til umræðu á bankaráðsfundi, hafi þau verið rædd í viðkomandi undirnefnd. Bankaráðsmenn skulu auk þess hafa aðgang að fundargerðum undirnefnda í skjalastjórnunarkerfi Landsbankans. Undirnefndir skulu gefa bankaráði árlega skýrslu um störf sín.

8.7. Nefndarmenn skulu fá fræðslu, leiðsögn og upplýsingar um störf og starfshætti viðkomandi nefndar frá starfsmönnum bankans.

8.8. Bankaráð getur ákveðið að stofna til annarra undirnefnda eftir þörfum og skal þá uppfæra starfsreglur þessar.

9. gr. Bankaráðsfundir

9.1. Reglulegir bankaráðsfundir eru ákveðnir til eins árs í senn, frá aðalfundi til næsta aðalfundar, og skal formaður bankaráðs leggja fram tillögu að árlegri starfsáætlun innan eins mánaðar frá aðalfundi Landsbankans.

9.2. Bankaráðsfundi skal almennt halda í húsakynnum Landsbankans. Unnt er að halda bankaráðsfundi með aðstoð rafrænna miðla að svo miklu leyti sem það samræmist framkvæmd verkefna bankaráðs. Bankaráðsmaður eða bankastjóri getur krafist þess að bankaráðsfundur verði haldinn með hefðbundnum hætti.

9.3. Bankaráðsfundir eru lögmætir ef meirihluti bankaráðsmanna sækja fund. Það telst lögmæt mæting og þátttaka ef bankaráðsmaður eða varamaður hans tekur þátt í fundinum í gegnum fundarsíma.

9.4. Formaður bankaráðs boðar til bankaráðsfunda en er heimilt að fela bankastjóra eða öðrum starfsmanni bankans umboð til þess. Að jafnaði skal senda fundarboð og dagskrá með minnst sjö daga fyrirvara og skal koma fram í dagskrá hvort mál séu lögð fram til kynningar eða ákvörðunartöku. Fundarboð og dagskrá skal ávallt senda með tölvupósti á netföng bankaráðsmanna hjá Landsbankanum. Formaður bankaráðs getur ákveðið skemmri frest telji hann það óhjákvæmilegt vegna sérstakra aðstæðna. Sé brýn ástæða til getur bankastjóri kallað til bankaráðsfundar með skömmum fyrirvara.

9.5. Bankaráðsfundir skulu haldnir að lágmarki mánaðarlega en oftar telji bankaráð ástæðu til. Fund skal halda ef einhver bankaráðsmanna eða bankastjóri óskar þess.

9.6. Bankaráðsmenn eiga að tilkynna fyrirsjáanleg forföll eigi síðar en fimm dögum fyrir bankaráðsfund til skrifstofu bankastjóra sem boðar varamann í stað þeirra.

9.7. Leitast skal við að afhenda fundargögn eigi síðar en fimm dögum fyrir bankaráðsfundi. Bankaráðsmenn hafa aðgang að fundargögnum fyrri bankaráðsfunda. Ætíð skal gæta fyllstu varúðar við afhendingu og meðferð fundargagna.

9.8. Sérhver bankaráðsmaður skal kynna sér dagskrá hvers fundar og upplýsa bankaráð ef hann telst vanhæfur til þess að taka þátt í meðferð þeirra fundarefna sem þar eru tilgreind, sbr. 10. gr.

9.9. Gögn sem lögð eru fyrir bankaráðsfundi skulu vera í samræmi við kröfur sem bankaráð hefur tekið ákvörðun um. Ritari bankaráðs í samráði við bankastjóra metur hvort gögn teljist fundartæk og upplýsir formann bankaráðs ef svo er ekki.

9.10. Bankastjóri á sæti á bankaráðsfundum og hefur þar umræðu- og tillögurétt nema bankaráð ákveði annað. Bankastjóri er ekki viðstaddur ef persónuleg málefni hans eru til umræðu eða hann telst vanhæfur til að fjalla um viðkomandi mál.

9.11. Bankaráð ákveður hvort og hvenær aðrir starfsmenn bankans sitja bankaráðsfundi. Skal bóka í fundargerð hvenær þeir koma inn á fund og hvenær þeir víkja af fundi.

9.12. Innri endurskoðandi hefur rétt til setu á bankaráðsfundum þar sem fjallað er um mál sem varða endurskoðun, fjárhagsupplýsingar, stjórnarhætti og innri eftirlit. Innri endurskoðandi getur ennfremur óskað eftir samþykki formanns bankaráðs til að sitja bankaráðsfundi, telji innri endurskoðandi það mikilvægt starfa sinna vegna.

