Bankastjóri

Bankastjóri Landsbankans: Úr starfsreglum bankaráðs

9.1. Bankastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Slíkar ráðstafanir getur bankastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild bankaráðs nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar bankaráðs án verulegs óhagræðis fyrir bankann. Í slíkum tilvikum skal bankaráði tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Bankastjóra ber að sjá um að reksturinn sé í öllum atriðum samkvæmt lögum, reglugerðum, samþykktum og ákvörðunum bankaráðs.

9.2. Bankastjóri skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.

9.3. Á hverjum bankaráðsfundi skal bankastjóri gera grein fyrir helstu atriðum í starfsemi bankans og hvernig ákvörðunum og stefnumótun bankaráðs hefur verið framfylgt. Bankaráð getur kallað eftir sérstökum skýrslum um reksturinn telji það ástæðu til.

9.4. Bankastjóri er talsmaður bankans um öll rekstrarleg og viðskiptaleg málefni.

9.5. Bankastjóri hefur heimild til að ákveða kaup og sölu fjármálagerninga í veltubók bankans í samræmi við áhættu- og útlánareglur bankaráðs.

Starfsreglur bankaráðs í heild sinni