9.13. Endurskoðendur Landsbankans eiga rétt á að sitja bankaráðsfundi þegar fjallað er um reikningsskil sem þeir árita og geta þar látið í ljós álit á því hvort reikningsskilin og skýrsla stjórnar innihaldi nauðsynlegar og lögboðnar upplýsingar. Á bankaráðsfundi skal gerð grein fyrir ábendingum og athugasemdum, sem endurskoðendur bankans vilja koma á framfæri við bankaráð eða bankastjóra, svo og skýrslum um endurskoðunaraðgerðir eða aðra þætti er varða endurskoðunina. Umfjöllun þessi skal skráð í fundargerð bankaráðs.

9.14. Halda skal fundargerðir um það sem gerist á bankaráðsfundum og skulu þær undirritaðar af þeim sem sitja fundinn. Geyma skal fundargerðir hjá Landsbankanum ásamt framlögðum fundargögnum. Eftirfarandi upplýsingar eiga að koma fram í fundargerð:

 • Nafn og kennitala bankans.
 • Fundarstaður.
 • Fundardagsetning og fundartími (upphaf og endir).
 • Númer bankaráðsfundar.
 • Hverjir voru viðstaddir fundinn.
 • Bóka þegar utanaðkomandi aðilar koma inn á fund og þegar þeir fara út af fundi.
 • Nafn fundarstjóra og fundarritara.
 • Fundargögn sem voru afhent eða sýnd á fundinum.
 • Samantekt (ákvarðanir teknar, hverju er frestað, fyrirspurnir og slíkt).
 • Hvenær og hvar næsti bankaráðsfundur verður haldinn.
 • Skýr niðurstaða dagskrárliða.

9.15. Ritari sem bankaráð hefur valið til starfsins situr bankaráðsfundi og ritar fundargerð. Ef þess er óskað af bankaráðsmanni eða bankastjóra skal viðkomandi starfsmaður víkja af fundi. Formaður bankaráðs ákveður hvaða bankaráðsmaður skuli annast fundarritun í fjarveru ritara.

9.16. Að jafnaði skal senda fundarmönnum drög að fundargerð til yfirlestrar og athugasemda innan fimm virkra daga frá bankaráðsfundi. Fundargerðin skal undirrituð af þeim bankaráðsmönnum sem sátu viðkomandi fund, ritara bankaráðs og bankastjóra. Hafi bankaráðsmaður ekki tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis skal bankaráð ákveða hvort ástæða sé til að hann undirriti samrit af fundargerðinni þar sem afmáð hefur verið umfjöllun um viðkomandi mál. Slíkt samrit skal þá skráð í fundargerð.

9.17. Fundargerðir bankaráðs eru vistaðar í skjalastjórnunarkerfi bankans og hafa bankaráðsmenn, bankastjóri, ritari bankaráðs, skrifstofustjóri á skrifstofu bankastjóra, regluvörður og innri endurskoðandi aðgang að fundargerðum í kerfinu, nema vanhæfi þeirra hamli því.

9.18. Mál skulu almennt ekki borin upp til ákvörðunar á bankaráðsfundum nema því aðeins að bankaráðsmenn hafi fengið gögn málsins eða fullnægjandi upplýsingar um það fyrir fundinn.

9.19. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Bóka skal í fundargerð ef bankaráðsmenn sitja hjá við atkvæðagreiðslu um einstök mál.

9.20. Bankaráðsmaður eða bankastjóri, á rétt á að fá sérálit sitt eða athugasemd bókaða í fundargerð. Bankaráðsmaður skal jafnframt tryggja að skoðanir hans tengdar einstökum málum séu skráðar í fundargerð sé hann ósáttur við ákvarðanatöku meirihluta bankaráðs, enda geri viðkomandi bankaráðsmaður skýrlega grein fyrir þeim skoðunum á fundinum sjálfum.

9.21. Ef ákvörðun bankaráðs felur í sér upplýsingar sem kunna að hafa marktæk áhrif á verðmæti fjármálagerninga útgefnum af Landsbankanum sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði þá skal bankastjóri tilkynna slíkt til regluvarðar.

10. gr. Hæfi bankaráðsmanna til afgreiðslu einstakra mála

10.1. Bankaráð skal ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti, nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð Landsbankans skv. skilgreiningu í útlánareglum. Einstakir bankaráðsmenn skulu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti.

10.2. Bankaráðsmenn skulu ekki taka þátt í meðferð mála er varðar viðskipti þeirra sjálfra, fyrirtækja sem þeir eiga beinan eða óbeinan virkan eignarhlut í, sitja í stjórn hjá eða eru fyrirsvarsmenn fyrir eða þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta. Sama gildir um þátttöku bankaráðsmanna í meðferð mála sem tengjast aðilum sem teljast tengdir þeim með öðrum hætti. Er hér hvoru tveggja átt við persónuleg og fjárhagsleg tengsl. Framangreint á einnig við um þátttöku í meðferð mála er varða samkeppnisaðila bankaráðsmanna eða aðila þeim tengdum.

10.3. Þegar bankaráðsmaður tekur sæti í bankaráði skal hann gera bankaráði grein fyrir þeim aðilum sem hann tengist með þeim hætti sem um getur í grein 10.2. Bankaráðsmaður skal tilkynna bankaráði um allar breytingar sem verða á slíkum tengslum. Ritari bankaráðs skal halda skrá yfir aðila sem bankaráðsmenn tengjast með þessum hætti og skal skráin vera aðgengileg á fundum bankaráðs.

10.4. Bankaráðsmanni ber að upplýsa bankaráð um atvik sem geta valdið vanhæfi hans um leið og slík mál koma upp. Teljist bankaráðsmaður vanhæfur vegna mála sem um getur í grein 10.2, skal hann jafnframt gera skrifstofu bankastjóra viðvart um slík mál á dagskrá bankaráðsfundar áður en fundargögn eru send út fyrir viðkomandi fund.

10.5. Bankaráðsmaður eða bankastjóri geta krafist þess að bankaráðsmaður víki sæti áður en efni máls er kynnt og gögn afhent, telji þeir bankaráðsmann vanhæfan til meðferðar máls. Bankaráð tekur ákvörðun um vanhæfi einstakra bankaráðsmanna ef vafamál kemur upp.

10.6. Vanhæfur bankaráðsmaður á ekki að taka þátt í meðferð slíks máls að nokkru leyti og á þar af leiðandi ekki að fá aðgang að gögnum eða vera viðstaddur umræður eða ákvarðanatöku á bankaráðsfundum. Aðgangi að skjalastjórnunarkerfi bankans skal þá stýrt með þeim hætti að bankaráðsmaður fái ekki aðgang að fundargögnum og fundargerðum sem fjalla um það málefni er leiðir til vanhæfis. Bóka skal í fundargerð að bankaráðsmaður hafi vikið sæti og að hann hafi ekki fengið aðgang að gögnum.

10.7. Bankaráðsmenn og varamenn þeirra mega ekki koma fram sem umboðsaðilar annarra gagnvart bankanum.

11. gr. Meðferð upplýsinga um einstaka viðskiptavini

11.1. Upplýsingagjöf til bankaráðsmanna um viðskiptavini skal aðeins fara fram á bankaráðsfundum. Bankaráðsmönnum er óheimilt að hafa beint samband við starfsmenn til að afla upplýsinga um viðskiptavini Landsbankans. Berist starfsmönnum slík beiðni skulu þeir gera bankastjóra viðvart.

11.2. Fyrirspurnir bankaráðsmanna um einstök viðskipti eða viðskiptavini skal bera upp í bankaráði og svör við einstökum fyrirspurnum skulu kynnt á bankaráðsfundi og bókuð í fundargerð.

11.3. Óheimilt er að fara með trúnaðarskjöl sem varða einstaka viðskiptavini út úr starfsstöðvum Landsbankans nema gögn séu geymd á lokuðu vefsvæði í samræmi við öryggisreglur bankans um upplýsingaöryggi. Bankaráðsmenn skulu afhenda útprentuð fundargögn til eyðingar í lok bankaráðsfunda nema bankaráð samþykki annað.

12. gr. Meðferð upplýsinga um starfsemi Landsbankans

12.1. Bankaráð skal hafa aðgang að öllum gögnum sem varða starfsemi Landsbankans og nauðsynleg eru til þess að bankaráðsmenn geti sinnt eftirlitsskyldu sinni. Bankaráðsmenn afla ekki upplýsinga með því að hafa beint samband við starfsmenn bankans.

12.2. Allir bankaráðsmenn hafa jafnan rétt til upplýsinga um bankann.

12.3. Fyrirspurnir bankaráðsmanna skal bera upp á bankaráðsfundum. Bankaráðsmenn geta sent fyrirspurnir til bankastjóra á milli bankaráðsfunda og skal það þá gert með tölvupósti sem formaður og ritari bankaráðs fá afrit af. Svör við fyrirspurnum skulu kynnt bankaráði öllu á sama tíma, annað hvort með tölvupósti eða á bankaráðsfundi.

12.4. Bóka skal fyrirspurnir og svör við þeim í fundargerð.

13. gr. Fyrirgreiðslur til venslaðra aðila

13.1. Þegar bankaráðsmaður tekur sæti í bankaráði skal hann gera grein fyrir þeim aðilum sem hann er venslaður. Einnig skal bankaráðsmaður tilkynna bankanum um allar breytingar sem verða á lista yfir þá aðila sem honum eru venslaðir.

13.2. Venslaðir aðilar eru m.a. aðalmenn og varamenn í bankaráði og bankastjóri, nánir fjölskyldumeðlimir þeirra og aðilar í nánum tengslum við þá. Með nánum fjölskyldumeðlimum er m.a. átt við maka aðila eða sambúðarmaka hans, börn aðila, börn maka eða sambúðarmaka og aðila sem eru fjárhagslega háðir aðila eða telja má að þeir verði fyrir áhrifum af ákvörðun hans.

13.3. Leggja skal fyrir innri endurskoðanda að fara með reglubundnum hætti yfir fyrirgreiðslu til venslaðra aðila, m.a. með tilliti til kjara, endursamninga og stöðu, og skal innri endurskoðandi greina frá niðurstöðum athugana sinna í skýrslu til bankaráðs.

13.4. Ytri endurskoðandi Landsbankans skal jafnframt fara yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og bera saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina og gefa rökstutt álit, m.a. m.t.t. kjara, endursamninga og stöðu viðkomandi (armslengdarsjónarmið). Í skýrslu ytri endurskoðanda skal m.a. koma fram um hvaða samanburðaraðila er að ræða í hverju tilviki.

14. gr. Viðskiptaerindi bankaráðsmanna og bankastjóra

14.1. Viðskiptaerindi bankaráðsmanna og fyrirtækja sem þeir eru í forsvari fyrir skulu lögð fyrir bankaráð til samþykktar eða synjunar. Undanskilin eru þó eftirfarandi viðskiptaerindi:

14.1.1. Eftirfarandi persónuleg viðskiptaerindi bankaráðsmanna sem framkvæmd eru í samræmi við almennar reglur Landsbankans á hverjum tíma:

14.1.1.1. Innlán.

14.1.1.2. Útlán þar sem heildarskuldbinding allra útlána nemur allt að 75 milljónum króna.

14.1.1.3. Greiðsluþjónusta.

14.1.1.4. Eignaleiga.

14.1.1.5. Eignastýringarþjónusta og fjárfestingarráðgjöf.

14.1.1.6. Kaup og sala í gegnum viðskiptakerfi Kauphallar á skráðum hlutabréfum eða skuldabréfum.

14.1.1.7. Kaup og sala hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum á vegum dótturfélaga Landsbankans.

14.1.1.8. Önnur almenn og hefðbundin bankaþjónusta sem felur ekki í sér fjárhagslega fyrirgreiðslu

14.1.2. Eftirfarandi viðskiptaerindi fyrirtækja sem bankaráðsmaður er í forsvari fyrir, þ.e. sem stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri, og sem framkvæmd eru í samræmi við almennar reglur Landsbankans á hverjum tíma:

14.1.2.1. Útlán þar sem heildarskuldbinding allra útlána nemur allt að 200 milljónum króna.

14.1.2.2 Ábyrgðir þar sem heildarskuldbinding allra ábyrgða nemur allt að 200 milljónum króna.

14.1.2.3. Viðskiptaerindi sem talin eru upp í 14.1.1.1 og 14.1.1.3-14.1.1.8

14.2. Samningar Landsbankans um viðskipti við bankastjóra eru háðir samþykki bankaráðs. Ákvörðun bankaráðs þar um skal bókuð í fundargerð. Bankastjóra er óheimilt að gangast í ábyrgðir fyrir aðra gagnvart bankanum eða gerast umboðsmaður þeirra gagnvart honum. Ákvæði þetta á líka við um maka bankastjóra.

14.3. Við framkvæmd ofangreindra ákvæða skal gæta að þeim mörkum og kröfum sem kveðið er á um í reglum um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila.

15. gr. Seta bankaráðsmanna í stjórnum dóttur- og hlutdeildarfyrirtækja

15.1. Komi til stofnunar dótturfélags skulu bankaráðsmenn ekki setjast í stjórn þess nema nauðsyn beri til vegna eðlis stjórnarstarfsins.
15.2. Áður en ákvörðun er tekin um að bankaráðsmaður taki að sér stjórnarstarf í dótturfélagi eða hlutdeildarfélagi skal bankaráð fjalla sérstaklega um áhrif stjórnarsetunnar á eftirlitshlutverk bankaráðsmannsins og rökstyðja í fundargerð nauðsyn þess að bankaráðsmaðurinn taki sæti í stjórninni.

16. gr. Val á stjórnarmönnum tilnefndum af Landsbankanum

16.1. Bankaráð tekur ákvörðun, að fenginni tillögu bankastjóra, um stjórnarmenn í stjórnir helstu félaga í eigu bankans, sem og í stjórnir annarra lögaðila þegar við á. Bankaráð tekur, að fenginni tillögu bankastjóra, ákvörðun um hvaða félög og lögaðilar skuli falla hér undir og skal þar horft til mikilvægis þeirra fyrir hagsmuni bankans. Endurskoða skal hvaða aðilar falla hér undir ef verulegar breytingar verða á eignarhaldi bankans á félögum. Bankastjóri skal fylgja skriflegu matsferli, samþykktu af bankaráði, við undirbúning tillögu til bankaráðs um tilnefningu stjórnarmanna.

16.2. Bankastjóri tilnefnir stjórnarmenn í stjórnir annarra félaga og lögaðila en þeirra sem bankaráð tekur ákvörðun um.

16.3. Við skipan stjórnarmanna í helstu dótturfélög bankans skal séð til þess að kynjahlutfall sé í samræmi við jafnréttislög og jafnréttisstefnu bankans, að teknu tilliti til hæfni þeirra sem til greina koma við slíka skipan.

17. gr. Þagnar- og trúnaðarskylda

17.1. Bankaráðsmenn eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfs síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptavina bankans, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Sá sem veitir slíkum upplýsingum viðtöku er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.

17.2. Á bankaráðsmönnum hvílir jafnframt þagnarskylda um málefni Landsbankans, hagi starfsmanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu sem bankaráðsmenn og leynt skulu fara samkvæmt lögum, samþykktum bankans eða eðli máls. Til að tryggja slíkan trúnað skal viðhafa sérstaka varúð, t.d. við geymslu, ljósritun, tölvuskráningu og eyðingu gagna. Hvers konar afritun, upptaka og hlerun er óheimil á fundum bankaráðs og undirnefnda.

17.3. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

17.4. Bankaráðsmaður er ábyrgur fyrir því að tryggja að þær upplýsingar sem hann fær í hendur sem bankaráðsmaður og eru trúnaðarmál verði ekki dreift eða komist í hendur einstaklinga sem ekki sitja í bankaráði Landsbankans.

17.5. Bankaráðsmenn, aðrir en bankaráðsformaður, skulu almennt ekki tjá sig við fjölmiðla eða snúa sér til almennings varðandi málefni Landsbankans, nema að fengnu samþykki bankaráðs. Varaformaður er staðgengill formanns í fjarveru hans.

18. gr. Árangursmat

18.1. Bankaráð skal árlega og eftir fyrirfram ákveðnu fyrirkomulagi meta störf sín, stærð, samsetningu, verklag og starfshætti, svo og frammistöðu undirnefnda, formanns bankaráðs og bankastjóra. 

18.2. Í slíku mati leggur bankaráðið m.a. mat á styrkleika og veikleika í störfum sínum og verklagi og hugar að því sem það telur að betur megi fara í störfum sínum. Bankaráð skal yfirfara og meta þróun bankans og hvort hún sé í samræmi við markmið hans. Bankaráð getur sjálft lagt mat á störf sín, en jafnframt er heimilt að leita sérfræðiaðstoðar eftir því sem við á. Endurskoðunarnefnd metur árlega störf innri og ytri endurskoðenda.

18.3. Bankaráðsmenn hittast án bankastjóra og annarra starfsmanna að lágmarki árlega, m.a. til að meta frammistöðu bankastjóra og ritara bankaráðs.

19. gr. Móttaka og fræðsla nýrra bankaráðsmanna

19.1. Landsbankanum ber að verja fullnægjandi fjármunum og mannafla til þess að kynna starfsemi bankans fyrir nýjum bankaráðsmönnum og tryggja að þeir hljóti viðeigandi þjálfun til setu í bankaráði. Í Viðauka I við starfsreglur þessar er að finna nánari útlistun á móttöku og fræðslu nýrra bankaráðsmanna.

20. gr. Aðgangur bankaráðs að óháðum ráðgjöfum

20.1. Bankaráðsmaður hefur aðgang að sjálfstæðum og óháðum ráðgjöfum á kostnað bankans telji hann nauðsyn á slíku til þess að taka sjálfstæðar og upplýstar ákvarðanir. Bankaráðsmaður tilkynnir formanni bankaráðs um beiðni um slíka ráðgjöf og felur formaður ritara bankaráðs að annast gerð trúnaðaryfirlýsingar og verksamnings við ráðgjafa f.h. bankaráðs. Fari áætlaður kostnaður vegna beiðni hvers bankaráðsmanns yfir kr. 500.000 hvert ár skal bankaráð fjalla um beiðnina og taka ákvörðun um samþykki eða synjun hennar.

21. gr. Stjórnarhættir

21.1. Landsbankanum ber lögum samkvæmt að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og styðst bankinn í störfum sínum við „Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq OMX Iceland hf. gefa út.

22. gr. Varsla og meðferð starfsreglna

22.1. Þeir sem eiga sæti í bankaráði við setningu starfsreglna þessara skulu undirrita frumrit þeirra. Ef bankaráð samþykkir breytingar á starfsreglunum skulu bankaráðsmenn undirrita frumrit af reglunum svo breyttum. Nýjum bankaráðsmönnum skulu kynntar starfsreglurnar og skulu þeir undirrita frumrit þeirra því til staðfestu. Jafnan skal geyma frumrit af starfreglum þessum með fundargerðum bankaráðs.

22.2. Einungis bankaráð getur gert breytingar á starfsreglum þessum. Til breytinga á starfsreglunum þarf samþykki einfalds meirihluta bankaráðs. Starfsreglur þessar skal yfirfara eigi sjaldnar en árlega.

22.3. Bankaráð skal senda Fjármálaeftirlitinu afrit af reglum þessum innan 14 daga frá því að þær eru settar eða þeim breytt. Komi fram athugasemdir frá Fjármálaeftirlitinu skal um þær fjallað í bankaráði.

Þannig samþykkt á bankaráðsfundi Landsbankans hf. þann 6. mars 2019.

Viðauki I

Móttaka og fræðsla nýrra bankaráðsmanna

Nýir bankaráðsmenn þurfa að fá greinargóðar upplýsingar um bankann og starfsemi hans. Bankaráðsmaður sem fær slíka fræðslu er fljótari að kynnast bankanum og getur því fyrr byrjað að leggja sitt af mörkum á bankaráðsfundum.

Nýr bankaráðsmaður ætti að fá upplýsingar um:

 • Starfsemi bankans.
 • Afurðir og þjónustu.
 • Stefnumótun og viðskiptaáætlun.
 • Áhættustjórnun og viðhorf til áhættu.
 • Störf undirnefnda.
 • Störf og valdsvið bankastjóra.

Nýr bankaráðsmaður á að fá afhent helstu gögn sem varða bankann svo hann geti kynnt sér starfsemi hans og þau lög og reglur sem gilda um fjármálafyrirtæki. Eftirfarandi gögn eru gagnleg fyrir nýja bankaráðsmenn:

 • Samþykktir bankans.
 • Starfsreglur bankaráðs.
 • Starfsáætlun bankaráðs.
 • Reglur bankans.
 • Fundargerðir bankaráðs síðasta árið.
 • Fjárhagslegar upplýsingar.
 • Skipurit.
 • Yfirlit um gildandi lög og reglur er varða starfsemi bankans.
 • Síðasti ársreikningur og árshlutareikningur.
 • Skýrslur og bréf frá innri og ytri endurskoðendum.

Nýr bankaráðsmaður á rétt á kynningarfundi með aðilum sem þekkja bankann vel og geta svarað spurningum hans, t.d. bankastjóra, formanni bankaráðs og innri endurskoðanda.

Bankaráð sem heild ætti að viðhalda slíkri fræðslu og halda reglulega fræðslufundi fyrir bankaráðsmenn þar sem farið er yfir breytingar sem máli skipta.

Prentvæn útgáfa

Starfsreglur bankaráðs